Örvitinn

Þetta eru þjófar

Eitt helsta vandamál þjóðarinnar er að nær öll fyrirtæki landsins eru skuldsett í topp. Stöndug fyrirtæki í ágætum rekstri eru við það að fara á hausinn vegna þess að þau skulda svo mikið.

Af hverju skulda þau svona mikið fyrst þau eru í góðum rekstri?

Í sumum tilvikum var það vegna þess að fyrirtækin fóru að fjárfesta, í tækjum til að bæta framleiðslu, öðrum fyrirtækjum til að sameinast eða það var einfaldlega verið að braska með hlutabréf þó hlutabréfabrask væri ekki starfssvið fyrirtækisins.

Önnur ástæða er að fyrirtæki hafa verið skuldsett til að eigendur gætu greitt sér arð. Eigendur tóku í mörgum tilvikum gríðarlegt fé úr fyrirtækjunum sem eru að fara á hausinn í dag vegna skuldsetningar. Eigendurnir eru sumir ósköp vel settir, eiga sína milljarða hér og þar - komu þeim úr landi (og færðu þannig gengi krónunnar niður) og hafa hagnast á braski. Ætla sér í framhaldi að eignast fyrirtæki landsins á brunaútsölu og nota til þess aurana sem teknir voru úr fyrirtækjunum.

Þessir einstaklingar sem blóðmjólkuðu íslensk fyrirtæki eru þjófar og lítilmenni. Það á að setja lög á þetta lið og gera eigur þeirra upptækar. Þetta er ekkert flókið. Það eru hundruðir milljarða í eigu nokkurra einstaklinga. Álíka upphæðir eru að falla á bankana sem þjóðin á - skuldir fyrirtækja sem þjófarnir blóðmjólkuðu. Peningana á að sækja til þeirra.

Þjófarnir geta svo byrjað á byrjunarreit eins og restin af þjóðinni.

pólitík