Örvitinn

Talar Sigmundur Ernir mannamál?

Sigmundi Erni finnst það hið versta mál að foreldrar hafi val um hvort börn þeirra séu send í kirkju um jólin. Á mannamáli er tillitssemi væntanlega tittlingaskítur og hlutleysi í trúmálum eflaust umburðarlyndisfasismi. Ísland er kristið land og á Íslandi eru allir gemlingar börn guðs.

Já, það er svo sannarlega vandlifað Sigmundur.

dylgjublogg
Athugasemdir

Eyja - 10/12/08 11:34 #

Reyndar kannast ég nú ekki við að hafa fengið svona bréf send, hvorki frá leikskólanum né grunnskólanum þar sem börnin mín stunda nám. Ég hef alltaf þurft að hafa frumkvæði að því sjálf að koma athugasemdum um þessar kirkjuheimsóknir á framfæri. (Sendi leikskólabarnið með semingi í kirkjuna þar sem mér finnst ekki hægt að bjóða henni upp á að sitja eftir þegar hún veit að hinir krakkarnir fá að fara eitthvert. Grunnskólabarnið fær að ráða þessu sjálft.)

Matti - 10/12/08 11:35 #

Ég segi það sama, hef aldrei haft nokkurt val varðandi kirkjuferðir um jól.

Líf - 10/12/08 12:54 #

Er samt ekki vissara að láta blessuð börnin njóta kristilegrar verndar þessa dagana, þegar 13 tröll tínast í bæinn eitt af öðru og leggjast á gluggana hjá þeim? Sigmundur er kannski hræddur við tröllin.

Annars var kirkjuferð í skóla sonar míns í dag. Ég leyfði honum að ákveða hvort hann færi. Hann valdi að fara ekki. Hann var eina barnið í þeim hópi sem ekki fór (1.-3. bekkur). Ég er alfarið á móti þessum heimsóknum í kirkjuna og afskiptum kirkjunnar í skólum og leikskólum (ekki hefur kirkjan t.d. herjað á háskólanemendur... hvernig skyldi standa á því?). Ef foreldrar þyrftu frekar að skrá börnin sín í þessar heimsóknir myndi helmingur a.m.k. ekki gera það. Það er vissulega erfitt að vera átta ára og á móti straumnum en það hlýtur að skila sér margfalt einn daginn.

Líf - 10/12/08 12:58 #

Ég vil bæta því við að foreldrar fengu bréf um heimsóknina og þeir ættu að láta vita ef barnið færi ekki með.

Mér finnst að foreldrar geti bara sjálfir farið með börnin í þessar kirkjuferðir ef svo ber við. Skólinn á ekki að sjá um trúarstússið fyrir þá. Sveiattan.

Matti - 10/12/08 13:01 #

Akkúrat. Ef foreldrar nenna ekki að fara með börnin í kirkju er það óskapleg heimtufrekja að ætlast til að skólinn geri það.

Freyr - 10/12/08 15:14 #

Ég spurði skólastjórann fyrir síðustu jól hvernig stæði á þessum kirkjuferðum og hann vísaði í aðalnámskrá grunnskólanna. Það er s.s. kveðið á heimsóknir í kirkju í skólum, skv. lögum.

Hugmyndin er auðvitað að fræða börnin um trúarbrögð eins og gert er í trúarbragðafræði, í formi vettvangsferðar fyrir 1.-7. bekk, en ákvæðið er nægilega loðið orðað til að skólar nýta sér þetta í skyldu-ferð í ríkiskirkju á aðventu.

Matti - 10/12/08 15:20 #

Ef þetta er í Reykjavík er hægt að benda skólastjórnendum á stefnu Menntasvið Reykjavíkur í tenglsum lífsskoðunar- og trúfélega við skóla.

"Lögð er áhersla á að í skólum fer fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en þar er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúar- og lífsskoðunarhópa blandað saman."

"Börnum og unglingum skal ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar Í leik- og grunnskóla skal börnum ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra."

Ég sé í sjálfsögðu ekkert að því að börn fari í vettvangsferðir í kirkjur, skoði þær að innan og heyri sagt frá því sem þar fer fram á hlutlausan hátt. En það er allt annað að láta börn taka þátt í trúarathöfnum. Ég er hræddur um að það sé gert í þessum jólaheimsóknum, a.m.k. var það þannig þegar ég mætti í leikskólaheimsóknirnar með mínum dætrum.

Reið móðir - 10/12/08 17:53 #

Takk fyrir síðuna þína, þú kemur inn á ýmislegt sem allt of margt fólk hugsar ekki mikið út í. sjálf barst ég lengi vel með fjöldanum varðandi trúboð og börn. Það gæti varla skaðað þau að hlusta á fallegan boðskap. Með árunum hefur hugsun mín orðið gagnrýnni og nú vil ég alls ekki að börnum mínum sé innrætt neitt í skólanum. Þar eiga þau að læra. Þá er alveg eins hægt að leyfa stjórnmálaflokkum að vaða þar inn með áróður.

Það ekki eðlilegt í upplýstu þjóðfélagi að trúboði sé þröngvað upp á börn í leik- eða grunnskólum. Kirkjan situr allsstaðar fyrir þeim, þau fá ekki einu sinni frið fyrir þessu í ríkisstyrktum trúarsumarbúðum en sem betur fer verða foreldrar ekki að senda þau þangað eins og í skólann.

Ég er líka verulega hissa og reið yfir öllu því fjármagni sem kirkjan fær frá ríkinu. Það er ekki mjög langt síðan ég áttaði mig á því gífurlega fé sem þangað er ausið. Ætli allir þessir milljarðar á ári kæmu sér ekki betur í heilbrigðiskerfinu þar sem fárveikt fólk er útskrifað allt of snemma vegna sparnaðar? Áttaði sig enginn á þýðingu þess hvað mættu fáir á dýru kristnihátíðina á Þingvöllum um árið? Við erum skráð í þjóðkirkjuna við fæðingu sem mér finnst fáránlegt, þúsundir eru þar af vana án þess að vera trúaðir og þetta kemur út eins og stærstur hluti þjóðarinnar sé kristinn sem er alls ekki svo. Ég er orðin svo pirruð á þessu ríkisdekri og trúboði að ég ætla loksins að láta verða af því að segja mig úr þjóðkirkjunni. Hef hugsað um það í nokkur ár en nú verður framkvæmt. Vil ekki koma nálægt þessu batteríi sem getur ekki látið börnin okkar í friði.

Fyrirgefðu þessa langloku hjá mér. Ég er bara búin að fá upp í kok á þessu rugli.

Matti - 10/12/08 18:00 #

Ekkert að fyrirgefa, mér finnst alltaf gott að finna að fleiri en ég hafa fengið nóg - að ekki eru allir sinnulausir.

Matti - 11/12/08 10:51 #

Gaman að sjá hvað Sigmundur er duglegur að svara gagnrýni!

Ég spái því að bráðlega muni hann kvarta undan ofstækisfullum trúleysingjum sem þoli ekki að hann tjái sig um trúmál.

Óli Gneisti - 23/01/09 11:38 #

This user has elected to delete their account and the content is no longer available.

Þar stóð áður:

Grunnskólayfirvöld kjósa þessi árin að senda uppalendum bréfsefni þeirrar spurningar hvort nemendur megi heimsækja kirkjur landsins á aðventunni. Ég brosi gjarnan út í annað þegar ég fæ þessi bréf. Fyrirhyggjan er eitthvað svo óttablandin.

Kirkjur landsins eru sumsé komnar á gráa svæðið. Það liggur í orðum skólayfirvalda að hætta sé á annarlegri trúarinnrætingu, leyfi maður blessuðum börnunum að vafra um guðshúsin. Jafnvel leikskólarnir eru farnir að haga sér með þessum hætti. Það er vandlifað …