Örvitinn

Áfangasigur fasista

Íslenskupróf skilyrði fyrir ríkisborgararétti

Frá og með 1. janúar næstkomandi þurfa allir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt að standast próf í íslensku, samkvæmt lögum sem taka gildi um áramótin.

Hvernig væri að láta alla íslendinga taka lauflétt greindarpróf. Þeir sem ekki standast það missa ríkisborgararéttinn.

Er ríkisborgararéttur virkilega það eftirsóttur að við þurfum að setja upp einhverjar hindranir? Er ekki nógu mikið mál að fá ríkisborgararétt í dag ef fólk er ekki í réttu klíkunni? Ættum við ekki að vera upp með okkur útaf þeim sem sækjast eftir því að gerast íslendingar?

Vissulega er jákvætt ef innflytjendur leggja það á sig að læra tungumálið en að það sé skilyrði fyrir ríkisborgararétti er bara fokking fasismi. Ef við ætlum að setja skilyrði, látum þau þá snúast um virðingu fyrir mannréttindum, umburðarlyndi eða einhverju slíku sem skiptir máli. Sennilega myndu þeir sem þessar reglur settu ekki standast slíkt próf.

pólitík
Athugasemdir

pallih - 17/12/08 18:38 #

Amen! (no pun intented)

Matti - 17/12/08 20:10 #

Við færsluna má bæta að þessar reglur munu væntanlega ekki eiga við um einkavini aðal, tengdadætur þingmanna, handboltakappa og klikkaða skákmenn. Þessar reglur eru fyrir almenninginn, fólkið sem hingað flytur og vinnur hörðum höndum.

Birgir Baldursson - 17/12/08 20:40 #

Hvernig væri að láta alla íslendinga taka lauflétt greindarpróf. Þeir sem ekki standast það missa ríkisborgararéttinn.

Eða demba á þjóðina sama íslenskuprófi og innflytjendur munu taka og reka þá úr landi sem ekki standast það.

Arnold - 17/12/08 21:05 #

Þetta er mjög viðeigandi í það umhverfi sem nú er þar sem þjóðernishyggja virðst vera að blómstra í hagstæðum jarðvegi. Þessu verður tekið fagnandi af einhverjum. Já þetta gildir að sjálfsögðu ekki gilda um klíkuna.

Mummi - 17/12/08 21:16 #

Tek undir með Bigga - hvað ætli margir "alvöru" Íslendingar myndu standast þetta próf?

Stundum skammast maður sín fyrir þetta fólk í stjórnmálastéttinni hér á landi. Ok, oftast skammast maður sín. Hitt er undantekningin, að maður horfi á ákvörðun og framkvæmd og kinkar kolli í viðurkenningarskyni. Dáist að hugvitinu og dirfskunni, skynseminni og rökhyggjunni. Og það er orðið langt síðan síðast.

Valdimar - 18/12/08 01:36 #

Vá, var þetta bara skyndilega ákveðið?

Þó ég sé á þeirri skoðun að innflytjandi geti ekki alveg innlimast í samfélagið fyrr en hann lærir íslensku, þá finnst mér að lausnin ætti að vera að bjóða nýjum aðfluttum ríkisborgurum íslenskunám frekar en að hafa próf sem skilyrði.

Eru tungumálapróf algengt skilyrði fyrir ríkisborgararétti í öðrum löndum?

Hildur - 18/12/08 13:48 #

Ég held að þeir sem setji svona reglur hafi í besta falli einfaldlega aldrei prófað að dveljast erlendis lengur en í mánuð (í versta falli er þetta fasismi, eins og þú segir). Ég held nefnilega að þeir hefðu annars náð að fatta sjálfir að til þess að fá sem flesta útlendinga til að læra íslensku væri einfaldlega best að bjóða þeim upp á gjaldfrjáls, aðgengileg námskeið í málinu. Það gera það nefnilega fæstir að gamni sínu að setjast að í landi þar sem þeir skilja ekki orð í tungumálinu.

Nonni - 18/12/08 13:52 #

Firring og þjóðrembingur, en ekki fasismi. Þetta fólk fór til Danmerkur í eitt sumar og fannst bara ekkert mál að gera sig skiljanlegt í lok sumars og er rosahissa á öllu þessu liði sem nennir ekki að læra íslensku.

Nonni - 18/12/08 13:56 #

Reyndar segirðu áfangasigur fasista, og það er alveg rétt þrátt fyrir að hann hafi verið unninn fyrir þá af ósköp venjulegum ráðafábjánum.

Ég er ekkert yfir mig hrifinn af því að nota orðið fasisma í þessu samhengi, því þá þarf maður að tala um "öfgafulla kostaða fasista", þegar þeir fara að ráðast á mótmælendur og innflytjendur í boði stórfyrirtækja.

Matti - 18/12/08 13:56 #

Ég geri mér grein fyrir því að það er full langt gengið að tala um fasisma. Sjálfum leiðist mér ofnotkun á öllum ismum.

Aftur á móti skil ég ekki þankaganginn á bak við þetta. Fatta ekki vandamálið og finnst lausnin út í hött.

Auðvitað á íslenskunám að vera aðgengilegt og ókeypis en það á ekki að þurfa nokkuð próf.

Fólkið sem vælir útaf því að afgreiðslufólkið talar ekki íslensku getur alltaf verslað annars staðar. Yfirleitt dugar mér að horfa á skjáinn á afgreiðslukassanum til að sjá hvaða upphæð ég á að borga. Reyndar hef ég ekki enn lent í erlendum starfsmanni í afgreiðslu sem ekki hefur getað gert sig skiljanlegan.

Óli Gneisti - 18/12/08 15:40 #

Ég hef lent í afgreiðslumanni sem ég skildi bara ekki. Hann endurtók sig í sífellu og ég bara náði bara ekki hvað hann var að segja. Eins gott að þýsk vinkona mín var þarna með mér til að útskýra þetta fyrir mér. Þetta var í Cork á Írlandi og afgreiðslumaðurinn innfæddur og magnaðasta corkska hreim sem ég heyrði.

Ég verð annars að játa að ég hef bara gaman af því að kenna afgreiðslufólki íslensk orð. Ég versla 1-2 í viku í bakarí þar sem ein vinnur sem er sífellt að bæta íslenskuna sína. Gaman að fylgjast með því. Ég veit samt ekkih hvort hún sé verðugri ríkisborgari fyrir vikið.

Kalli - 21/12/08 14:43 #

Ég vil bæta smá angle við þetta þar sem ég er sjálfur innflytjandi og upptekinn við að læra tungumál nýja landsins míns. Það er svakalega auðvelt fyrir mig að læra sænsku og það sést ágætlega á því að ég er búinn að fá hraðafgreiðslu í gegnum tvo sænskuáfanga og er nú að byrja á sænsku á menntaskólastigi eftir innan við hálft ár í landinu.

Þetta er ekki grobb; það er einfaldlega auðvelt fyrir Íslending með nokkur ár í dönskunámi og í sambúð með sænskri konu, sem er sænsku- og enskukennari, að læra sænsku.

Þetta sama á ekki við um Írakana og Tælendingana, til dæmis, sem ég hef setið í tímum með. Þeir byrja með annað stafróf og gerólík mál og ólíkt mér umgangast þeir mikið til fólk af sama þjóðerni.

Hverjir ætli fái forgjöfina þegar kemur að þessum nýju reglum á Íslandi?

Bjarki - 22/12/08 20:09 #

Þú gerir lítið úr sjálfum þér með svona gífuryrðum. Ríkisborgararéttur á ekki að koma í kókópöffspakka, venjulegt fólk (sem ekki þekkir góðan Framsóknarmann) þarf að eiga lögheimili hér í 7 ár áður en það getur sótt um þennan rétt, það er ekki ósanngjarnt að fara fram á að það nái mellufærni í þjóðartungunni á þeim tíma.

Matti - 22/12/08 20:25 #

Til hvers þarf það að ná mellufærni í þjóðartungunni? Komdu með eina góða ástæðu fyrir því að það ætti að vera forsenda ríkisborgararéttar.

Ríkisborgararéttur kemur ekki í kókópöffspakka því eins og þú nefnir þarf fólk að búa hér í sjö ár.