Örvitinn

Pálmi ofurprestur

Þessi frétt var á Vísi í kvöld en ég finn hana ekki eins og er. Kannski var hún fjarlægð. Neðri feitletrun er mín.

Íbúar beðnir um að halda sig innandyra

Sérsveitarmenn að störfum í kvöld.

Lögreglan er enn með mikinn viðbúnað í Bústaðahverfi í Reykjavík en grunur leikur á að maður vopnaður byssu sé á ferð um hverfið. Lögreglan varar við ástandinu og biður fólk um að fara ekki út úr húsum sínum að óþörfu. Fréttamönnum Stöðvar 2 og Vísis sem eru á staðnum var til að mynda eindregið ráðlagt að fara ekki út úr bifreiðum sínum í grennd við Bústaðarkirkju fyrir stundu.

Lögreglu barst áreiðanleg tilkynning um átta leytið í kvöld um vopnaðan mann í hverfinu. Ekki er búið að girða svæðið af vegna þess að leitarsvæðið er afar stórt, að sögn lögreglu.

Búið er að kalla út Pálma Matthíasson, sóknarprest í Bústaðakirkju.

Ég sé prestinn fyrir mér í svæðinu í fullum skrúða með stóran kross - hleypur svo öskrandi á móti brjáluðum byssumanninum og yfirbugar hann með oblátum.

Hvað er eiginlega að? Verður hóað í Pálma næst þegar köttur festist í tré eða vængbrotinn fugl finnst á Bústaðaveginum. Þetta er sturlun.

Ýmislegt
Athugasemdir

hildigunnur - 03/01/09 00:49 #

hmm, eru prestar nú orðnir sérþjálfaðir í að yfirbuga brjálaða byssumenn?

Matti - 03/01/09 00:51 #

Kannski vildu þeir hafa prest á svæðinu ef þeir neyddust til að skjóta byssumanninn. Hentugt að láta prestinn fara með Faðirvorið yfir líkinu meðan það er volgt.

Annars kom ekki til þess og þetta endaði vel.

baddi - 03/01/09 01:38 #

kannski vantaði skotmark?

Björn Friðgeir - 03/01/09 04:55 #

Finnst ósmekklegt hvernig þú bætir þessu síðarnefnda við... ... það væri nefnilega örugglega prýðisráð að kalla Pálma til í þeim tilvikum. Hann er íþróttamaður og örugglega fínn að klifra í trjám og ég efast ekki um að hann væri fínn í að skutla fuglinum upp á dýraspítala enda hlýtur hann að vera dýravinur. Svo fremi sem hann væri ekki að rukka yfirvinnu á þetta (eru ekki prestar alltaf í vinnunni?) þá væri þetta bara ódýr lausn á þessum vandamálum og hann væri þá að gera meira gagn en svona dags daglega. Tek að sjálfsögðu undir þetta annars, átti mér sem Fossvogsbúa að stórlétta við þetta eða hvað??

Nonni - 04/01/09 15:55 #

Ég skil mjög vel að Pálmi hafi verið kallaður til. Hann er "sálgæslumaður", ómenntaður til þess, en á væntanlega að þjóna því hlutverki að barnið með byssuna hafi einhvern slíkan sem það treystir, til að tala við eftir handtöku. Þeir sem eru menntaðir í áfallahjálp þurfa nefnilega að vinna sér inn traust og það tekur tíma.

Ég var í Réttarholtsskóla og var ekki nógu mikill bógur til að sleppa því að ferma mig. Ég sótti fermingafræðslu hjá Pálma og treysti honum mjög vel sem manneskju. Hann fór lítið í efni bókarinnar sem var lögð til grundvallar, og mun meira í þau vandamál sem unglingar eru að kljást við. Ég held ég geti fullyrt að nær allir Rétthyltingar hefðu treyst Pálma fyrir vandamálum sínum.

Kerfið ætti auðvitað að vera þannig að sálfræðimenntuð manneskja fengi sama tíma með krökkunum, og tæklaði sömu mál og Pálmi gerði. Svo væri skyldumæting í einhverja hliðstæðu við messur á sunnudögum, þar sem í stað þess að presti væri í sjálfsvald sett hverju hann treður í krakkana væru bara umræðuhópar þar sem sálfræðingurinn myndi gera það sama og Pálmi gerði, þ.e. "messa" út frá því sem gerðist í seinustu viku í félagsmiðstöðinni, eða myndinni sem var sýnd í sjónvarpinu kvöldið áður.

Þá hefði hverfið menntaðan sálgæslumann sem nyti vonandi viðlíka trausts og Pálmi naut og líklega nýtur meðal krakkana í hverfinu. Þá væri þessi frétt bara alls ekkert fáránleg.