Örvitinn

Árni Johnsen talar (fyrir einhverja)

Þegar Árni Johnsen talar um að afskrifa eigi skuldir í sjávarútvegi skulum við hafa dálítið á hreinu.

Árni er að hugsa um hagsmuni Vestmannaeyja. Nánar tiltekið, Árni er að hugsa um hagsmuni tiltekinna útgerðarmanna í Vestmannaeyjum.

Hvað hafa tilteknir útgerðarmenn Vestmannaeyjum gert síðustu ár? Jú, orðið meðal allra ríkustu og gráðugustu aðila á landinu. Fyrir suma dugði ekkert annað en einkaþyrla til að skutlast milli lands og eyja. Ætli Árni hafi fengið far með þyrlunni? Ég veit ekki betur en að útgerðarmenn í Vestmannaeyjum hafi verið virkir þátttakendur í fjárfestingarruglinu sem hér viðgekkst síðustu ár, tekið þátt í bankaruglinu og gengið út með milljarða.

Í gvuðanna bænum, ekki halda að Árni sé ekki lengur ótíndur glæpamaður. Ekki láta ykkur detta í hug að hann sé að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar. Gleymum því ekki að eitt allra versta dæmið um spillingu núverandi ráðamanna var þegar flokksbræður Árna gripu tækifærið þegar forsetinn var ekki á landinu og gáfu Árna uppreist æru. (sjá athugasemdir)

pólitík
Athugasemdir

Sigurður - 04/01/09 15:14 #

Það hefur nú lengi verið almannarómur í Eyjum að Árni hafi fengið verulegan fjárstuðning frá Magnúsi Kristinssyni, útgerðarmanni í Eyjum. Sá hefur verið einna stórtækastur í umsvifum á fjármálamarkaði í krafti kvótaeignar sinnar. Einhvern veginn hlýtur Árni að þurfa að launa stuðninginn.

Árni er ekki að hugsa um hagsmuni Vestmannaeyja. Ekki alhæfa um Eyjamenn út frá sérhagsmunapoti nokkurra einstaklinga. Langstærstur hluti útgerðarmanna í Eyjum hefur einbeitt sér að því sem þeir gera best, þ.e. veiðum og vinnslu sjávarafurða, öllum landsmönnum til hagsbóta.

Það er engum til framdráttar að spyrða þá alla saman við Árna og bakhjarla hans.

Gísli Freyr Valdórsson - 04/01/09 21:18 #

Ég er enginn aðdáandi Árna J. og tel ekki að hann eigi að vera á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, einfaldlega af því að hann er ekki hægri sinnaður.

En hvernig í ósköpunum ferðu að því að tengja spillingu við veitingu uppreisn æru í tilfelli Árna?

Heldur þú að forsetinn hefði ekki veitt honum uppreisn æru?

Matti - 04/01/09 21:23 #

En hvernig í ósköpunum ferðu að því að tengja spillingu við veitingu uppreisn æru í tilfelli Árna?

Handhafar forsetavalds og flokksfélagar Árna veittu honum uppreist æru þegar forsetinn var ekki á landinu. Af hverju þurfti að gera það þá? Eru einhver dæmi til þess að menn hafi fengið uppreist æru með sama hætti hér á landi?

Heldur þú að forsetinn hefði ekki veitt honum uppreisn æru?

Já. Ég sé ekki á hvaða forsendum forsetinn hefði átt að gera það.

Á wikipedia er hægt að lesa um uppreist æru. Árni Johnsen fékk 15 mánaða dóm.

Gísli Freyr Valdórsson - 05/01/09 21:41 #

Gott og vel. En getur þú bent á einhver dæmi þar sem mönnum hefur verið neitað um uppreist æru (sem ég virðist hafa skrifað vitlaust)?

Sindri Guðjónsson - 05/01/09 22:09 #

Mér skilst að allir umsækjendur um uppreista æru, fái uppreista æru (kannski er vitlaust að fallbeygja "uppreist æra"?), engum sé hafnað.

Matti - 05/01/09 22:11 #

Já, mér sýnist það líka. Samkvæmt því hefði verið brotið á rétti Árna ef hann hefði ekki fengið uppreist æru.

En þurfti það að gerast þegar forsetinn var í útlöndum?

Óli Gneisti - 05/01/09 22:18 #

Hefði verið kafað ofan í málið hefði verið ljóst að í millitíðinni kýldi Árni ákveðinn söngvara. Hann var ekki beint verðugur kandídat.

Sindri Guðjónsson - 05/01/09 22:20 #

Get ekki séð að það skipti neinu máli. Forseti Hæstaréttar, og tveir flokksbræður Árna voru einfaldlega handhafar forsetavaldsins í fjarveru Ólafs. Þetta leit illa út, en var ekkert óðelilegt. Það var leiðinlegt að fólk hafi verið nógu vitlaust til að kjósa Árna á þing.

Sindri Guðjónsson - 05/01/09 22:21 #

Ég var þarna að svara Matta, en var ekki búinn að sjá athugasemd Óla Gneista.

Óli Gneisti - 05/01/09 23:31 #

Annars er rétt að minnast þess í þessu samhengi að Ólafur Ragnar hafði nokkru áður breytt hefðum forsetaembættisins varðandi neitunarvaldið og ekki ólíklegt að Sjálfstæðismenn hafi óttast aðra hefðarbreytingu.

Matti - 06/01/09 00:20 #

Við skulum þá í staðin mun að þetta er fólkið sem skipaði Þorstein Davíðsson sem dómara.

Gísli Freyr Valdórsson - 06/01/09 10:21 #

ok, nú erum við s.s. farnir að ræða eitthvað allt annað. Þið þurftuð einn úr ykkar hópi til að segja nákvæmlega það sama og ég.

Ég sé ekki alveg hvað skipun ÞD kemur Árna J. við.

Annars er athugasemd Óla Gneista alveg út í hött. Ég leyfi mér að efast um að Sjálfstæðismenn hafi, miðað við allt sem á undan er gengið á Bessastöðum, haft miklar áhyggjur af því hvað Óli Gríms myndi eða myndi ekki gera hvað varðar Árna Johnsen.

Málið kemur einfaldlega inn á borð þessara aðila á meðan forsetinn er erlendis (aldrei þessu vant) og það hefði líkast til verið óeðlileg stjórnsýsla að hafna beiðninni og eins og fresta henni þangað til ÓRG kæmi heim.

Matti - 06/01/09 10:24 #

Þið þurftuð einn úr ykkar hópi til að segja nákvæmlega það sama og ég.

Nei, ég skoðaði málið einfaldlega betur í millitíðinni. Athugasemd Sindra kemur þessu ekkert við. Þú settir engin rök fram í athugasemdum þínum heldur spurðir spurninga. Ég skoðaði málið nánar, fann aðila sem færðu rök fyrir máli sínu og tók mark á þeim. Flóknara er þetta ekki.

Í hvaða hópi er Sindri? Áttu við að ég hafi þurft að heyra þetta frá trúleysingja :-)

Málið kemur einfaldlega inn á borð þessara aðila á meðan forsetinn er erlendis

Þú ert ekki svona saklaus.

Matti - 06/01/09 10:27 #

Ein spurning. Er hægt að sjá lista yfir þá sem hlotið hafa uppreist æru? Einhver fjölmiðill hlýtur að hafa skoðað önnur mál til samanburðar.

Sindri Guðjónsson - 06/01/09 12:25 #

Gísli, því miður fyrir okkur Sjálfstæðismenn, þá er skipun Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara lang skýrasta dæmið um valdnýðslu síðan ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum. Skipun sem var hreint með ólíkindum. Árni Matthiesen ætti klárlega að segja af sér, (og ekki bara vegna þessa máls).