Örvitinn

Samræða um gildi og grunn samfélagsins

Á hátíðisstundum kemur fyrir að talsmenn ríkiskirkjunnar gaspra um nauðsyn umræðu. Þeir tala um samræðu milli hópa, að ólík sjónarmið skuli sett fram, nú sé tími opinberrar umræðu og uppgjörs, efla þurfi samfélagsrýni, efna til samræðu um gildi og grunn og ræða hverslags samfélag við viljum.

Mín reynsla er að þegar einhver gagnrýnir ríkiskirkjuna, t.d. vegna trúboðs í leik- og grunnskólum, sé afar lítill vilji til samræðu. Og þó, það er örlítill vilji til umræðu en ekki nokkur vilji til að breyta nokkru og umræðan verður að fara fram á þeirra forsendum, við rétt fólk, með þeirra hugtökum og þeirra niðurstöðu: status quo. Frekar en að stunda samræðu er gripið til ýmsra meðala úr pólitík, gagnrýnendur svertir, ósannindum dreift og áróðursvél sett í gang með aðstoð reynslubolta úr pólitík.

Skoðið hvernig kirkjan rekur vefsetur sín. Lokað er fyrir athugasemdir við megnið af skrifum á trú.is og þar sem er opið tekur oft marga daga að samþykkja athugasemdir. Auk þess hvetja sumir prestar kollega sína til að skoða ekki vissar heimasíður og svara ekki tilteknum gagnrýnendum, beita þöggun. Nefna "andstæðinginn" aldrei á nafn og aldrei nokkurn tíma vísa á síður þeirra. Það er allt samtalið. Staðreyndin er að ríkiskirkjan er eins og flestar stofnanir valdsins með almannatengla á launaskrá og fjölmiðlafulltrúa á takteinunum, sérfræðinga úti í bæ sem hægt er að hóa í þegar á reynir og þetta er sú taktík sem þeir ráðleggja.

Þegar valdið segist vilja umræðu er það oftast að reyna að tefja. Ríkiskirkjan er hluti af valdinu og þar vill enginn breytingar. Þau vilja halda í forréttindi og eru tilbúin að gera næstum hvað sem er til að halda þeim. Þau upphefja samræður um gildi og grunn samfélagsins en ekkert breytist nema með lögfræðingum, kærunefndum og eftirlitsstofnunum.

Samræður án vilja til breytinga eru tilgangslausar.

kristni pólitík