Örvitinn

Veitingastaðurinn Pisa Lækjargötu

Kolla með sjávarréttapastaKolla vildi fá eitthvað með blönduðu sjávarfangi í kvöldmatinn og okkur datt í hug sjávarréttapasta. Ég var búinn að heyra af nýjum ítölskum stað á Lækjargötu og við stefndum því þangað. Reyndum að skoða heimasíðuna áður en við fórum en af einhverjum ástæðum gekk það ekki þá en virkar núna.

Pisa er semsagt nýr ítalskur staður í Lækjargötu, þar sem Ljóti andarunginn var áður.

Fyrir mat fengum við focaccia brauð og heimalagað ólfíumauk á borðið. Focaccia brauðið var sérlega gott, ekkert ósvipað því sem ég geri, bara betra. Maukið var líka ansi gott. Ég þarf að prófa að búa til ólífumauk fyrir næsta afmælisboð. Við pöntuðum tvo forrétti, carpaccio og bruchetta með kjúklingalifrar mousse. Carpaccio var gott, bruchettan frábær.

Kolla fékk spaghetti með hvítlauk, steiktum skelfisk, chili og tómat í aðalrétt og var afar sátt. Fengum milda útgáfu handa henni fyrst rétturinn var með chili. Inga María pantaði pizzu margherita eins og alltaf. Hún var ánægð en næst ætlar hún að fá sér spagettí með kjötbollum, var dálítið dugleg að narta í spagettí hjá systur sinni. Áróra fékk sér fiskisúpu með saffron, tómat og kryddjurtum, full af hvítlauks steiktum skelfisk.

Gyða var afar ánægð með Steikt sítrónu og rósmarín krydduð kjúklingalæri með sveppa ragout.

risottoÉg pantaði að sjálfsögðu risotto fyrst það var á matseðlinum! Risotto með andalæri confit, grænum pipar og skarlottulauk er besta risotto sem ég hef fengið á veitingastað hér á landi. Oft hef ég fengið gott risotto en alltaf hugsað að ég gæti gert jafn gott. Ekki í kvöld! Grænu piparkornin komu skemmtilega á óvart.

Þjónustan var óaðfinnanleg, bætt á vatnsglas hjá mér allt kvöldið.

Ég er semsagt afar sáttur eftir þessa heimsókn og mun kíkja aftur á Pisa bráðlega.

veitingahús
Athugasemdir

Kristinn Snær Agnarsson - 07/01/09 01:09 #

Selt. Fer þarna næst þegar ástæða gefst til að borða úti. Takk fyrir tipsið.

Matti - 07/01/09 07:44 #

Öll verð eru á heimasíðunni. Eru flestir veitingastaðir hér á landi ekki í svipuðum verðflokki? A.m.k. hefur mér aldrei þótt miklu muna. Dýrasti rétturinn, aðalréttur Gyðu, kostaði 2.990. Barnaréttir kosta 800 og forréttir voru á um 1.800, gosið rándýrt eins og á flestum veitingastöðum eða 350.- glasið.

hildigunnur - 07/01/09 08:45 #

vá, hljómar vel! Var þetta feneyskt rísottó (fljótandi) eða þykkara?

Matti - 07/01/09 09:09 #

Hmm, þú segir nokkuð.

Þetta var frekar fljótandi heldur en þykkt, þó ekki mjög fljótandi :-)

Eygló - 07/01/09 10:03 #

Til hamingju með afmælisbarn gærdagsins. Magnað matarval hjá 9 ára stelpu! En maður prófar þennan stað klárlega við gott tækifæri.

Matti - 07/01/09 14:25 #

Kolla er sælkeri. Henni finnst ekki allur matur góður en hún er til í að prófa allt.

Reyndar var sushi efst á óskalistanum en við sömdum við Kollu um að hún færi með Áróru á sushi stað bráðlega.