Örvitinn

Jesús styður hátekjuskatt

Útvarpsmaðurinn Ævar Kjartansson fræðir okkur í grein á trú.is1 um að Jesús sé ekki mótfallinn Alþjóða gjaldeyrissjóðnum en styðji örugglega hátekjuskatta2.

Ég er ekki að segja að Kristur sé á móti AGS en hann myndi vilja fara varlega í sakirnar. Hann myndi vilja segja ýmsum að selja eigur sínar og gefa fátækum, eða með okkar tækjum, að hækka skatt á hátekjufólki svo um munaði.

Það er dálítið skemmtilegt hvernig trúmenn finna alltaf eigið viðhorf í Jesús. Dálítið heppilegt fyrir þá. Ég er viss um að Jesúsinn hans Ævars er ekki dómsdagspámaður, elskar homma og hefur enga fordóma gegn kanverskum konum3.

1Áfram held ég að vísa á greinar á trú.is þegar mér finnst tilefni til. Aðstandendur þeirrar síðu vísa aldrei á Vantrú en þykjast so ætíð vera miklir aðdáendur "umræðu". Sú umræða þarf þó að fara fram á ákveðnum forsendum, má t.d. ekki vera gagnrýnin á Krist eða kirkju.

2Ég styð hátekjuskatta svo lengi sem þeir eru lagðir á háar tekjur. Annars held ég að ekki þurfi að leggja á sérstaka hátekjuskatta, nóg ætti að vera að fikta í breytunum í núverandi kerfi. Sjá t.d. Hjalli: Raunverulegt skatthlutfall á Íslandi

322Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda." 23En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum." 24Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt." 25Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!" 26Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana." 27Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra." 28Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

kristni