Örvitinn

Stjórnarskráin og hvíti kynstofninn

Furðulegt að ekki skuli hafa heyrst nokkuð um að í endurskoðaðri stjórnarskrá Íslands skuli bætt við kafla til verndar hvíta kynstofninum.

Hinn hvíti kynstofn skal vera þjóðkynstofn íslendinga, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hann og vernda.

Finnst ykkur slík klausa út í hött?

Af hverju er ekkert rætt um að taka þurfi út greinina sem verndar sérstaklega ríkiskirkjuna?

Sú grein er nefnilega jafn fáránleg og ímyndaða klausan um hvíta kynstofninn. Ég er nokkuð viss um að rökin fyrir þeim væru nákvæmlega eins. Vísað væri til hefðar (hér hefur verið hvítt fólk/kristni í þúsund ár).

Það væri stórslys ef stjórnarskrá Íslands verður endurskoðuð án þess að ríkiskirkjuákvæðin séu tekin út. En vandinn er að biskup og hans fólk muni verja þetta af hörku og hætt er við því að fáir þori í þann slag. Svo er hætt við það alltaf verði eitthvað annað mikilvægara en trúfrelsið og því slegið á frest endalaust.

Hnakkus hefur rétt fyrir sér, það á einfaldlega að fjarlægja trúfrelsiskafla stjórnarskrárinnar.

ps. Ef einhverjir rasistar eruð að spá í að mæla með klausunni um hvíta kynstofninn bið ég þá að vera úti. Ég nenni ekki karpi við fávita.

Úr Stjórnarskrá Íslands.

SJÖTTI KAFLI

62. grein

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Breyta má þessu með lögum.

63. grein

Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

64. grein

Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.

Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.

Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borðið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.

kristni pólitík
Athugasemdir

Matti - 18/02/09 12:04 #

n. grein
Hinn hvíti kynstofn skal vera þjóðkynstofn á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hann og vernda.

Breyta má þessu með lögum.

n+1. grein

Allir eiga rétt á að vera af sínum kynstofni og iðka mökun sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

n+2. grein

Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir kynstofns síns, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.

Öllum er frjálst að standa utan kynstofna. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til kynstofns sem hann á ekki aðild að.

Nú er maður utan kynstofna og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borðið að greiða til kynstofns síns. Breyta má þessu með lögum.

Haukur - 18/02/09 13:50 #

Ég er ekki sammála því að það eigi ekki að tiltaka trúfrelsi í stjórnarskránni eða a.m.k. finnast mér rök Hnakkusar fyrir því veik (ég er opinn fyrir þeim möguleika að einhver geti sett fram sterkari rök). Hann virðist gera ráð fyrir að trúfrelsi sé einhvern veginn of augljós hluti af öðru frelsi til að þurfi að tiltaka það sérstaklega.

Lítum á 65. grein stjórnarskrárinnar:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Ef við fylgjum Hnakkusi, væri þá ekki alveg eins hægt að segja að þetta sé allt saman tómt stagl og augljósir hlutir? Ætterni, þjóðernisuppruni, kynþáttur og litarháttur eru greinilega tengdir hlutir - hvers vegna þarf að tiltaka þetta allt saman? Svarið er að meiningin er að greinar af þessu tagi séu sem víðtækastar og þess vegna eru taldir upp ýmsir hlutir sem fólki er iðulega mismunað eftir.

Það er líka dæmigerður guðleysingjamisskilningur að trúfrelsi sé eingöngu undirgrein af skoðanafrelsi. Trúarbrögð snúast ekki eingöngu um hverju fólk trúir um hitt og þetta - þau snúast ekki síður um siði, athafnir, dygðir, breytni o.s.frv.

Trúfrelsi tryggir íslenskum þegni ekki eingöngu að hann megi hafa hvaða skoðun sem honum líkar á Kristi eða Freyju heldur að hann má t.d. hitta kristna menn og syngja með þeim sálma eða byggja sér hörg og færa Freyju dreypifórn. Það er annað og meira en skoðanafrelsi.

Kannski þykir fólki þetta svo augljóst og sjálfsagt að það taki því ekki að nefna það en þetta hefur svo sannarlega ekki alltaf og alls staðar þótt augljóst og sjálfsagt. Trúfrelsi er ekki við lýði alls staðar í heiminum og hefur ekki haft sérstaklega langa viðdvöl á Íslandi.

Svo má til gamans rifja upp skoðun herra Sigubjörns Einarssonar á því hvort Ásatrúarfélagið gæti fengið skráningu sem trúfélag. Hann sagði meðal annars:

Í stjórnarskránni 63. gr. er landsmönnum öllum veittur réttur til að "stofna félög til að þjóna guði með þeim hætti sem bezt á við sannfæringu hvers og eins". Hér er talað um guð í eintölu. Vafasamt er að þetta ákvæði geti því náð til fleirgyðistrúarbragða. Einar Arnórsson (Ísl. kirkjuréttur. par. 5. d. r. segir: "Fleirgyðistrúfélög stofnuð hér á landi mundu því ekki njóta verndar samkvæmt stjskr."

Undir þetta var tekið í leiðara Morgunblaðsins, meðal annars með þessum orðum:

Kristur nægir, þó að hann hafi hvorki nægt Hitler, Stalín né áhangendum þeirra. Orð Krists eru leiðarljós sem öllum ætti að duga.

Matti - 18/02/09 13:53 #

Þessi ágæta athugasemd ætti frekar heima við færslu Hnakkusar.

Tilvitnanir í biskup og Morgunblað eru stórmerkilegar.

Matti - 18/02/09 14:06 #

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Hvar eru stjórnmálaskoðanir í þessari upptalningu? Hvað með uppáhalds knattspyrnulið?

Væri ekki hægt að bæta næstum hverju sem er inn í listann fyrst trúarbrögð eru þarna?

Er þessi listi ekki fullnægjandi?

...kynferðis, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti

Ég hef mestan áhuga á að losna við 62. grein, ég vona að allir séu sammála um að hún er tómt rugl og fullkomin tímaskekkja. Ég sé ekki af hverju við þurfum að gera greinarmun á félögum almennt og trúfélögum í 63. grein og þriðja málsgrein 64. greinar er ekkert annað en sturlun. Af hverju skattleggjum við fólk sérstaklega ef það stendur utan trúfélaga? Klikkun.

Haukur - 18/02/09 14:36 #

Stjórnmálaskoðanir og/eða störf að stjórnmálum (sbr. muninn á trú og trúarbrögðum sem ég var að reyna að skýra) mættu að ósekju vera á listanum. Ég hef minni áhyggjur af fótboltaskoðunum nema sýnt sé að fólki sé raunverulega mismunað á þeim grundvelli.

Sjálfsagt er rétt að afnema 62. grein þótt kannski sé hægt að færa fyrir henni einhver veraldleg rök. Til dæmis er því stundum haldið fram að þjóðkirkjur í Norður-Evrópu hafi hamlað gegn uppgangi öfgamanna. Ætli Bandaríkin eigi þá ekki að vera vítið til að varast. Aftur má þó benda á t.d. Frakkland sem mótdæmi.

Greinar 63 og 64 ganga út frá því að trúfélög gegni ákveðnu samfélagslegu hlutverki. Það hefur auðvitað breyst talsvert síðan lögin voru sett og það er skrýtið, og að mínu mati ósanngjarnt, að neita Siðmennt um þessa skráningu.

Ég veit ekki hvers vegna þetta ákvæði með Háskólann var upphaflega sett. Kannski sá löggjafinn fyrir sér að menn sæju sér annars færi á að skrá sig úr kirkjunni til að spara sér aur en nytu síðan óhjákvæmilega allrar þjónustu kirkjunnar - dálítið eins og það var hægt að neita að greiða í skólafélagið í MR þegar ég var þar og njóta samt góðs af ýmsu sem félagið gerði.

Það væri gaman að vita meira um forsendur þessara ákvæða og væri eflaust sterkt fyrir gagnrýnendur þeirra að grafast fyrir um þankagang stjórnarskrárgjafans. "Blablabla, aðstæður hafa breyst" eru rök sem virka oft vel.

Sigurjón - 18/02/09 14:53 #

Ef ákvæðið um Háskólann var sett af þessari ástæðu var það frekar vanhugsað. Ef ég gríp skólafélagasamlíkinguna á lofti, þá er það eins og að ætla að koma í veg fyrir að fólk neiti að borga í skólafélag MR en njóti samt góðs af því, með því að láta það borga í skólafélag Flensborgar í staðinn.

Matti - 18/02/09 14:55 #

Ef ég ætti að giska, þá myndi ég halda að ákvæðið hafi verið sett svo enginn hafi af því fjárhagslegan ávinning að standa utan trúfélaga. Með því er fólk latt til að skrá sig úr trúfélagi, því það græðir ekkert á því. Ég held þetta snúist einfaldlega um peninga og hagsmuni ríkiskirkjunnar.

Sindri Guðjónsson - 18/02/09 14:56 #

73. gr. [Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.]1)

Þessi grein ætti alveg að duga til að verja trúfrelsið. Trúfrelsið ákvæði eru óþörf tvítekning, þar sem skoðanir í trúmálum eru teknar séstaklega út úr stærra mengi, sem eru skoðanir almennt.

Matti - 18/02/09 15:00 #

Sindri, þetta var Markdown rithátturinn að stríða þér. Ég snurfusaði kommentið og eyddi hinu.

Hefði einmitt haldið að þetta ætti að duga en hvað veit ég :-)

Sindri Guðjónsson - 18/02/09 15:09 #

Takk fyrir það. "Trúfrelsis ákvæði eru óþörf tvítekngin" átti annars að standa þarna í setningu tvö, en ég setti "ð" í staðinn fyrir "s", en þú þarft ekkert að snurfusa það fyrir mig, þetta skilst. :-)

Skoðana og tjáningarfrelsis ákvæði, hljóta eðli sínu samkvæmt, að ná yfir skoðanir manna á trúmálum, og rétt þeirra til að tjá þær skoðanir sínar með iðkunum og greinaskrifum og öllu mögulegu.

Sindri Guðjónsson - 18/02/09 15:11 #

og "iðkanir" eru ekki til, bara "iðkun". Dæs... endalausar villur

Halldór E - 18/02/09 15:28 #

Ég held að Haukurinn svari þessu ágætlega hér að ofan með trúfrelsið. Það er meira en skoðanafrelsi og tekur líka til iðkunar og hefða svo dæmi sé tekið. Trúfrelsi og jafnræði fólks af ólíkum menningarsvæðum er nýtilkomið á þeim svæðum þar sem slíkt er talið eðlilegt, en það er ekki alstaðar. Þegar við sjáum skoðanir gamla biskupsins og Morgunblaðsins er e.t.v. enn frekari ástæða til að leggja áherslu á trúfrelsi.

Hins vegar er erfitt (ómögulegt) að færa gild rök fyrir Háskólaákvæðinu. Hvað varðar 62. grein þá er skemmtilegt sér í lagi hér í BNA að sjá hvernig sögulega kirkjur og stjórnvöld hafa með sér skrifaðan eða óskrifaðan samning um að rugga ekki bátnum. Hér í BNA er aðskilnaður ríkis og kirkju en skattkerfið er notað til að halda kirkjum á mottunni.

Á Íslandi er það stjórnarskrárákvæðið. Á tíma Constaninusar (á fjórðu öld) var samkomulagið á þá leið að keisarinn verndaði kirkjuna og kirkjan bæði sérstaklega fyrir keisaranum og gæfi almenningi þar með skýr skilaboð um að keisarinn færi á Guðs vegum. Þetta hefur einfaldlega ekki breyst neitt.

Ég held að það sé rétt hjá þér Matti, 62. greinin er til óþurftar, leifar frá 4. öld. Háskólaákvæðið er einnig tímaskekkja, leifar frá Upplýsingunni. Sá sem hafnar kirkjustofnuninni er upplýstur og hlýtur að vilja veg mennta sem mestan. Þetta tvennt merkir samt ekki að trúfrelsi sé óþarft.

Sindri Guðjónsson - 18/02/09 15:51 #

Halldór E, ég er ekki sammála því að trúfrelsi sé meira en skoðana og tjáningarfrelsi. Trúarskoðanir, eru bara hluti þeirra skoðana sem fólk hefur á ýmsum málaflokkum, og að iðka trú er varið af tjáningarfrelsinu, einnig eru fundarhöld varin í stjórnarskránni (3. mgr. 74. gr), og rétturinn til að stofna félög (74.gr) þar á meðal trúfélög.

Að hafa frelsi til skoðana í trúmálum ætti ekki endilega að vera helgari réttur en að hafa skoðanir á ýmsu öðru. Með þessu er trúarskoðunum gert sérstaklega hátt undir höfði.

Haukur - 18/02/09 17:09 #

Að hafa frelsi til skoðana í trúmálum ætti ekki endilega að vera helgari réttur en að hafa skoðanir á ýmsu öðru. Með þessu er trúarskoðunum gert sérstaklega hátt undir höfði.

Ég skil ekki alveg þessa túlkun. Er þá litarhafti og kynþætti gert sérstaklega hátt undir höfði þegar sagt er að ekki megi mismuna fólki eftir þeim eiginleikum? Stjórnarskráin talar sérstaklega um trúarbrögð vegna þess að oft hefur verið níðst á fólki á grundvelli þeirra og oft hefur mönnum verið bannað að stunda þau.

Halldór minnist á Constantius (annan) og við getum þá tekið sem dæmi að sá keisari bannaði að heiðnar trúarathafnir væru framkvæmdar á almannafæri. Hann bannaði mönnum hins vegar ekki að hafa eða tjá tilteknar skoðanir á trúmálum (það kom seinna).

Haukur - 18/02/09 18:18 #

Það er nú best ég leiðrétti sjálfan mig aðeins og taki fram að þótt Morgunblaðið hafi tekið undir grein herra Sigurbjörns og vitnað í orð hans þá vitnaði það ekki sérstaklega í hugleiðingarnar um fleirgyðistrúarbrögð sem ég tók hér upp. Annars er best menn lesi þetta sjálfir.

En nú spyr ég mig: Lumar Matti kannski á nothæfri mynd af biskupnum gamla sem hægt væri að gefa út undir frjálsu leyfi? Það eru greinar um hann á Wikipediu á sex tungumálum en engin er myndin.

Matti - 18/02/09 18:24 #

Mér finnst þessi dálítið góð en það er spurning hvort hún þyki við hæfi á Wikipedia. Ekki besta mynd sem tekin var af karlinum.

Give me five!

Haukur - 18/02/09 18:33 #

Þetta er athyglisverð mynd. Hún er auðvitað ekki klassísk portrettmynd sem er yfirleitt það sem þykir við hæfi í æviágripum en það er skemmtilegt líf í henni og hún sýnir hvað karlinn var ern lengi. Best ég beri þetta undir fleiri.

Matti - 18/02/09 18:36 #

Næsta mynd er lítið skárri (út frá sjónarhorni Wikipedia). Ég á hugsanlega fleiri myndir úr þessari töku, skal tékka á því í kvöld.

Haukur - 19/02/09 07:48 #

Konan mín segir að neðri myndin væri heppilegri og ég treysti hennar dómgreind. Ef þú værir til í að gefa hana út undir frjálsu leyfi held ég að ég komi henni á snarfræðiritið.

Matti - 19/02/09 17:13 #

Hvað með þessa sem ég var að bæta inn, er hún ekki skárst?

Haukur - 19/02/09 23:15 #

Myndbyggingin er sennilega betri en karlinn er svo ósköp þreytulegur að sjá að ég veit ekki hvort hún er betri í heildina.

En hvernig er þessi? Áttu hana í meiri upplausn?

Matti - 19/02/09 23:17 #

Ég á hana í fullri upplausn (3872 x 2592), þannig að það er hægt að nota hana. Hún er semsagt ekkert croppuð hér (minnir mig), bara minnkuð.

Haukur - 21/02/09 10:35 #

Ég væri til í að sjá hana í hærri upplausn - annaðhvort alla eða kroppaða á hinn aldna þul.

Haukur - 22/02/09 00:54 #

Ég held ég hafi gleymt að segja galdraorðið hérna. Ég veit þetta er vesen og ég kann að meta fyrirhöfnina.

Matti - 23/02/09 13:38 #

Ég redda þessu bráðlega ;-)

Matti - 24/02/09 00:06 #

Kroppað og minnkað úr þeirri mynd.

Haukur - 24/02/09 13:21 #

Glæsilegt, já ég held þetta sé heppilegasta myndin!

Eva - 17/01/10 18:50 #

Mér finnst allavega nauðsynlegt að barn verði látið fylgja kynstofni móður þannig að ekki fari milli mála að barn skuli teljast hvítt ef einhver druslan skyldi taka upp á því að fjölga mannkyninu í einhverskonar ástandi.