Örvitinn

Kristin fræði - Stjarnan

Í kvöld lásum ég og Kolla Stjörnuna, kennslubók í kristnum fræðum. Fórum reyndar hratt yfir sögu og hlógum mikið. Ég stórefa að kristin fræði sé jafn skemmtileg hjá mörgum börnum.

Bókin er náttúrulega rusl eins og megnið af því sem Sigurður Pálsson og Iðunn Steinsdóttir bera ábyrgð. Satt að segja er skammarlegt að börnin okkar séu að lesa þenna áróður. Fyrstu kaflarnir eru eflaust í boði síonista!

Ég mæli með því að allir foreldrar lesi kennslubækurnar í kristinfræði. Eflaust finnst mörgum að ég ætti að skrifa ítarlegri gagnrýni hér en ég nenni því ekki. Bókin er einfaldlega drasl.

kristni
Athugasemdir

Haukur - 23/02/09 22:51 #

"Af átján kennurum í þriðja bekk hafa sautján tekið upp nýju kennslubókina Stjarnan (1998). Öllum líkar mjög vel eða vel að nota hana við kennslu." - Kennslubækur og gögn eftir bekkjum

Mér finnst þú ættir endilega að skrifa ítarlegri gagnrýni :) Það væri að minnsta kosti gaman að fá nokkrar tilvitnanir.

Matti - 23/02/09 23:09 #

Kolla tekur bókina með sér í skólann á morgun og skilar henni.

Í grófum dráttum. Byrjað er á því að sannfæra börn um að munnmælasögur séu áreiðanlegar með því að líkja því við sögur sem amma og afi segja. Sögur Biblíunnar séu eins og ævisögur nútímans.

Svo hefst kaflinn um sögurnar sem Jesús lærði. Það er semsagt umfjöllun um Gamla Testamentið án nokkurs fyrirvara. Þetta gerðist bara. Guð gaf niðjum Abraham Ísrael. Svo kemur Jósef og Egyptaland. Lesendur (börnin) eiga að svara spurningunni: Hvað finnst ykkur þið vita um Guð eftir að hafa lesið söguna um Jósef.

Næst er hoppað yfir í jólakaflann. Aftur án fyrirvara, þetta gerðist allt saman. Fjárhirðar sáu engil. Börnin eru spurð: Hvernig ætli ykkur liði ef þið sæjuð engil?

Kaflinn um Jesús meðal fólksins er "best of" kafli um Jesús sem safnar lærisveinum, læknar fólk og brýtur brauð. Læknar lamaðan mann: "Í þessar sögu gerði Jesús kraftaverk og læknaði manninn. Venjulegt fólk getur ekki gert kraftaverk."

Páskakaflinn rekur lestina. Jesús fer til Jerúsalem þó hann viti að hann verði drepinn. "Alla langar til að lifa sem lengst og það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Jesú að ákveða að fara til Jerúsalem fyrst hann vissi hvað beið hans."

Jesús er krossfestur og deyr. Lifnar við. Næstum því endir.

Svo er kristniboð dásamað. Sagan af Ingimundi Hafurssyni er hápunktur bókarinnar. Rímar við nýlegt dæmi.

Þessi bók er ekki merkileg, en hún er ekki kennslubók um nokkuð. Þetta er einfaldlega áróður fyrir kristni út í gegn. Það valið úr Biblíunni sem hljómar vel, öðru sleppt.

Svo hefur kennari sagt mér að handbækur kennara séu verri en kennslubækurnar sjálfar, en það er önnur saga.

Haukur - 23/02/09 23:37 #

Hljómar eins og grátlegt narraspil. Ég þakka greinargerðina.

hildigunnur - 24/02/09 23:33 #

sautján kennarar af átján hvar var þessi könnun?

Ég er svo heppin að bekkjarkennari míns áttárings (í Austurbæjarskóla) er húmanisti og kennir um trúarbrögð, innrætir ekki. Dæturnar voru ekki eins heppnar, sérstaklega ekki sú yngri, fékk ítroðslu í öðrum bekk.