Örvitinn

Hvað með okkur hin?

Það er ljóst að gera þarf ýmislegt til að bjarga þeim sem illa standa. Í einhverjum tilvikum þarf að afskrifa lán, í öðrum þarf kannski að greiða fólki vaxtabætur. Svo þurfum við, sem getum, að taka á okkur skattahækkanir. Það er að mínu mati eðlilegt. Breiðu bökin og allt það. Lán okkar verða ekki afskrifuð enda getum við borgað þau. Ekkert athugavert við það.

Ég sætti mig við að greiða hærri gjöld og öll mín lán vegna þess að ég ræð við það.

En hvað svo? Hvað gerist þegar ástandið batnar eftir nokkur ár og hér verður hagvöxtur á ný?

Munu þeir sem réðu við sínar skuldir og ekkert fengu afskrifað njóta þess í einhverju mæli? Mun sama fólkið fjárfesta í stærri húsum (eða búa ennþá í stóra fína húsinu eftir að hafa fengið afskrifuð lán), aka um á dýrari bílum og flottari utanlandsferðum - meðan við hin höldum áfram að spara. Bíðum eftir næstu kreppu svo við getum tekið að okkur að greiða skuldir annara á ný.

Nú er tíminn til að aðstoða þá sem þurfa hjálp og hinir þurfa að gefa af sínu. En mun fólk einhverntímann fá að njóta þess að hafa ekki skuldsett sig fyrir kreppuna?

pólitík
Athugasemdir

Már - 24/02/09 17:19 #

Við fáum að lykla góðærisjeppana þegar enginn sér til.

Matti - 25/02/09 00:18 #

Hvernig væri að gefa okkur góðærisjeppana í stað þess að skemma þá :-) Ég væri til í að skipta þó skuldlausi slyddujeppinn minn dugi alveg.

Már - 25/02/09 01:03 #

Þetta er annars mögnuð siðferðisspurning sem við varkára fólkið sitjum uppi með - "hvað fáum við?"

og svarið er líkast til einfalt "ekkert".

og þá kemur í ljós hver siðferðisstyrkur okkar er - getum við yppt kæruleysislega öxlum og haldið áfram að lifa lífinu í sama æðruleysinu og skilaði okkur góðærisjeppalausum, en að sama skapi skuldlitlum, í gegnum góðæðið?

Matti - 25/02/09 09:02 #

Það er einmitt málið.

Eftir tuttugu ár mun ég berjast fyrir því að sett verði upp stytta til minningar um þá sem ekki tóku þátt í brjálæðinu en þurftu að borga reikninginn.

hildigunnur - 25/02/09 14:50 #

Mér fyndist sko allt í fína að við sem erum ekki með allt upp á bak fáum ekki neitt - verra sem er, að við þurfum að borga fyrir hina.

Matti - 25/02/09 14:55 #

Ég sætti mig við að fá ekkert. Sætti mig líka við að borga eitthvað.

Finnst bara helvíti skítt að fá ekkert að njóta þess í framtíðinni.

Már - 25/02/09 15:14 #

<t-shirt>
  Ég greiddi niður
  góðærisskuldir samborgara minna,
  og það eina sem ég fékk
  var þessi helvítis bolur.

  Helvítis fokking fokk.
</t-shirt>