Örvitinn

Af hverju hætti stjórnarformaður Kaupþings?

Ég byrjaði á þessari bloggfærslu í gærkvöldi, ætlaði að safna meiri gögnum í dag en þá breyttist allt og ég missti af skúbbinu. Jæja, svona er þetta stundum. Ég nenni ekki lengur að skrifa færsluna en hendi fram því sem ég var með og bæti við vísunum.

Í fyrradag var Gunnar Örn Kristinsson skipaður formaður bankaráðs Kaupþings. Í dag hættir hann, segir að þetta hafi verið meiri vinna en hann átti von á. Ég kaupi ekki þá skýringu.

Hver er þessi náungi og af hverju var hann skipaður stjórnarformaður Kaupþings?

Nokkrar úrklippur (skjámyndir):

Dómur Hæstaréttar. Gunnar Örn er "X". Málinu var vísað frá dómi en þetta hlýtur að teljast áfellisdómur yfir endurskoðandanum Gunnari.

Hópur fjárfesta undir stjórn Gunnars Arnar keypti Bræðurna Ormsson fyrir 644 milljónir króna árið 2004. Á fjórum árum komu þeir fyrirtækinu í þrot þrátt fyrir að hafa selt úr því nokkra bita (lyftuumboð og véladeild). Að lokum tók Landsbankinn yfir reksturinn, afskrifaði mörg hundruð milljónir og seldi fyrirtækið á eina krónu - auk þess að kaupendur tóku yfir einhverjar skuldir. Sagan segir að Gunnar Örn og kó hafi mokað fé úr fyrirtækinu.

Svo virðist sem Gunnar Örn sé ekki rétti maðurinn til að reka fyrirtæki á Íslandi. Hann virðist þvert á móti vera einn af þeim sem rústuðu efnahag þessa lands, tók stöndugt fyrirtæki og skuldsetti í botn - skyldi eftir rjúkandi rústir.

Varla er heppilegt að maður sé skipaður stjórnarformaður eins bankanna þegar annar banki hefur nýlega þurft að afskrifa háar upphæðir vegna fyrirtækis sem hann var í forsvari fyrir.

Þetta er skelfilegt klúður hjá fjármálaráðherra.

pólitík
Athugasemdir

svansson.net - 25/02/09 19:25 #

Svo ég láti nú eins og hr. D. í upphafi kastljóssviðtals, þá er færslan síðan 3:20 í dag. (ekki síðan í nótt). Rétt skal vera réttara og allt það. ;)

Matti - 25/02/09 21:53 #

Jæja, þú skúbbaðir þá ekki jafn svakalega og ég hélt. Djöfuls klúður hjá mér að klára ekki bloggfærsluna í gærkvöldi, það var bara dálítið vesen að finna hæstarréttardóminn.

Matti - 25/02/09 23:03 #

Varla er heppilegt að maður sé skipaður stjórnarformaður eins bankanna þegar annar banki hefur nýlega þurft að afskrifa háar upphæðir vegna fyrirtækis sem hann var í forsvari fyrir.

Í sjónvarpsfréttum í kvöld kom fram að Landsbankinn hefði þurft að afskrifa milljarð útaf Ormsson. Rannsóknarblaðamenn mættu dunda sér við að skoða hve mikið af þeim peningum endaði hjá Gunnari Erni og félögum hans.

Sævar Helgi - 26/02/09 16:04 #

Þetta er meiri glæpamaður og siðleysingi en mig óraði fyrir. Ég vissi og veit um ýmislegt slæmt frá honum en ég vissi ekki að það hefði þurft að afskrifa milljarð útaf Ormsson. Hélt að sú tala væri miklu lægri.