Örvitinn

Trúarbragðafræðsla í skólakerfinu. Tímaskekkja eða nauðsyn?

Ég ætla að kíkja á þennan fyrirlestur í hádeginu í dag. Sigurður Pálsson er einmitt annar höfundur kennslubókarinnar sem ég las með dóttur minni fyrr í vikunni. Auk þess er hann einn guðfræðinganna átta sem skrifuðu ríkiskirkjuáróðurinn í sunnudagsmoggann.

Trúarbragðafræðsla í skólakerfinu. Tímaskekkja eða nauðsyn?

Dr. Sigurður Pálsson menntunar- og guðfræðifræðingur heldur fyrirlestur um tilhögun trúarbragðafræðslu í skólakerfi Íslands á málstofu á vegum Trúarbragðafræðistofu Hugvísindasviðs HÍ fimmtudaginn 26. febrúar kl. 12.00 í stofu 229 í Aðalbyggingu HÍ.

Í fyrirlestrinum verður gefið yfirlit yfir sögu kristindóms- og trúarbragðafræðslu í skyldunámi á síðustu öld og fjallað um tilhögun kennaramenntunar í trúarbragðafræðum hér á landi. Viðhorf Evrópuráðsins til trúarbragðafræðslu í fjölmenningarsamfélögum Evrópu verða sérstaklega kynnt og ágreiningsmál rædd varðandi tilhögun hennar í tengslum við almenn mannréttindi.

Allir eru velkomnir!

Með kveðju

Sigurjón Ólafsson Kynningar- og vefstjóri Hugvísindasviðs

kristni
Athugasemdir

Pétur - 26/02/09 10:09 #

Utan við efnið en ég veit að þú hefur áhuga á þessu: Hagstofa er komin með nýjar tölur um nýskráningar og brottskráningar í trúfélögum 1994-2008. Tölurnar eru bæði áhugaverðar og uppörvandi.

Pétur - 26/02/09 10:17 #

Þetta eru ekki þær tölur. Þetta eru sérstaklega brottskráningar og nýskráningar, þ.e. tölur um það þegar fólk skiptir um trúfélag og aðeins þegar fólk skiptir um trúfélag - þarna er ekki inni fólk sem fæðist, deyr og flytur inn í landið eða úr því. Þeir voru að setja þetta inn í dag.

Matti - 26/02/09 10:19 #

Ah, ég misskildi þig. Þá fer ég að skoða þær tölur :-)

áj - 26/02/09 10:29 #

Af fréttavef RÚV

„Fjölgar um 500 í Þjóðkirkjunni

Tæplega 253.000 manns voru skráð í þjóðkirkjuna um áramótin. Þeim fjölgaði um rúmlega 500 frá árinu áður en Íslendingum fjölgaði á sama tíma um tæplega 7000.

Kaþólska kirkjan er næstfjölmennasta trúfélagið með rúmlega 9300 skráða og fjölgaði þeim um næstum 1400 milli ára. Í þriðja sæti er Fríkirkjan í Reykjavík með næstum 8000 félaga, um 500 fleiri en í árslok 2007 og þar á eftir kemur Fríkirkjan í Hafnarfirði með rúmlega 5200 skráða.

Þeim fjölgað um rúmlega 200 milli ára. Athygli vekur að þeir sem skrá sig utan trúfélaga voru 3000 fleiri í lok síðasta árs en einu ári fyrr.“

Áhugaverð fyrirsögn, í ljósi innihalds fréttarinnar.

Matti - 26/02/09 10:37 #

Það fyrsta sem ég skoðaði voru brottskráðir og nýskráðir úr Þjóðkirkjunni.

1.453 skráður sig úr Þjóðkirkjunni í fyrra 223 skráður sig í hana

605 skráðu sig utan trúfélaga 125 skráðu sig úr þeim hópi

Svo er ekki hægt að fullyrða um þessi tengsl, en mér þykja þau líkleg.

1.307 skráðu sig í Kaþólsku kirkjuna 1.582 skráðu sig úr hópnum Óskrá trúfélög og ótilgreint

Útlendingar sem hingað flytja eru skráðir í óskráð trúfélög og ótilgreint. Kaþólska kirkjan var víst dugleg við að skrá sitt fólk á síðasta ári.

Við munum örugglega rýna í þessar tölur á Vantrú.

Matti - 26/02/09 10:42 #

Tæplega 253.000 manns voru skráð í þjóðkirkjuna um áramótin. Þeim fjölgaði um rúmlega 500 frá árinu áður en Íslendingum fjölgaði á sama tíma um tæplega 7000.

Þeim fjölgaði um 487.

Mannfjöldi eftir trúfélögum
Þjóðkirkjan
2007 252.461
2008 252.948

Pétur - 26/02/09 10:48 #

Já, mér sýnist að þessi flokkur, óskráð trúfélög og ótilgreint, hljóti að vera að langmestu leiti útlendingar sem ekki hafa verið skráðir í neitt trúfélag ennþá. Þessi flokkur hefur stækkað mikið undanfarin ár, en samt eru alltaf miklu fleiri brottskráðir á hverju ári. Ég held að það sé því óvarlegt að flokka þá með þeim sem standa utan trúfélaga eins og ég hef stundum séð menn gera, allavega má telja líklega að trúarskoðanir þeirra eigi fremur heima í flokki sem mætti kalla 'Trúfélög önnur en þjóðkirkjan'.

Ég skoðaði aðeins tölurnar 2005-2008. Kaþólikkarnir virðast vera í mestu sókninni hlutfallslega, við og ásatrúarfélagið ekki langt á eftir. Ég nennti ekki að rýna í þau trúfélög sem eru undir þúsundkallinum.

Pétur - 26/02/09 10:51 #

Síðustu þrjú ár.
Kaþólikkar stækka um 45%.
Við stækkum um 25%.
Ásatrúarfélagið stækkar um 20%.
.....
Þjóðkirkjan stækkar um 0,5%.

Tinna G. Gígja - 05/03/09 13:39 #

Kunningi minn þarf að skrá sig utan trúfélaga í hvert skipti sem hann flytur milli húsa. Ég veit ekki hvort fleiri hafa lent í þessu.

Matti - 05/03/09 14:02 #

Ég hélt það væri liðin tíð. Einu sinni var fólk víst alltaf skráð í kirkjuna þegar það flutti milli sókna. Einnig voru allir skráðir í trúfélag þegar þeir fluttu til landsins, íslendingar í Þjóðkirkjuna, útlendingar í það trúfélag sem var ráðandi í þeirra landi.