Örvitinn

Innræting gegn trúleysi í grunnskólum

Í lok hádegisfyrirlesturs svaraði Sigurður Pálsson játandi þegar ég spurði hvort hér hefði verið (og sé) innræting gegn trúleysi í grunnskólum.

Hér er semsagt stundaður áróður gegn trúleysi í grunnskólum.

Þetta segir ekki hver sem er, Sigurður Pálsson hefur skrifað stóran hluta kennsluefnis í kristinfræði og verið virkur í þessum málaflokki lengi.

Forsendurnar fyrir spurningu minni og svari Sigurðar voru að hann segir að þöggun sé innræting (ég fjallaði um það í greininni Innræting þagnarinnar eftir að biskup sagði hið sama) annars vegar og svo játaði hann að hinsvegar ekkert sé minnst á "guðlaus lífsviðhorf" í trúarbragðafræði.

Ég spurði því beint út hvort hér væri innræting gegn guðlausum lífsviðhorfum eða trúleysi og hann játti því.

Annars er þessi frasi um að þöggun sé innræting afskaplega innantómur því ég veit ekki til þess að nokkur vilji að ekki sé minnst á kristni í skólum.

kristni
Athugasemdir

Jón Yngvi - 26/02/09 17:05 #

Og fannst Sigurði þessi þöggun bara í góðu lagi?

Matti - 26/02/09 17:17 #

Nei, sá Sigurður Pálsson sem talaði í dag var á því að þetta væri ekki nógu gott.

Kristín Kristjánsdóttir - 28/02/09 19:01 #

Við erum samt að bera saman epli og bananabrauð, þannig að þöggun um kristnina er bara allt annar hlutur heldur en þöggun um trúleysi.

Trúleysi er sammannlegt ástand sem allir upplifa áður en þeir verða fyrir innrætingu um annað.

Þetta er svipað og ef við myndum kenna börnunum það að bananabrauð sé þeim lífsnauðsynlegt til að lifa heilbrigðu lífi á sama tíma og við leynum þau því að það sé til eitthvað sem heitir ávextir, af öllum stærðum og gerðum.

Þeim er innrætt að bananabrauðið sé lífsnauðsynlegt því það innihaldi vítamín sem séu líkamanum nauðsynleg.

Á sama tíma leynum við þau því að þau geta fengið hreinni næringu og betri með því að sleppa bakstrinum og prófa sig áfram í ávöxtunum. Því við viljum svo gjarnan geta selt þeim allan sykurinn í leiðinni sem hefur þó lítið sem ekkert næringagildi fyrir þau. Sykurinn gefur nefnilega svo vel í vasann...

Ég tek það fram að mér finnst engin ástæða til þess að börn megi ekki fræðast um bananabrauð, mér finnst hins vegar að ávaxtafræðslan ætti e.t.v. að koma fyrst.

Matti - 28/02/09 19:47 #

Málið er að það er enginn "þöggun" um kristni og enginn er að fara fram á slíka þöggun. Það eina sem er þagað um er trúleysið.