Örvitinn

Hrossagúllaspottréttur með kartöflumús

Keypti tæplega kíló af hrossagúllas í Bónus í vikunni. Kostaði u.þ.b. 500 krónur. Eldaði pottrétt sem ég skáldaði á staðnum.

Byrjaði á að setja hveiti, salt og pipar í skál. Velti svo kjötinu úr hveitinu. Saxaði rósmarínnálar af 2 greinum smátt og setti á pönnuna með kjötinu. Steikti kjötið í olíu þar til það var brúnað, setti það þá til hliðar. Næst ætla ég að setja hvítlauk og rósmarín á pönnuna rétt á undan kjötinu.

Skar lauk, hvítlauk og einn chili smátt. Skar papriku, sveppi og gulrætur gróft. Skellti þessi öllu á pönnuna í einu þar sem ég var að flýta mér, steikti úr olíu þar til mér fannst nóg komið!

Setti þá kjöt og grænmeti saman í stóran pott. Setti tómatana, kjötsoð og hvítvínsedit út í. Bætti svo heilum chili, einni grein af rósmarín og lárviðarlaufum í pottinn. Hrærði vel saman og lét malla í a.m.k. klukkutíma, þetta má malla vel og lengi.

Á meðan sauð ég kartöflur, skrældi og skellti í pott. Mús stöppuð með smjöri og smá mjólk. Slatta af parmesan osti hrært saman við.

Kássan er sett í eldfast mót og kartöflumús ofan á. Það er reyndar ekkert auðvelt að setja kartöflumús ofan á en maður reddar því einhvern vegin. Smá parmesan ostur rifinn yfir og fatið sett í ofn í 30 mín við 200°. Ég þurfti að nota tvö eldföst mót.

Þetta er eiginlega betra daginn eftir.

matur
Athugasemdir

Jóhannes Proppé - 15/03/09 15:49 #

Hrossakjöt er hinn prýðilegasti matur. Fáðu þér við tækifæri lundir og brúkaðu eins og nautalundir. Þær eru meyrari og bragðbetri ef eitthvað er. Að maður tali nú ekki um kreppubudduna...

Matti - 16/03/09 00:19 #

Prófa það þegar grilltíðin hefst.

Mummi - 16/03/09 08:35 #

Tek undir með Jóhannesi. Hrossalundir (og -fille reyndar líka) fá fimm stjörnur.