Örvitinn

Niðurfelling fyrir hverja?

Þegar rætt er um niðurfellingu skulda, sama hver prósentan er, þarf að skoða tilganginn.

Niðurfelling
Grafið byggir ekki á neinum raungögnum, ég tel að græni hópurinn ætti sennilega að vera mun stærri og sá guli minni. Y ásinn markar dýpt skíts (hvað er fólk í djúpum skít) og X ásinn markar fjölda einstaklinga)

Oft er talað um að markmiðið sé að bjarga heimilunum. Þegar rætt er um björgun hugsar maður um einhvern sem er á brúninni og við það að falla en er dreginn til baka. Þannig hugsa ég um heimili sem eru á barmi gjaldþrots en eru dregin á land með niðurfellingu 20% skulda.

Ljóst er að staða heimila er mjög mismunandi. Mörg heimili eru í ágætum málum (græn á myndinni) og þurfa enga niðurfellingu, svo eru það heimilin sem eru á brúninni (þau gulu) og loks heimilin sem eru fallin. Þar skiptir engu máli hvort 20% eða 50% skulda eru felld niður - það fólk er einfaldlega komið í þrot.

Spurningin er hve stór "guli hópurinn" er og hversu mikið við ætlum að borga til að aðstoða þau. Þau heimili sem fara óhjákvæmilega í þrot eru svo sér mál, félagslega kerfið þarf að taka við því fólki og aðstoða.

pólitík
Athugasemdir

Marinó G. Njálsson - 22/03/09 15:07 #

Tilgangurinn er að minnka þann hluta af ráðstöfunarfé fólks sem fer í að greiða af lánum. Tilgangurinn er að stærri hluti ráðstöfunartekna geti farið í neyslu. Tilgangurinn er að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Tilgangurinn er að auka veltuna í þjóðfélaginu. Tilgangurinn er að tekjur ríkisins af veltusköttum aukist. Tilgangurinn er að viðhalda velferðarþjóðfélaginu.

Tilgangurinn er líka að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot, draga úr lækkun húsnæðisverðs, auka öryggi heimilanna, leiðrétta það misgengi sem hefur átt sér stað.

Það spurði enginn um tilganginn þegar 200 milljörðum var dælt inn í peningasjóðina eða þegar a.m.k. 600 milljarðar voru settir í að bjarga innistæðum. Samt voru um 90% þeirra sem fengu þessa 800 milljarða líklegast á græna svæðinu og innan við 1% á rauða svæðinu. Hver var tilgangurinn með því að bjarga þeim?

Arnold - 22/03/09 15:22 #

Þegar farið verður að ákveða hverjum á að hjálpa verður til lína eða landamæri sem skera á milli þeirra sem hjálpað verður og hverjum ekki. Þeir sem eru rétt við línuna en öfugu megin eru væntanlega engu að síður í mjög slæmum málum fjárhagslega. Það mun skapast gríðarleg óánægja þegar kemur að þessu vali á fólki. Ekkert minni óánægja en verður er farið verður í flata 20% niðurfellingu yfir línuna. Málið er að þjóðin á mjög takmarkað peninga en óskaplega miklar skuldir. Það er verið að afskrifa hundruð milljarða. Karpið er um hver á að taka á sig byrðarnr. Framundan eru svaklegair ólgutímar á Íslandi þegar barist verður krónurnar fáu og hverjir eiga að rúalla og hverjum á að bjarga. Úff, þetta verður ekki spennandi.

teitur atlason - 22/03/09 15:59 #

Mér þykja þessar hugmyndir sérkennilegar. Hvaða skuldir á að niðurfella? Bílalán? ég þekki einn sem tók 5 millur í bílalán (100% lán) og þetta var maður með meðaltekjur og í meðalvinnu. Svona lántökur eru bara heimskulegar og ég efa að nokkuð geti bjargað svona fólki yfir höfuð. Stundum er sagt að klippa af 2 til 4 miljónir af húsnæðisláni fólks. Ég átta mig ekki á því hvernig atvinnulaustt fólk í risa-húsnæði ætti að reddast þótt að mánaðarlegar afborganir minnki um nokkra tíuþúsundkalla. En hvað með að ríkið taki bara yfir húsnæði fólks og leigi það því aftur á e-m prís? -Þar til léttir til.

Ég veit ekki hvað er heillavænlegt í þessari stöðu en eitthvað verður sjáfsagt að gera. En skattalækkun? Gerir það ekki sama gagn og niðurfelling skulda?

Úff hvað Ísland er í miklum skít. Ég óttast mest að Ísland verði áþekkt og Úkraína og sum lönd í A-Evrópu. Þar er einskonar krónískt fátæktarástand og hefur verið lengi.

Arnold - 22/03/09 16:18 #

Ég er farinn að hallast að því að það eigi ekki að hjálpa neinum. Það er engin réttlát leið í þessari stöðu. Ég held að þetta hrynji hvort eð er. Ég held að það séu mistök að reyna að lengja eittahvað í því ferli. Það seinkar bara því að uppbygging hefjist. Í dag halda allir að sér höndum og á meðan er allt á leið í kyrstöðu. Það er eiginlega engin önnur leið en fjöldagjaldþrot fyrirtækja og heimila. Það þarf að fá að ganga yfir eins fljótt og kostur er og þá er hægt að fara að hugsa um uppbyggingu.

Matti - 22/03/09 18:14 #

Marinó, í þessari færslu fjallaði ég um afmarkað efni og reyndi að skoða flöt á því.

Oft er talað um að markmiðið sé að bjarga heimilunum.

Þú kemur með ýmsa punkta sem ekki tengjast því beinlínins.

Ég skrifaði um daginn um ástæður þess að innistæður voru tryggðar í bönkunum. Ekki bara hér heldur í flestum löndum.

Um aðra punkta þína vil ég benda á að þetta er tilfærsla á peningum. Það er ekki verið að búa til neinn pening með því að afskrifa skuldir heldur færa frá einum aðila til annars. Það getur því ekki aukið neyslu eða ráðstöfunarfé á heildina litið í þjóðhagslegum skilningi þegar peningur er færður svona á milli.

Auk þess þykir mér þessi punktur þinn afar undarlegur í því ljósi að þú hefðir kosið að sparnaður fólks hefði verið látinn hverfa með bönkunum. Sparnaður er undirstaða fjárfestingar í atvinnulífi.

Arnold, það má alveg skoða hvort það sé ekki einfaldara að hjálpa fólk upp aftur frekar en að rembast við að það detti ekki fram af brúninni. En þá verður fólk líka að sætta sig við stöðuna, fólk mun missa eignir sínar, þurfa að minnka við sig um húsnæði og jafnvel vera bíllaust. En það er raunveruleiki sem fáir eru tilbúnir að sætta sig við.

Marinó G. Njálsson - 22/03/09 18:17 #

Arnold, það er búið að hjálpa stórum hópum ofurríkra með því að verja ninistæður þeirra í bönkunum. Það er því um seinan að hjálpa ekki neinum. Spurningin er að gæta jafnræðis.

Teitur, það er verið að tala um húsnæðislán ekki bílalán.

Marinó G. Njálsson - 22/03/09 18:25 #

Matti, ég er ekki að setja út á að sparnaður sé varinn upp að vissu marki. Ég vil bara að allt form sparnaðar sé varið upp að vissu marki. Innistæður, peningajóðir, hlutabréf, eigið fé í húsnæði og hvaða form það er annað sem fólk kaus sér.

Þú vísar til annarra landa. Málið er að undanteknu Írlandi, þá gilda annað hvort EES reglur um 20.887 EUR eða einhver hærri tala (GBP 50.000 í Bretlandi). Hér fékk aftur lítill hópur (orð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur í Silfri Egils í dag) stóreignafólks allra sínar innistæður varðar upp í topp. Við erum að tala um að minnst 600 milljarðar hafi farið í að bjarga þessum innistæðum og innistæður fyrirtækja, fjármálastofnana og lífeyrissjóða.

Matti - 22/03/09 18:32 #

Málið er að undanteknu Írlandi, þá gilda annað hvort EES reglur um 20.887 EUR

Nákvæmlega sömu reglur giltu hér á Íslandi. En fyrir hrun bankanna lýsti ríkisstjórnin því yfir að allar innistæður væru tryggðar. Þetta var gert til að koma í veg fyrir að stóreignafólkið tækið út allan sinn pening og setti bankana þar með á hausinn. Eins og við vitum tókst þetta ekki.

Stóreignafólkið var ekki með megnið af sínum pening inni á bankabók. Þeirra peningar voru í hlutabréfum (sem glataðist algjörlega), peningamarkaðssjóðum (a.m.k. 20% tap, sumsstaðar miklu meira) og á leynireikningum erlendis.

Við sem vissum að EES reglum um 20þ evrurnar, gátum einfaldlega stofnað reikninga í mörgum bönkum, á kennitölu beggja maka og barna, og tryggt þar með allar bankainnistæður. Þetta veit ég að sumir gerðu. Ekki kom til þess að ég þyrfti að gera það enda innistæður undir þessum mörkum.

Innistæður fyrirtækja, fjármálastofnana og lífeyrissjóða.

Áttum við að láta fyrirtækin fara beint á hausinn (ofan á það sem nú er)? Það sama gildir um fjármálastofnanir. Lífeyrirsjóðirnir! Það erum við.

Marinó G. Njálsson - 22/03/09 18:55 #

Það er enginn vandi að snúa út úr því sem sagt er. 30/9 voru 605 milljarða á innistæðureikningum heimilanna í bönkunum. Þann sama dag voru innistæður annarra ívið lægri upphæð. Þann dag voru þessar innistæður tryggðar upp að 20.887 EUR eða eitthvað um 3 milljónir. Viku áður var jafn öruggt að eiga þessa peninga og hlutabréf í bönkunum eða eiga skuldabréf bankanna. Það voru allir í sama áhættuflokki. Af hverju á að vera einhver munur á því að verja innistæður og hlutabréf eða skuldabréf? Getur þú þá ekki komið með sömu rök og sagt að núna mun enginn þora að kaupa hlutabréf í bönkunum eða skuldabréf þeirra?

Reyndin er að það var tap fólks og fyrirtækja í hlutabréfum og skuldabréfum sem settu allt á annan endann. Við vitum ekki hvað hefði gerst ef innieignir umfram 10 milljónir hefðu tapast. Meira að segja í gær 24 vikum eftir setningu neyðarlaganna var það tap Sparisjóðabankans á eign sinni í skuldabréfum bankanna sem setti hann á hausinn.

Matti - 22/03/09 19:04 #

Það er enginn vandi að snúa út úr því sem sagt er.

Þetta er náttúrulega bara rugl. Ef ríkisstjórn hefur lýst því yfir að innistæður séu tryggðar, þá eru þær tryggðar.

Viku áður var jafn öruggt að eiga þessa peninga og hlutabréf í bönkunum eða eiga skuldabréf bankanna. Það voru allir í sama áhættuflokki

Nei, hvorki hlutabréf né skuldabréf bankanna voru tryggð með ríkisábyrgð. Það er algjör rangfærsla að segja að þetta hafi verið í sama áhættuflokki.

Af hverju á að vera einhver munur á því að verja innistæður og hlutabréf eða skuldabréf?

Ha, ég get ekki átt í svona samræðum! Hlutabréf hafa alltaf verið áhættumesta fjárfestingin. Það veit ég vel, endaði tapaði ég öllu sem ég átti í hlutabréfum og get ekkert kvartað undan því.

Getur þú þá ekki komið með sömu rök og sagt að núna mun enginn þora að kaupa hlutabréf í bönkunum eða skuldabréf þeirra?

Fólk verður að gera sér grein fyrir því að áhættan er allt önnur. Til að selja hlutabréf í bönkunum þarf að vera á hreinu hver staða þeirra er. Það sama gildir um skuldabréfin. Erum við ekki m.a. að reyna að fá erlenda kröfuhafa og eigendur krónubréfa til að inn í bankana?

Ég sé ekki hvernig tap sparisjóðanna kemur þessi við, nema þá að þeir hefðu verið löngu farnir á hausinn ef innistæður í þeim hefðu ekki verið tryggðar, þar sem allir hefðu hlaupið til (þ.m.t. ég) og tekið út sparifé úr sparisjóðum.

Marinó G. Njálsson - 22/03/09 19:21 #

Það er nú óþarfi að snúa út úr. Ríkisstjórnihn lýsti ekki yfir að innistæður væru öruggar fyrr en 6. október. Þær voru því bara tryggðar upp að 20.887 EUR 23. september.

Ef þú vilt ekki eiga í svona umræður, þá er það þitt mál. Hlutabréf og skuldabréf í bönkum hafa hingað til talist til öruggustu fjárfestinga sem hægt er að hugsa sér. 23. septmber voru hlutabréf og skuldabréf í bönkunum sama áhættufjárfestingin og að eiga pening umfram 20.887 EUR á innistæðureikningi.

Áhættan af því að eiga of mikið pening inni í banka var fyrir 6. október 2008 sú sama og eiga hlutabréf og skuldabréf.

Ég sagði SPARISJÓÐABANKINN ekki SPARISJÓÐIR og er að fjalla um SKULDABRÉF. Á þessu tvennu er mikill munur. Sparisjóðabankinn lánaði bönkunum í endurhverfum viðskiptum gegn skuldabréfum í bönkunum. Þar sem þessi skuldabréf reyndust verðlaus dró það Sparisjóðabankann í gjaldþrot. Þessi bréf eru líka að valda fjölmörgum smærri fjármálafyrirtækjum vanda. Má þar nefna Saga Capital, Askar Capital og BYR. Eins voru þessi skuldabréf ein af ástæðunum fyrir falli Straums.

Mergur málsins er að ríkisstjórnin breytti leikreglum á fjármálamarkaði með setningu neyðarlaganna. Þá var ákveðið að hygla einu sparnaðarformi um fram öll önnur. Gagnvart almenningi þá mun tap fólks á eigin fé í fasteignum skipta mun meira máli en tap á innistæðum umfram EUR 20.887.

Ég myndi gjarnan vilja sjá greiningu á því hverjir nutu þess að innistæður voru tryggðar umfram EUR 20.887. Ég myndi vilja sá það út frá eign, tekjum og aldri einstaklinga og síðan út frá gerð fyrirtækja og stærð. Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir og fyrr en þær eru birtar, þá vitum við ekki hvort einhverjum var bjargað sem ekki þurfti að bjarga, eins og þeir sem eru á móti niðurfærsluleiðinni slá gjarnan um sig.

Matti - 22/03/09 19:26 #

Ef þú vilt ekki eiga í svona umræður, þá er það þitt mál. Hlutabréf og skuldabréf í bönkum hafa hingað til talist til öruggustu fjárfestinga sem hægt er að hugsa sér. 23. septmber voru hlutabréf og skuldabréf í bönkunum sama áhættufjárfestingin og að eiga pening umfram 20.887 EUR á innistæðureikningi. Áhættan af því að eiga of mikið pening inni í banka var fyrir 6. október 2008 sú sama og eiga hlutabréf og skuldabréf.

Fyrirefðu Marinó, þetta er bara ekki rétt. Þetta verður ekkert réttara þó þú endurtakir það.

Lykilatriði málsins er þetta. Ef við tryggjum ekki bankainnistæður, fyrir og eftir hrun, eru forsendur bankakerfis brostnar. Við höfum ekkert bankakerfið ef fólk leggur sparifé sitt ekki inni í banka. Enginn leggur sparifé í banka (á lágmarks vöxtum) ef það er ekki tryggt.

Marinó G. Njálsson - 22/03/09 19:46 #

Hef ég eitthvað talað um að vera ekki með innistæðutryggingar? Eina sem ég hef sagt er að mörkin voru EUR 20.887 í lok september og þess vegna voru innistæður umfram það áhættufjármunir. Innistæður voru tryggðar upp að vissu marki hér á landi eins og alls staðar innan EES. Hvernig geta það verið brostnar forsendur að halda bara þeirri tryggingu, sem er búin að vera við líði frá því í júní 1999? Málið er að setja ekki öll eggin í sömu körfu.

Ég veit um fólk sem fór í bankana í vikunni frá 28.9. - 2.10. og færði fé á milli reikninga svo enginn reikningur væri með hærri innistæðu en 3 milljónir. Bara hið besta mál. Þetta fólk var með áhættustýringuna sína í lagi.

Matti - 22/03/09 20:28 #

Ég veit um fólk sem fór í bankana í vikunni frá 28.9. - 2.10. og færði fé á milli reikninga svo enginn reikningur væri með hærri innistæðu en 3 milljónir. Bara hið besta mál. Þetta fólk var með áhættustýringuna sína í lagi.

En finnst þér ekki fáránlegt að tryggja innistæður þessa fólks, en ekki nágranna þeirra sem átti nákvæmlega sömu upphæð - en bara á einum reikningi vegna þess að það fattaði ekki að leika á kerfið?

Ég skil ekki enn það sem mér finnst vera þversögn í málflutningi þínum og fleiri. Þér finnst að það eigi að fella niður 20% skulda, m.a. til að örva eyðslu og fjárfestingar - en á sama tíma ertu að mótmæla því að innistæður hafi verið tryggðar umfram 22þ evrur.

Er ekki eðlilegra að vernda þá sem spara en þá sem skulda. Er ekki réttlátara að sá sem leggur fyrir uppskeri, frekar en hinn sem eyddi um efni fram?

Eggert - 22/03/09 20:29 #

Svo ég komi að upphaflegu efni þessa færslu hjá Matta, þá er e.t.v. stærsta verkefnið að vinda ofan af fasteignabólunni. Allt of margar eignir eru veðsettar nálægt eða jafnvel yfir raunverði þeirra.
Ef maður lítur á eignarhlut í húsnæði sem einhvers konar sparnað, þá er t.d. verðbólgan búin að fara helvíti illa með sparnað fólks sem keypti á þeim tíma þegar bólan var orðin hvað mest - vissulega mis-illa, en þegar horfst er í augu við raunlækkun á fasteignaverði, hugsa ég að eignahlutur margra fari niður fyrir núll, sem ekki hafa misst vinnuna, svikið greiðslumat eða tekið 100% lán.

Matti - 22/03/09 20:36 #

Svo ég komi að upphaflegu efni þessa færslu hjá Matta

Þakka þér fyrir, þetta átti nefnilega að vera frekar einföld færsla (með skýringarmynd og allt) :-)

Það er vissulega slæmt að eignahlutur margra í fasteign verður neikvæður. Reyndar er það frekar reglan en undantekning við fyrstu kaup hér á landi að svo sé því húsnæðislánin hækka mest fyrstu árin.

En eignarhlutur í húsnæði hefur aldrei átt að vera sparnaður, þó það komi oft þannig út ef fasteignaverð hækkar stöðugt. Hver segir að það sé eðlilegt ástand? Það er eiginlega óeðlilegt hve hátt hlutfall íslendinga eiga húsnæði sitt í stað þess að leigja.

Ég veit ekki hve stór hluti lendir í þessu, þetta á fyrst og fremst við um þá sem keyptu fyrstu fasteign eða stækkuðu mikið við sig með lántöku síðustu fjögur ár.

Marinó G. Njálsson - 22/03/09 23:06 #

Matti, ég veit ekki hvort þú hefur tekið eftir því, að ég hef hvergi nefnt að ekki ætti að tryggja innistæðurnar. Minn punktur hefur verið að jafnræði eigi að vera. Sá sem "keypti" tryggingu með því að hafa fyrir því að flytja á milli reikninga var fyrirhyggjusamur. Hann tryggði innistæður sínar í samræmi við lög. Hinir gerðu það ekki, en ríkisstjórnin ákvað samt að bjarga þeim. Með því mismunaði hún sparnaðarformum og ákvað að ein tegund "áhættufíkla" ætti að fá björgun en önnur ekki.

Óli Gneisti - 22/03/09 23:47 #

Það sem ég óttast fyrst og fremst er að það borgi sig að hætta að borga og fara á hausinn. Það gæti gengið endanlega frá húsnæðismarkaðnum.