Örvitinn

Sjálfræðisflokkurinn

Ágætu sjálfstæðismenn.

Þið hafið oftar en einu sinni (ekki alltaf og ekki undanfarið) fengið atkvæði mitt í alþingis og sveitastjórnarkosningum. Ég taldi mig á tímabili vera í ykkar liði eða a.m.k. að við ættum samleið, værum kunningjar enda ólumst við upp í sama sveitarfélagi.

Svo skyldu leiðir. Ég varð fullorðinn, eignaðist börn og gerðist frjálslyndari og víðsýnni. Fór dálítið að hugsa um hag annarra. Sjálfstæðisflokkurinn hélt áfram að vera íhaldssamur, kristilegur og þröngsýnn. Svona er það, þó samband endi þarf það ekkert að vera í illu. Við ættum að geta verið vinir, a.m.k félagar. Þurfum ekkert að knúsast en ættum að kinka kolli hvor til annars á Laugavegi.

Svo duttuð þið í það og fóruð að senda vandræðaleg sms (eða settuð þjóðina á hausinn, ég man ekki hvort). Skítur gerist eins og þeir segja í útlöndum. Það er ekkert endilega bara ykkur að kenna. Þjóðin var í alltof stuttu pilsi og of mikið máluð.

Sumir myndu láta segjast, minnka drykkjuna örlítið og láta lítið fyrir sér fara. Við þekkjum þetta. En ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Partíið skal ekki vera búið, það er rétt að byrja. Nú sturta menn í sig allskonar ólyfjan og stunda málþóf meðan Róm brennur. Í stað þess að hjálpa rembast menn við að þvælast fyrir slökkviliðinu, gretta sig og þykjast hafa tognað eins og Ronaldo (frá Portúgal) - en það er ekkert að. Ykkar maður, Árni Johnsen, syngur á Alþingi. Þessu sama þingi og þið segið að mótmælendur hafi vanvirt með eggjakasti.

Eggjakast kemst ekki nálægt þeirri vanvirðingu sem þið sýnið Alþingi.

Krakkar mínir. Getum við ekki reynt að vera vinir aftur? Þið hjálpið til (eða þvælist ekki fyrir) meðan aðrir taka til. Svo getum við séð til eftir smá tíma hvort ykkur er treystandi til að taka þátt líka.

Ekki neyða okkur til að svipa ykkur sjálfræði.

pólitík
Athugasemdir

Snorri Stefánsson - 02/04/09 16:19 #

Þetta er nú ósanngjarnt. Alþingi er ekki að gera neitt. Nýja ríkisstjórnin sem ætlar að leiða okkur úr kreppunni glímir við vandræðalega málafátækt.

Matti - 02/04/09 16:30 #

Alþingi er ekki að gera neitt.

Uh, kannski vegna þess að þar er verið að stunda málþóf :-)

Nýja ríkisstjórnin sem ætlar að leiða okkur úr kreppunni glímir við vandræðalega málafátækt.

Í hverju felst sú "málafátækt"? Er nýja ríkisstjórnin ekki með lista af málum sem er verið að reyna að koma í gegnum þingið áður en því lýkur? Er ekki Sjálfstæðisflokkurinn að berjast gegn því að hægt verði að klára þau mál?

Ég skil þetta augljóslega ekki.

Sindri Guðjónsson - 02/04/09 19:43 #

Skemmtilega skrifuð grein.

En hvaða flokkur er frjálslyndur? Eru Steingrímur Joð, og Jóhanna frjálslynd? Þau sem ekki vildu heimila bjórsölu í landinu, eða leyfa mönnum að hlusta á aðrar útvarpsstöðvar en RÚV, né leyfa mönnum að versla í búðum seint á kvöldin eða á nóttunni? Ég veit að þetta eru gömul mál, og þetta fólk sér í dag hversu sjálfsagt er að leyfa flest það sem þau vildu áður banna. En forræðishyggja virðist vera þessu fólki mjög eðlislæg, eins og kristilega íhaldssemin hjá gamla fólkinu sem ég spjallaði við á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins síðustu helgi.

Við þurfum stjórnmálaafl sem er raunverulega frjálslynt. Sem ekki er að hafa áhyggjur af því sem fólk er að gera heima hjá sér, eða í sínu prívat lífi. Hvernig pöbba það fer á, o.s.frv.

Arnold - 02/04/09 20:23 #

Sindri, Sjálfstæðisflokkurinn er ekki valkostur. Ég er með því ekki að segja að aðris kostir séu skárri. Ég ætla ekki að kjósa flokkinnn. Hann er einfaldlega búinn að gera of margt vont og staðið sig afskaplega illa. Landsfundurinn olli mér næstum stöðugum kjánahrolli þegar ég fylgdist með. Gamaldags þjóðernishjal og 17. júní ræður. Og þegar fólk er farið að vona að guð bjargi þeim og gerðum þeirra finnst mér tími til að þessu sama fólki sé skipt út. Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert af því sem hann segist vera. Hann er ekki frjálslynt stjórmálaafl. Hann er gamaldags íhaldsflokkur eins og þeir voru í eldgamladaga. Kannski nær Bjarni að breyta flokknum. En ég er alveg á móti því að hann æfi sig við það verandi í ríkisstjórn. Einngi er sú klisja að þessum flokki einum sé treystandi fyrir ríkisfjármálum brosleg í dag. Ég þoli alls ekki forræðishyggju. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki mikið skárri en aðrir flokkar í þeim efnum. Enginn ver ríkiskirkjuna meira en þessi flokkur. Sjálfstæðisflokkurinn vill sem sagt reka kristið ríkistrúfélag og að allir landsmenn taki þátt í rekstri þess.

Sindri Guðjónsson - 02/04/09 20:28 #

Það er hægt að vera meðlimur í Sjálfstæðisflokknum, virkur, taka þátt í Landsfundi, prófkjörum, og öðru, án þess að kjósa flokkinn í kosningum (í bili amk). Ég vil hafa áhrif, og vera virkur í flokki. Ég hafði smá áhrif á þessum fundi á fjölskyldumála ályktunina. Ég á alls ekki hugmyndafræðilega samleið með Framsókn eða VG. Ég þarf að velja milli Sjalla eða Samfó sem vettvangs.

Sindri Guðjónsson - 02/04/09 20:31 #

Varðandi gamaldags þjóðernishjal, þá hrópaði kunningi minn stundum í gríni "niður með útlönd!" þegar þjóðernishjalandi ræðumenn höfðu ný lokið máli sínu. (Þessi kunningi minn er alls ekki þjóðernislega þenkjandi, btw, upphrópunin var hugsuð sem háð)

Matti - 02/04/09 20:43 #

Vandamálið er að íhaldsöflin eru að fá sitt fram í VG og Samfylkingu líka.

Það eru algeng mistök að túlka stuðning við sig þannig að fólk styðji allt sem maður stendur fyrir. Mér sýnist VG og Samfylking vera að falla í þá gryfju.

Arnold - 02/04/09 21:04 #

Það er í raun merkilega lítill munur á flokkunum. Blæbrigða munur myndi ég segja. Þess vegna bendir allt til að ég kjósi ekki neitt.

Meðalaldurinn á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins sýndist mér allt of hár ef marka mátti myndir. Það er kannski vandamál flokksins. Íhaldið er enn við völd. Þeir frjáslyndu mega sín lítils. Það sem er sorglegast var að formaður og varaformaður sértaklega gerðu í því að höfða til þessa hóps í sínum ræðum. Við þurfum sennilega að býða eftir næstu kynslóð til að sjá þá frjálslyndu ná yfirhöndinni. Á meðan ætla ég að sitja hjá. Ég kýs ekki flokkinn afþvíbara ;) Það verður að vera eitthvað vit í honum.

Snorri - 03/04/09 10:01 #

Nú kann jeg ekki að gera svona ívitnanir. Hvað sem því líður. Þá er ekkert spes á dagskrá á alþingi. Ríkisstjórnin hefur lagt nánast ekkert af mörkum sem gagnast í þessari kreppu. Og þeirra stærsta mál (greiðsluaðlögun) er nauðasamningsúrræði fyrir einstaklinga sem samið var í dómsmálaráðuneyti Björns Bjarnasonar.

Það finnst mjer vera vandræðalega málefnafátækt. Eða hefur þú sjeð lausnir þessa ágæta fólks?

Matti - 03/04/09 10:10 #

Ertu viss um að þú sért ekki einfaldlega að endurtaka einhverjar flokkslínur?

Hér eru t.d. stjórnarfrumvörp.

Snorri Stefánsson - 03/04/09 12:56 #

Mjer finnst það nú ómaklegt að halda því fram að jeg sje að endurtaka einhvejar flokkslínur. Reyndar myndi jeg vilja halda því fram að sjálgræðisflokkurinn sje ljelegur í að koma því skila hve lítið þessi ríkisstjórn er að gera.

Þessi listi þarna telur vitaskuld bæði frumvörp núverandi og fyrri ríkisstjórnar. Að meginstefnu til er ekki á honum annað en það sem vanalega ratar til þingsins.

Matti - 03/04/09 13:25 #

Að meginstefnu til er ekki á honum annað en það sem vanalega ratar til þingsins.

Er það?

Ég sé ekki betur en að þarna séu allnokkur frumvörp sem tengjast "ástandinu".

Matti - 03/04/09 14:29 #

Já og ég biðst velvirðingar að vega ómaklega að þér. Ég hef bara verið að heyra þessa punkta undanfarið frá Sjálfstæðisflokknum og get ekki séð að þetta standist.

Auðvitað eru allskonar mál á dagskrá þingsins, sum sem ég er alls ekki sáttur við og önnur sem eflaust mættu bíða betri tíma, en ég get ekki séð að Sjálfstæðisflokkurinn láti það ráða sínu starfi þessa dagana. Af hverju er hann t.d. að rembast gegn breytingu á Stjórnarskrá?

Snorri Stefánsson - 03/04/09 14:33 #

Já, flest smásmuguleg. Önnur lúta að því hvernig við hefnum okkar best á vondu ködlunum. Það er gott og blessað að refsa einstaklingum fyrir lögbrot en það bjargar ekki alþýðunni.

Bankarnir eru enn í lamasessi og það örlar ekki á almennilegum tillögum í atvinnumálum. Kvikmyndaframleiðendaskattaafsláttur o.þ.h. er ekki beinlínis bjargráð.

Matti - 03/04/09 14:39 #

Kvikmyndaframleiðendaskattaafsláttur o.þ.h. er ekki beinlínis bjargráð.

Nei, en það er skref í rétta átt. Alveg eins og niðurfelling vsk af viðhaldsvinnu húsnæðis. Litlar aðgerðir sem geta breytt einhverju.

Hvaða tillögur hafa Sjálfstæðismenn komið með í atvinnumálum undanfarið?

Ingibjörg Stefánsdóttir - 03/04/09 19:59 #

Frábær lýsing Matti.