Örvitinn

5% reglan

L-listinn er búinn að gefast upp og einhverjir eru farnir að vara fólk við að kjósa litlu framboðin þar sem atkvæði greidd þeim fari í súginn. Vísa til þess að flokkur þurfi að fá fimm prósent atkvæða á landsvísu til að ná inn manni.

Er þetta rétt? Á kosning.is eru upplýsingar um þessi mál.

Um jöfnunarsæti er skrifað:

Þegar búið er að úthluta öllum kjördæmasætum er komið að jöfnunarsætum. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu

Ég sé enga sambærilega klausu um kjördæmasæti, þ.e.a.s. þar er enginn svona 5% fyrirvari.

Hér eru lög um kosningar til Alþingis (nr. 26 / 2000). Ekkert um 5% nema þegar rætt er um jöfnunarsæti í XVI kafla, 108. grein.

Vísa svo einnig á 31. grein stjórnarskrár þar sem talað er um kjördæmi. Ekkert minnst á fimm prósent.

Það er semsagt alveg á hreinu að til að framboð fái jöfnunarþingmann þarf það að hafa náð 5% atkvæða á landsvísu en ég sé ekkert sem segir að framboð fái ekki kjördæmaþingmann ef hann fær nægilega mörg atkvæði í sínu kjördæmi þó heildarfjöldi atkvæða framboðsins sé undir 5% á landsvísu.

Haft er eftir L-listamönnum: "„Annað sem skiptir máli er sá múr sem 5% lágmark setur nýjum framboðum og krafa um 126 frambjóðendur í sex kjördæmum."

Verða flokkar að bjóða fram lista í öllum kjördæmum?

Þið megið gjarnan fræða mig um þessi mál. Ég stend á gati.

pólitík
Athugasemdir

Óli Gneisti - 03/04/09 18:36 #

Ég man eftir umræðunni um þetta frá því fyrir síðustu kosningar og ég held að þetta sé rétt skilið hjá þér.

Haraldur - 03/04/09 18:44 #

Til að ná kjördæmakjörnum manni þarf 9-12% atkvæða, veltur bæði á kjördæminu og nýtingu atkvæða.

Það er engin skylda að bjóða fram í öllum kjördæmum, en Því færri kjördæmi, því minni líkur á að ná 5% markinu.

Skrýtið að hafa þröskuldinn svona háan. Þegar 1,59% eiga að vera bakvið hvern þingmann ætti að vega nóg að setja markið við 2%.

Stefán Pálsson - 03/04/09 18:45 #

Þetta er hárréttur skilningur hjá þér. Þannig má hugsa sér að Guðjón Arnar komist inn sem kjördæmakjörinn fyrir Frjálslynda flokkinn í komandi kosningum, en flokkurinn sjálfur fái innan við 5%.

Það er sömuleiðis margtuggin klisja að flokkarnir á þingi hafi sett 5% regluna sem tálma fyrir nýja flokka. Það rétta er að um var að ræða reglu sem einfaldaði nýjum flokkum að ná inn manni. Áður var það svo að þau urðu að fá kjördæmakjörinn mann til að fá uppbótarsæti.

Með núverandi kjördæmaskipan hefði sú staða hins vegar getað komið upp að flokkur fengi jafnvel 8% á landsvísu en engan þingmann. 5% reglan kemur í veg fyrir þetta. Menn geta svo deilt um hvort múrinn hefði átt að vera lægri - en það er ekki rétt að þarna hafi menn verið að herða reglur, þvert á móti.

Það er sömuleiðis rugl að framboð þurfi að bjóða fram í öllum kjördæmum. Ef ég man rétt, þá þurfa þau ekki einu sinni að tefla fram fullum lista, heldur mega þau stilla upp hálfum lista. Strangt til tekið hefði Bjarni Harðarson því ekki þurft nema 10 manna lista á Suðurlandi...

Stefán Pálsson - 03/04/09 18:52 #

frh.

Rökin fyrir því að vera með 5% mörk en ekki t.d. 2% eru helst þau að landinu er skipt upp í kjördæmi og litið er svo á að þingmenn séu öðrum þræði fulltrúar fyrir kjördæmið. Hugsum okkur flokk sem býður fram á landsvísu og fær 2%. Það þýðir að einn frambjóðandi flokksins dettur inn á þing - en sá gæti verið með óverulegan stuðning í kjördæminu.

Mönnum finnst skiljanlega blóðugt fyrir flokk sem nær 2% atkvæða að fá ekki þingmann - en er mikið meira lýðræði fólgið í því að í einhverju kjördæminu fái smáflokkurinn þingmann út á örfá atkvæði, en annar flokkur sem fær kannski sex sinnum fleiri atkvæði í kjördæminu kemst ekki inn...

Ef landið væri eitt kjördæmi, þá teldi ég sjálfsagt að afnema þröskuldinn, en það eru rök fyrir honum meðan við kjósum að skipta landinu upp í sex einingar.

Bjarki - 03/04/09 19:40 #

Jú það er reyndar skylda að skila inn fullum framboðslistum. Í kosningalögunum segir:

31. gr. Á framboðslista skulu vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu, hvorki fleiri né færri.

Bjarki - 03/04/09 19:52 #

En framboð sem á í erfiðleikum með að fylla í 126 sæti á framboðslistum á nú ekki mikinn séns held ég.

Svanborg - 03/04/09 21:52 #

Svona sem viðbót við Bjarka. Það þarf að skila inn fullum lista í hverju kjördæmi. En það er engin skylda að bjóða fram í öllum kjördæmum. Það væri t.d. hægt að bjóða fram í tveim, einu, þremur eða öllum.

Stefán Pálsson - 04/04/09 01:56 #

Hvenær var þessu breytt?

Hérna áður fyrr var alltaf nokkuð um að litlu framboðin nýttu sér að stilla ekki upp fullum listum. Mig minnir t.d. Kristilegi flokkurinn hafi nýtt sér það 1999. Var þá tekið fyrir þetta í tengslum við síðustu kjördæmabreytingu?

Matti - 04/04/09 11:06 #

Þannig að Bjarni og kó hefðu þurft að skila inn framboðslista með sextán nöfnum í einu kjördæmi. Varla mjög mikið mál.

En ég er mótfallinn svona takmörkunum. Ágætt að hafa einhvern fjölda undirskrifta en aðrar hindranir get ég ekki réttlætt.