Örvitinn

Lesarinn, Byltingarvegurinn og ást í Barcelona

Horfðum á The Reader í gærkvöldi. Það þykir mér afskaplega góð mynd, ágætis innsýn í samvisku(bit) þýsku þjóðarinnar eftir Helförina. Eitt vakti athygli mína. Um leið og aðalsöguhetjan varð 16 ára sýndu þeir typpið á honum. Las svo að þeir biðu fram að átján ára afmæli leikarans með að mynda nektarsenurnar. Myndin vekur ágætar spurningar um siðferði og uppgjör.

Glápti á Revolutionary Road um daginn. Það er önnur afskaplega góð mynd en ekki fyrir alla, það er nefnilega lítill hasar í henni - a.m.k. lítill hasar á yfirborðinu en þeim mun meira drama undir niðri. Mér fannst eiginlega óþægilegt að horfa á þessa mynd því hún potar svo hressilega í hversdagslífið, hristir upp í manni. Af hverju erum við að gera það sem við gerum, hver er draumurinn? Snýst lífið um að koma sér vel fyrir og safna meira dóti, eignast stærra hús, bera sig saman við nágrannann og láta sér leiðast í vinnunni. Áróra Ósk gafst upp eftir hálftíma gláp en ég og Gyða vorum afskaplega hrifin af þessari mynd.

Vicky Cristina Barcelona er þriðja myndin sem ég vil nefna. Gyða horfði á fyrri hlutann með mér en gafst upp og fór að sofa (það er undanteking ef hún nær að klára að glápa á bíómynd seint á kvöldin). Ég horfði til enda.

Í grunninn er sama þema í þessari mynd og Byltingarveginum. Umfjöllun um lífið, af hverju festumst við í rútínunni. Á fólk að taka sénsa eða einfaldlega að velja einfalda trausta valkostinn. Ég hef yfirleitt gaman að Woody Allen myndum og var ánægður með þessa.

kvikmyndir