Örvitinn

Laun opinberra starfsmanna

Áður en við skerum niður laun opinberra starfsmanna finnst mér ástæða til að skoða málið örlítið. Ekki það að ég sé alfarið á móti slíku, finnst bara vanta sjónarhorn í umræðuna.

Grunnlaun opinberra starfsmanna eru í mörgum tilvikum fáránlega lág, sérstaklega borið saman við einkageirann. Til að fólk fái laun sem ekki eru hlægileg borin saman við einkageirann (fyrir og eftir hrun) er ýmsu bætt við grunnlaunin, t.d. óunni yfirvinnu. Yfirmenn hafa dálítinn sveigjanleika með slíkt og geta umbunað starfsmönnum eftir þessu. Slíkt er ekki í boði með taxta, þeir fara mjög stíft eftir starfsaldri og menntun. Hætt er við því að ef óunnin yfirvinna væri alfarið skorin niður myndu laun sumra lækka gríðarlega.

Eftir að bankarnir komust í ríkiseigu og starfsmenn þar þurftu að taka á sig launalækkarnir eru þeir samt flestir með töluvert hærri laun en fólk í sambærilegu starfi hjá (öðrum) ríkisstofnunum.

Fólk sem unnið hefur hjá hinu opinbera síðustu ár, þrátt fyrir að mun hærri laun hafi boðist í einkageiranum, verðskuldar ekki endilega launalækkun. Ég ítreka að ég er ekki alfarið á móti slíkum lækkunum. Vörum okkur bara á að verðlauna hollustu með því að refsa fólki.

Hætt er við því að ef of hart verður gengið fram í launalækkunum opinberra starfsmanna í þetta skipti muni margir verða afar óánægðir í starfi. Þetta fólk mun sumt flýja yfir í einkageirann um leið og tækifæri opnast þar. Hið opinbera þarf að geta haldið í gott fólk, eitt helsta vandamál við starfsmannahald hjá mörgum stofnunum er starfsmannavelta, sífellt er verið að ráð nýtt fólk sem þarf að þjálfa. Það er oft hagkvæmara að borga fólki aðeins hærri laun heldur en að vera sífellt að skipta um starfsfólk.

Álag á ýmsa opinbera starfsmenn er mikið um þessar mundir. Hætt er við því að launalækkun muni ekki beinlínis hvetja það fólk til að leggja sig fram í vinnunni.

pólitík
Athugasemdir

ÁJ - 17/04/09 19:13 #

Rétt er að hafa það í huga að enginn hefur nefnt launalækkun opinberra starfsmanna nema sem betri valkost en fjöldauppsagnir.

Eygló - 17/04/09 19:34 #

Sjálfstæðismenn í borginni eru þegar búnir að framkvæma þessa leið. Þar var minnkuð og í sumum tilfellum tekin af föst yfirvinna (ýmist unnin eða óunnin). Allir með laun yfir 300 þúsund (fyrir skatt) voru lækkaðir. Og ekki eru borgarstarfsmenn öfundsverðir af laununum því þau eru í flestum tilfellum enn lægri en hjá Ríkinu. Ég held að þetta verði til þess að það geti orðið erfitt að semja næst þegar samningar eru lausir (flestir í ágúst hjá Reykjavíkurborg) því fólk verður ekki tilbúið að taka einhverri smotteríis hækkun og mun ekki gefa tommu eftir.

Það má segja að það sé betra að lækka launin heldur að segja þurfi upp fólki. En það var mjög ósmekklegt hvernig var staðið að þessu hjá borginni því manni var núið því um nasir að ef maður setti sig uppá móti þessu myndi maður bara missa vinnuna eða a.m.k. maðurinn á næsta borði.