Örvitinn

Um innistæðutryggingar

Eitt af því sem sumir "talsmenn heimilanna" nefna er að ósanngjarnt sé að fólk þurfi að borga skuldir þar sem ríkið hafi tryggt innistæður í bönkum. Hinir hræðilegu fjármagnseigendur hafi fengið sitt en skuldarar tapi.

Það gleymist ýmislegt í þessari umræðu.

Stór hluti fjármagnseigenda eru líka skuldarar, eiga sparnað en skulda eitthvað í húsinu sínu.

Margir fjármagnseigendur hafa tapað gríðarlegu fé. Nær allt hlutafé tapaðist, skuldabréf þeirra fyrirtækja sem fóru á hausinn hurfu og mikið af því sem var í peningamarkaðssjóðum tapaðist. Fjármagnseigendur hafa tekið á sig gríðarlegan skell.

Sumir innistæðueigendur í bönkunum eru fyrirtæki og stofnanir. Ef þeir aðilar hefðu tapað öllu sínu hefðu hrunið orðið enn verra.

Kjarni málsins er þó að þegar fólk dregur fram heildartölu sem ríkið hefur greitt fjármagnseigendum virðist sem verið sé að telja allar innistæður óháð upphæð. Það er ljóst að innistæður voru tryggðar upp að ákveðnu marki, rúmlega tuttugu þúsund evrum. Einnig er ljóst að innistæður voru forgangskröfur á bankana, innistæðueigendur hefðu verið allra fremstir í röðinni og kröfur á bankana því hærri sem þeim innistæðum nemur.

Þar sem rúmlega tuttuguþúsund evrur voru tryggðar þarf að draga frá tölunni sem sífellt er nefnd allar bankainnistæður undir þeirra upphæð.

Hvað ætli standi þá eftir?

Ég gruna að megnið af bankainnistæðum í bönkunum sem fóru á hausinn hafi verið undir þeirri upphæð. Vissulega eiga margir mun hærri upphæð á bankareikning en mun fleiri eiga lægri innistæðu. Margir þeirra sem áttu hærri innistæðu voru löngu búnir að skipta þeim á marga reikninga í mörgum bönkum þannig að hver þeirra væri undir hámarkinu. Sumum finnst það fínt og að sérstaklega eigi að verðlauna fólk fyrir slíkt. Ég er ekki sammála.

ps. Að gefnu tilefni skal tekið fram að viðskiptabanki minn fór ekki á hausinn og innistæður mínar við hrun voru í kringum þessa tryggðu upphæð.

pólitík
Athugasemdir

baldur mcqueen - 06/05/09 18:46 #

Staðan gæti auðvitað hafa gjörbreyst, en árið 2005 birtist eftirfarandi á visir.is:

"Á Íslandi er til rúmlega ein milljón bankareikninga og meðalinnistæða á þeim er 250 þúsund krónur."

Sjá hér

Erlendur - 06/05/09 18:56 #

Ætli þeir aðilar sem hefðu lent verst í þessu hefðu örugglega verið lífeyrissjóðirnir sem áttu fúlgu fjár inn á bókum og hefðu þá þurft að færa réttindi fólks ennþá meira niður. Ég heyrði eitthvað um að það eitt og sér hefðu verið tugir milljarðar.

Marinó G. Njálsson - 06/05/09 19:41 #

Matthías, þú ert að afbaka málflutning minn (sem ég býst við að þú sért að vísa til). Skoðum staðreyndir: Við fall bankanna þriggja voru ríflega 1.100 milljarðar á innistæðureikningum þeirra. Um 600 milljarðar voru vegna innistæðna heimilanna, skv. gögnum Seðlabankans, afgangurinn, um 540 milljarðar, var vegna innistæðna fyrirtækja. Samkvæmt þágildandi reglum voru innistæður tryggðar upp að EUR 20.887 sem hefur verið breytt í kr. 3.000.000. Aðrir vilja meina að miða eigi við gengi EUR árið 2001, þannig að upphæðin eigi að vera um 1.700.000 kr.

Ég hef aldrei sagt að ekki hafi átt að verja þessar innistæður, bara að ég vilji jafnræði sparnaðarforma. Ég sé ekkert hræðilegt við fjármagnseigendur, enda átti ég heilmikið fjármagn í húseignum mínum, þ.e. þeirri sem ég bý í og get ekki selt og hinni sem ég er að byggja, ég er líka fjármagnseigandi í lífeyrissjóðnum mínum og þar sem ég ávaxta séreignasparnaðinn minn. Mér finnst óréttlátt að sumir fjármagnseigendur eru varðir upp í topp meðan aðrir njóta engrar varnar. Um það snýst málið og það breytist ekkert þó þú afbakir það sem ég segi.

Ég er ekki viss um að hrunið hefði getað orðið verra ef hlutafé hefði verið varið strax í upphafi. Ég held raunar að það væri fróðlegt að skoða hina leiðina, þar sem það var nefnilega sú staðreynd að ákveðnir aðilar töpuðu hlutafé sínu sem hratt öllu af stað. Innistæðurnar þurftu ekki verndar fyrr en EFTIR að eigendur hlutabréfa í Glitni voru búnir að tapa eign sinni. Þessi rök halda því ekki vatni.

Mitt mat í upphafi var að um 600 milljarðar hafi verið í þeim hluta sem var bjargað, en síðar hafa menn talað um 700 milljarða. Það þýðir að 440 milljarðar voru í þeim hluta innistæðna sem voru undir EUR 20.887. Það er því rangt hjá þér að "megnið af bankainnistæðum í bönkunum sem fóru á hausinn hafi verið undir þeirri upphæð". Svo má nefna þá furðulegu stöðu að leiðrétting höfuðstóls gæti orðið tekjuskattsskyld meðan björgun innistæðna er það ekki.

Matti - 06/05/09 20:02 #

Matthías, þú ert að afbaka málflutning minn

Þessi færsla fjallar ekki um málflutning þinn heldur þá umræðu sem er í gangi, m.a. í Kastljósi síðustu tvö kvöld og á ýmsum bloggsíðum.

Það er því rangt hjá þér að "megnið af bankainnistæðum í bönkunum sem fóru á hausinn hafi verið undir þeirri upphæð". Svo má nefna þá furðulegu stöðu að leiðrétting höfuðstóls gæti orðið tekjuskattsskyld meðan björgun innistæðna er það ekki.

Ég vil sjá tölur, ekki ágiskanir.

anna benkovic - 06/05/09 21:25 #

http://eyjan.is/silfuregils/2009/05/04/bref-til-thingmanna-fra-gunnari-tomassyni/

BaldurM - 06/05/09 21:36 #

Svo má líka spyrja hvað hefði gerst ef ríkið hefði ekki tryggt allar innistæður fólks. Þá hefði verið gert áhlaup á bankana, fólk hefði flýtt sér í bankann til að reyna taka krónurnar sínar út sem hefði einfaldlega þýtt hrun bankakerfisins á Íslandi. Því gat ríkið ekkert annað gert en að tryggja allar innistæður.

Toni - 07/05/09 01:22 #

Samkvæmt lögum um tryggingasjóð innistæðueigenda eru innistæður tryggðar upp að 20880 evrum. Ef sjóðurinn tæmist lýkur ábyrgð hans, en þó er honum heimilt að taka lán. Ríkissjóður ber enga fjárhagslega ábyrgð á sjóðnum eða skuldbindingum hans, alls enga. Það kemur hvergi fram i lögum um tryggingasjóðinn að ríkissjóður sé í ábyrgð fyrir skuldbindingum hans, hvergi. Þetta er allveg skýrt, og þess vegna má alveg hætta að tala um að ríkið hafi ábyrgst innistæður allt að 3 milljónum.

Matti - 07/05/09 08:45 #

Þetta er allveg skýrt, og þess vegna má alveg hætta að tala um að ríkið hafi ábyrgst innistæður allt að 3 milljónum.

Af hverju erum við þá að greiða eigendum Icesave reikningum að lágmarki 20880 evrur?

Hugsanlega vegna þess að þetta er ekki "allveg skýrt"?

Má skilja Toni þannig að hann hefði ekki viljað tryggja neinar bankainnistæður.

Hefur einhver velt því fyrir sér hvernig ástandið í þjóðfélaginu hefði verið þá?

Fólk hefði ekki einu sinni getað verslað í matinn.

Laun hefðu brunnið inni í bönkunum, hrunið varð í byrjun mánaðar.

Hugsið þetta til enda.

Matti - 07/05/09 09:40 #

Ég hef aldrei sagt að ekki hafi átt að verja þessar innistæður, bara að ég vilji jafnræði sparnaðarforma. Ég sé ekkert hræðilegt við fjármagnseigendur, enda átti ég heilmikið fjármagn í húseignum mínum, þ.e. þeirri sem ég bý í og get ekki selt og hinni sem ég er að byggja, ég er líka fjármagnseigandi í lífeyrissjóðnum mínum og þar sem ég ávaxta séreignasparnaðinn minn. Mér finnst óréttlátt að sumir fjármagnseigendur eru varðir upp í topp meðan aðrir njóta engrar varnar. Um það snýst málið og það breytist ekkert þó þú afbakir það sem ég segi.

Þessi málflutningur er með ólíkindum. Það er hægt að kalla allt fjármagnseign með þessum hætti.

En það er ágætt að hafa í huga að lífeyrissjóðir eru stór hagsmunaaðili í málinu.

Ég er ekki viss um að hrunið hefði getað orðið verra ef hlutafé hefði verið varið strax í upphafi. Ég held raunar að það væri fróðlegt að skoða hina leiðina, þar sem það var nefnilega sú staðreynd að ákveðnir aðilar töpuðu hlutafé sínu sem hratt öllu af stað. Innistæðurnar þurftu ekki verndar fyrr en EFTIR að eigendur hlutabréfa í Glitni voru búnir að tapa eign sinni. Þessi rök halda því ekki vatni.

Hvað í ósköpunum ertu að reyna að segja? Að það hefði átt að tryggja hlutafé? Ef þú ert að segja það, þá er það eitthvað það heimskulegasta sem ég hef heyrt í þessari umræðu. Vonandi er ég að misskilja þig.

Þetta segi ég þrátt fyrir að hafa tapað öllu mínu hlutafé sem var nokkur hluti af mínu sparnaði.

Toni - 07/05/09 13:14 #

Sæll Matti, innistæður voru/eru tryggðar hjá tryggingasjóði innistæðueigenda og um sjóðinn gilda lög í samræmi við ees samninginn. Það er ekki stafur í þeim lögum um að ríkissjóður beri fjárhagslega ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Sjóðurinn er sjálfseignastofnun og þau fjármálafyrirtæki sem "njóta" ábyrgðar sjóðsins greiða í þennan sjóð iðgjald.

Það er í lagi mín vegna að sjóðurinn sé látin standa undir tryggingum um innistæður vegna efnahagshruns, en þá er jafnframt eðlilegt að það sé gerð úttekt á tryggingalegri stöðu sjóðsins með tilliti til áhættu og iðgjöld höfð í samræmi við áhættu.

Ef ríkið á að ábyrgjast þessar skuldbindingar er eðlilegt að það sé greitt til ríkisins iðgjald í samræmi við það, samanber viðlagasjóð fasteigna.

Matti - 07/05/09 13:35 #

Mæli með athugasemdunum sem ég vísaði á í síðustu athugasemd.