Örvitinn

Haninn galar

"Áður en hani galar tvisvar muntu afneita mér þrisvar" sagði Jesús við Pétur í Biblí.

Ríkiskirkjuliðar afneita ekki Jesús oft þó sumir séu eflaust í hópi meirihluta íslendinga sem trúa ekki að Jesús hafi verið gvuðlegur (Kristnir eru í minnihluta).

Aftur á móti afneita þeir kjarna kirkjunnar sinnar, þessarar evangelísku stofnunar við hvert tækifæri. Í janúar skrifuðu tveir guðfræðingar grein um kirkjuna og samfélagið þar sem þeir "gleymdu" að minnast á boðunina. Að helsta hlutverk kirkjunnar væri að boða "fagnaðarerindið".

Eins og Gunnar bendir á í athugasemd birtist afar fín grein í Morgunblaðinu í gær þar sem spurt var hvort við hefðum efni á ríkiskirkju.

Þjóðkirkjan er ekki óumdeild. Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að biskup sá sig knúinn til að biðja börn og konur sem brotið hefur verið á af hálfu kirkjunnar þjóna fyrirgefningar. Um fyrirgefninguna á hver við sjálfan sig, en á þjóðin að greiða laun þessara kirkjunnar þjóna? Þá hefur afstaða kirkjunnar til samkynhneigðra og hjónabands verið henni til vansæmdar.

Í mínum huga þarf enga sérstaka ástæðu til aðskilnaðar ríkis og kirkju, en í árferðinu nú er ein ástæða þó alltént augljós, 4,5 milljarðar.

Ríkiskirkjumenn þurfa ekki að bíða lengi eftir að svar þeirra birtist og grein (að sjálfsögðu er lokað fyrir athugasemdir við greinina á trú.is) séranna Árna Svans og Halldórs Reynissonar birtist í Morgunblaðinu í morgun. Í svari sínu réttlæta þeir tilvist ríkiskirkjunnar með þremur meginpunktum. Í fyrsta lagi halda þeir því fram að ríkið greiði kirkjunni í raun ekki neitt (renta fyrir jarðir* og innheimta sóknargjalda), þvínæst nefna þeir Hjálparstarf kirkjunnar (viti menn, hp notað til að réttlæta tilvist ríkiskirkjunnar, hver hefði grunað?) og að lokum nefna þeir sálgæslu.

En þeir "gleyma" boðuninni. Minnast ekki á hana einu orði.

Þeir nefna reyndar helgihald og menningu, en helgihald er afskaplega óræður stimpill.

Grundvallarþjónusta Þjóðkirkjunnar birtist jafnframt í helgihaldi sem nærir og byggir upp og í blómstrandi menningarstarfi.

Áður en haninn galar þrisvar verður ríkiskirkjan örugglega alveg óháð þessum óþurftar himnafeðgum og bara menningar og þjónustustofnun með útibú um allt land.

Þegar prestarnir tala sín á milli og halda að engir muggar hlusti skiptir boðunin meira máli eins og t.d. í viðtali við Árna Svan í Bjarma (pdf).

Það er líka svo gott að finna að við, sem prestar og djáknar, biskupar, æskulýðsfulltrúar, kirkjuverðir – sem starfsfólk kirkjunnar – erum ekki ein heldur hluti af stórum hópi fólks og þessi hópur hefur sama markmið. Hvert er það? Jú - að boða kristna trú og efla kirkjuna sem samfélag fólks. Þá hættir vefurinn að vera dauður bókstafur og verður lifandi starfsvettvangur. (feitletrun mín - MÁ)

Gaggalagú!

* Skuldum við kirkjunni pening?

kristni
Athugasemdir

Haukur - 08/05/09 11:05 #

Skrifaði Jón Valur einhvern tíma grein til að hrekja hinn vantrúaða útreikning um kirkjujarðirnar?

Mummi - 08/05/09 12:15 #

Óneinei, chihuahua hundurinn sem hélt að hann væri úlfur gelti bara "voff voff, þetta er ekki rétt hjá ykkurz, ég myndi hrekja það en ég er zvo ozzalea upptekinn við að blogga um allt aðra hluti".

Hólmfríður Pétursdóttir - 08/05/09 13:46 #

Ekki halda að JVJ sé dæmigerður fyrir kristið fólk almennt. Þú veist að það er enginn eins og fólk finnur sér stað í söfnuðum eins og í pólitík þar sem því líður best og þykir boðunin og samfélagið mest í samræmi við þess skoðanir. Þó að Pétur hafi afneitað Jesú, þá varð hann sá klettur sem kirkjan er reist á (foringi safnaðarins í Róm) samkvæmt hefðinni. Ef þú ert að lesa guðspjöllin mæli ég með því að þú takir eftir hvernig Jesús kemur fram við fólk það er hægt að segja mikið með hegðun og fólk almennt tekur meira mark á því sem fólk gerir, heldur en hvað það segir.

Matti - 08/05/09 13:48 #

Jón Valur tengist þessum skrifum afskaplega lítið.

En hvað finnst þér um að talsmenn kirkjunnar gleymi boðuninni þegar þeir telja upp það sem hún stendur fyrir? Finnst þér það heiðarlegt?

Hólmfríður Pétursdóttir - 08/05/09 14:23 #

Ég fór og las greinina og veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Ég reikna með að þeir hafi talið helgihald segja allt um boðun, en það gerir það ekki það er til margs konar helgihald þar ekki er predikað, það þýðir ekki að þáttakendur verði ekki fyrir boðun í þeim textum sem farið er með og jafnvel tónlist framkallar trúarsannindi. Ég hugsa oft um frumsöfnuðinn sem Postulasagan segir frá þar sem lærisveinarnir (og sveinkurnar) héldu sig við boðun orðsins, brotningu brauðsins og bænirnar. Ég vona að þér finnist ég ekki vera farin að boða:) Mér finnst þessi yfirsjón, ef það er yfirsjón ekki stórvægileg.

Matti - 08/05/09 14:26 #

Mér finnst fyrst og fremst merkilegt að þegar prestarnir ræða hver við annann skiptir boðunin öllu máli, en þegar þeir réttlæta tilvist ríkiskirkjunnar nefna þeir ekki boðunina.

Það mætti halda að þeir skammist sín dálítið fyrir þann part. Geri sér jafnvel grein fyrir því að það gengur ekki upp að opinber stofnun sem allir skattgreiðendur halda uppi stundið það að boða tiltekin trúarbrögð.

Hólmfríður Pétursdóttir - 08/05/09 14:41 #

Týndi svarinu. Byrja aftur. Ég er búin að lesa greinina og veit ekki alveg hvað ég á að segja. Ég reikna með að þeir hafi ætlað boðuninni að vera innifalin í heilgihaldinu. Það er ekki mjög nákvæmt því margr helgihald er án predikunar, en ekki án boðunar, textar sem farið er með næra trúna ekki síður en predikun sem getur verið alla vega, svo getur tónlist, myndir og dans haft áhrif á trúna. Ein möguleg skýring á þessu með Bjarma er sú áhersla sem Bjarmafólk leggur á boðunina í orðinu. Mér finnst þetta ekki stór yfirsjón hjá þei sérunum ef það er þá yfirsjón.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 08/05/09 14:49 #

Hólmfríður, ég veit ekki hvað þú átt við með "Bjarmafólk" en sá sem á þessi orð í Bjarma er netpresturinn Árni Svanur, annar höfunda þessarar svargreinar.

Þú hlýtur að sjá að það er viljandi gert að nefna ekki boðunarhlutverk ríkiskirkjunnar í umræðum um fjárstuðning ríkissins til hennar.

Hólmfríður Pétursdóttir - 08/05/09 15:02 #

Hjalti Rúnar, Ég er ekkert fyrir að villa á mér heimildir. Árni Svanur var samtímis mér í guðfræðinni. Bjarmafólkið er það fólk sem gefur út Bjarma, sem ég er áskrifandi að. Ég hef verið félagi í KFUK frá því ég var 16 ára, það er ekki það sama og að ég sé samþykk öllu sem frá þeim félögum kemur, en mér þykir vænt um þau. Eins og kom fram í því sem ég skrifaði áðan er ég ekki viss um að þeir hafi neitt verið að forðast að tala um boðun, því að hljóta allir að reikna með því að kristin kirkja boði Krist.

Haukur - 08/05/09 15:28 #

Það er rétt að Matti var ekki að tala um Jón Val, það var ég sem reyndi að ræna þræðinum til að ræða þessa færslu og athugasemd Jóns Vals við hana.

Annars finnst mér að kristnir menn þurfi ekkert að skammast sín fyrir Jón Val. Hann hefur greinilega yfirgripsmikla þekkingu á mörgum málum og skrifar góðan stíl.

Matti - 08/05/09 15:33 #

Jón Valur gerir þetta alltaf, segir að ýmislegt sé við skrifin að athuga og hann muni svara við betra tækifæri. Það gerist aldrei.

Hólmfríður Pétursdóttir - 08/05/09 15:47 #

Ég sé enga ástæðu til þess að ég þurfi að skammast mín fyrir einn eða neinn. Þykir nóg að bera ábyrgð á sjálfri mér.

Matti - 08/05/09 16:40 #

Er einhver að fara fram á að þú skammist þín fyrir einhvern?

Hólmfríður Pétursdóttir - 08/05/09 17:08 #

Allt tómur misskilningur smbr. Hauk hér fyrir ofan 15:28 og HP 13:46 og þú 13:48 Farin að passa.

Haukur - 09/05/09 16:09 #

Jæja, Jón Valur er búinn að svara þessu núna - að vísu ekki mjög ítarlega - í athugasemdahalanum hér.

Og svo smávegis sníkjublogg, hér er graf sem ég föndraði í gær um mannfjölda í trúfélögum hér á landi öðrum en kristnum.

Matti - 10/05/09 20:57 #

Það dugar til að staðfesta kenningu mína (um að ríkiskirkjufólk er viljandi að afneita boðuninni út á við ) að enn hafa ríkiskirkjumenn ekki svarað.