Örvitinn

Innistæðuflökkusagan

Elfur Logadóttir bendir í athugasemd hjá Vilhjálmi Þorsteinssyni á að það er flökkusaga að ríkissjóður hafi greitt mörg hundruð milljarða til að verja innistæður í bönkunum.

"Við skulum ekki gleyma 600 milljörðunum + eitthvað meira. Við höfðum greinilega efni á því ;-)"

"Við" höfum ekki þurft að hafa efni á því. Það verður að fara að kveða þessa flökkusögu um að 600 milljörðum króna hafi veirð varið úr ríkiskassanum til þess að verja innstæður. Innstæðurnar voru varðar með því að færa þær framar í uppgjörsröð við búskipti. Fjármunirnir til greiðslu á þeim innstæðum koma sem sagt úr sjóðum gömlu bankanna.

Elfur Logadóttir, 7.5.2009 kl. 13:53

Vilhjálfur bendir á annan flöt á þessu, fyrir hvern tala þeir sem gagnrýna neyðarlögin.

Rétt, Elfur, og þeir sem gagnrýna þessa ráðstöfun (þ.e. neyðarlögin) eru að tala máli þýskra banka og annarra kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna, gegn hagsmunum íslenskra sparifjáreigenda (les: debetkortum almennings og launareikningum fyrirtækja). Ég efast um að það sé ætlun Lilju Mósesdóttur, en því miður virðist hún ekki skilja málið.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.5.2009 kl. 13:58

pólitík
Athugasemdir

Ingólfur - 08/05/09 11:35 #

Ég held að þetta sé rétt, en hvað með peningamarkaðssjóðina? Fóru ekki einhverjir milljarðar í að minnka þar tapið? (Sjálfsagt ekki hundruð, en ég spyr bara af því að ég man þetta ekki alveg.)

Matti - 08/05/09 13:16 #

Eflaust voru einhverjir peningar settir í peningamarkaðssjóðina, það var þó gert með því að kaupa eignir úr þeim. Eflaust á of háu verði eftirá.

Marinó G. Njálsson - 11/05/09 15:58 #

Það voru keyptar eignir út peningasjóðunum fyrir á þriðja hundrað milljarða. Þetta voru skuldabréf í fyrirtækjum sem eru farin á hausinn eða eru í greiðslustöðvun. Verðmæti bréfanna er því 0.

Það hefur mér vitanlega enginn sagt að ríkissjóður hafi lagt 6-700 milljarða í bankanna vegna innistæðna. Þá er það misskilningur. Ríkissjóður ábyrgðist þessa upphæð og breytti forgangsröðun, sem varð til þess að rýra eignir annarra. Með því var kröfuhöfum mismunað og sparnaðarformum.

Matti - 11/05/09 16:11 #

Það voru keyptar eignir út peningasjóðunum fyrir á þriðja hundrað milljarða.

Hvaðan kemur sú tala? Auk þess voru þær eignir keyptar á ákveðnu verði á sínum tíma, áður en þessari eignir rýrnuðu. Þessu var Elfur búin að svara á bloggi þínu en þú endurtekur fyrri fullyrðingar, hún sagði:

b) Þeir fjármunir sem "settir" voru í peningamarkaðssjóðina voru fjármunir gömlu bankanna. Þeir voru ekki settir þangað heldur tóku aðilar ákvörðun um að kaupa tilteknar skuldir út úr sjóðunum. Eins og með "framlag" vegna innstæðna koma þessir fjármunir ekki úr ríkissjóði heldur úr sjóðum gömlu bankanna. Það verða því kröfuhafar sem hljóta skarðan hlut að því marki sem þessar skuldir fást ekki greiddar. Það er það sem þú vilt, er það ekki, að erlendu kröfuhafarnir taki skellinn? Hér skeikar fjárhæð þín um 200 milljarða. #

Höldum áfram:

Ríkissjóður ábyrgðist þessa upphæð og breytti forgangsröðun, sem varð til þess að rýra eignir annarra. Með því var kröfuhöfum mismunað og sparnaðarformum.

En hvað kemur það skuldurum við? Það er fyrst og fremst verið að mismuna erlendum kröfuhöfum bankanna.

Vilt þú ekki rýra eignir annarra með því að afskrifa skuldir.

Vil við þetta bæta að mér finnst ótrúlega aumingjalegt að þú sért byrjaður að ritskoða athugasemdir.

Marinó G. Njálsson - 11/05/09 16:27 #

Matthías, ég er ekkert að lýsa minni skoðun. Ég er að greina frá því sem var gert. Ég ætla ekki í einhverjar erjur við þig um túlkun á hlutum. Það hefur hver sína skoðun og bara besta mál.

Ég sagði ekki hver keypti þetta út úr sjóðunum og fæ ekki séð að það skiptir máli. Þetta voru verðlausar eignir þegar þær voru keyptar út. Fyrst að gömlu bankarnir gátu keypt eitruð bréf fyrir á þriðja hundrað milljarð út úr peningasjóðunum, þá hefðu þeir líka geta t.d. afskrifað skuldir heimilanna, afskrifað húsnæðisbréf frá Íbúðalánasjóði, o.s.frv. Málið er að það eru ennþá öll lán hjá gömlu bönkunum. Þess vegna er hægt að gera allt sem menn vilja við þau. Það á ennþá eftir að ganga lögformlega frá skiptum milli gömlu og nýju bankanna og það er ekki fyrr en það á sér stað sem lánasöfnin eru endanlega færð á milli.

Auðvitað munu eignir kröfuhafa bankanna rýrna við leiðréttingu höfuðstóls lánanna, en mínar eignir rýrnuðu við fjárglæfri bankanna þar sem þeir unnu markvisst gegn íslenska hagkerfinu til að skara sem mestan eld að sinni köku. Ertu þú að réttlæta þá hegðun bankanna með málflutningi þínum? Ég lít svo á að hækkun höfuðstóls lánanna hafi verið ólöglegt athæfi og því sé um þýfi að ræða. Það var stolið frá mér milljónum og milljónum ofan af eigin fé mínu með samteknum aðgerðum gráðugra aðila. Sástu Ann Pettifor hjá Agli í gær. Hún lýsti nákvæmlega hvernig þetta er gert og hún lá ekkert á þeirri skoðun sinni að þetta væri þjófnaður.

Ég er ekki að byrja núna að ritskoða athugasemdir. Ég hef aldrei liðið orðbragð eins og "aumingjalegt" eða aðrar niðrandi athugsemdir um einstaklinga. Þetta er regla sem ég hef haft við líði í 2 ár.

Matti - 11/05/09 16:47 #

En þú líður það að nafnlausar gungur skrifi niðrandi athugasemdir, svo lengi sem þær innihalda ekki orð eins og "aumingjalegt"! Ég hef aldrei getað skilið þankagang moggabloggara.

Ég sagði ekki hver keypti þetta út úr sjóðunum og fæ ekki séð að það skiptir máli. Þetta voru verðlausar eignir þegar þær voru keyptar út.

Nei, þær voru það ekki þegar þær voru keyptar út þó þær séu það sumar nú.

Fyrst að gömlu bankarnir gátu keypt eitruð bréf fyrir á þriðja hundrað milljarð út úr peningasjóðunum, þá hefðu þeir líka geta t.d. afskrifað skuldir heimilanna, afskrifað húsnæðisbréf frá Íbúðalánasjóði, o.s.frv.

Ég vísa enn og aftur á Vilhjálm Þorsteinsson. Það að háum upphæðum hafi verið ráðstafað (ekki úr ríkissjóði) til að reyna að bjarga bönkunum þýðir ekki að hægt sé að ráðstafa enn hærri upphæðum til allra hinna. Við þurfum að forgangsraða og hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálp að halda, ekki hinum sem fóru of hátt í góðærinum.

...en mínar eignir rýrnuðu við fjárglæfri bankanna þar sem þeir unnu markvisst gegn íslenska hagkerfinu til að skara sem mestan eld að sinni köku.

Þínar eignir rýrnuðu vegna þess að þú tókst óhagstæð lán í erlendum gjaldmiðlum meðan gengi krónunnar var fáránlega hátt. Þú getur ekki endalaust kennt öllum öðrum um þínar hrakfarir.

Ég tók ekki erlent lán, hef ekki eytt í innbú og hef fresta framkvæmdum. Í staðin borgaði ég hærri vexti af innlendum lánum sem nú hafa hækkað miðað við vísitölu. Ég á enn eigið fé í húsnæði vegna þess að ég hef farið varlega í þessum málum, hef ekki spennt bogann.

Málið er að það eru ennþá öll lán hjá gömlu bönkunum.

Þú veist að þetta er rangt. Kíktu aftur á bloggið hans Vilhjálms þar sem hann sýnir hverjir eiga húsnæðislánin.

Ég lít svo á að hækkun höfuðstóls lánanna hafi verið ólöglegt athæfi og því sé um þýfi að ræða. Það var stolið frá mér milljónum og milljónum ofan af eigin fé mínu með samteknum aðgerðum gráðugra aðila.

Var það þá ekki þýfi þegar húsnæðið þitt hækkaði á sínum tíma og það það myndaðist "eigið fé" í húsnæði þínu? Frá hverjum stalstu því?

Fór það framhjá þér að það varð kerfishrun á Íslandi? Húsnæðið þitt var of hátt metið, það var húsnæðisbóla á Íslandi og um allan heim. Þú áttir aldrei þetta eigið fé nema þú hafir verið að stefna á að selja húsnæði þitt án þess að kaupa annað. Ef þú býrð í húsinu þínu og getur greitt afborganir skiptir þetta eigið fé í raun afskaplega litlu máli.

Ertu þú að réttlæta þá hegðun bankanna með málflutningi þínum?

Ert þú fimm ára?

Marinó G. Njálsson - 11/05/09 17:18 #

Matthías, ég virði tröllatrú þína á Vilhjálmi. Málið er að myndin hans í bloggfærslunni var ekki rétt. Í henni voru nokkrar rangfærslur. Ég leiðrétti þá augljósustu, en lét hinar eiga sig vegna þess að ég hef lært það af reynslunni að honum verður ekki snúið, þegar hann hefur rangt fyrir sér.

Varðandi hækkun á eigin fé á húsnæðinu mínu, þá tekur þú kannski eftir því að ég miða við 2005. Og það meira að segja áður en mesta hækkunin varð. Ég hef aldrei ætlast til þess að fá alla hækkunina bætta. Þú finnur það ekki í mínum málflutningi þó þú lúsleitir allt það sem ég hef sagt alls staðar. Nei, þessi hækkun á eigin fé mínu var að stórum hluta kominn til vegna þess að ég hafði greitt afborganir og vexti af lánum (ég nefndi það, en þú kýst að hunsa það). Af hverju ætti ég að hafa stolið því?

Þegar ég tók mín lán, þá fór ég vel yfir allar hagtölur og greiningar og spár bankanna, fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans. Ég gerð ráð fyrir að krónan myndi lækka meira en allir þessir aðilar gerðu ráð fyrir og hún myndist veikjast um á bilinu 1 - 2% á ári allan lánstímann. Það er meiri lækkun en hefur verið að meðaltali frá 1990. Ég gerði einnig ráð fyrir ákveðinni verðbólguþróun (4-5% á ári), sem var 2 - 3% hærri en þessir aðilar gerðu ráð fyrir. Ég átti ekki von á því að bankarnir væru að vinna að því að grafa undan hagkerfinu. Ef ég hefði vitað þá allt sem ég veit í dag, þá hefi ég aldrei farið af stað. Málið er að bankarnir sögðu okkur ekki frá því sem þeir voru að gera. Meira að segja þegar öll viðvörunarljós loguðu hjá matsfyrirtækjunum, þá fóru menn í áróðursferð til að villa um fyrir fólki. Það var haft rangt við og þjóðin var blekkt.

Vorið 2004 var húsnæðisverð of lágt metið hér á landi. Spurðu hvaða fasteignasala sem er og hann staðfestir þetta. Húsnæðisverð komst í "eðlilegt" horf fyrri hluta árs 2005, eftir það var ekki innistæða fyrir hækkuninni. Segðu mér hvenær varð kerfishrunið að þínu áliti? 2005, 2006, 2007 eða 2008?

Ég tek því sem svo að svar þitt við spurningunni: Ertu að réttlæta [..] hegðun bankanna með málflutningi þínum? sé Nei. Það er bara svo erfitt að átta sig á því að þetta sé skoðun þín. Mér finnst helst að þu sért að því. "Það er þér að kenna að þjófurinn stal flatskjánum þínum vegna þess að þú keyptir hann. Ef þú hefðir ekki verið svo vitlaus að kaupa flatskjá, þá hefði hann ekki stolið honum." Eða "Þér var nær að klæðast svo gliðrulega, þá hefði þér ekki verið nauðgað." Svona skil ég málflutning þinn. Vegna þess að ég var svo vitlaus að taka lán, þá er allt í lagi þó bankinn stundi svik og pretti til að hækka höfuðstól lánsins upp úr öllu.

Matti - 11/05/09 17:31 #

Þú tókst lán í erlendum gjaldmiðli þrátt fyrir að vera með tekjur í íslenskum krónum. Þú fékkst hagstæðari vexti og enga verðtryggingu. Í staðin tókstu áhættu.

Ég tók verðtryggt íslensk lán með hærri vöxtum og fór aldrei í að endurfjármagna þó mér stæði það til boða. Ég vissi að í því væri fólgin áhætta.

Á ég að bæta þér upp þitt tap? Af hverju?

Þetta eigið fé þitt var aldrei raunverulegt. Ekki frekar en það er nokkuð raunverulegt á bak við eigið fé mitt í fasteign. Ekki nema ég selji fasteignina og leigi eða flytji inn á ættingja.

Ég get ekki annað en brosað þegar þú tekur orð fasteignasala fyrir því að verð fasteigna hafi verið of lágt árið 2004 :-)

Enn er verið að rannsaka hvort bankar hafi brotið lög. Það er gott ef þú hefur sannanir fyrir því að svo hafi verið.

Ég tek því sem svo að svar þitt við spurningunni: Ertu að réttlæta...

Þetta er einfaldlega "ertu hættur að berja konuna þína" spurning sem ég kýs að svara ekki.

Fólk verður einfaldlega að taka ábyrgð á eigin gjörðum. Vissulega er skítt að tapa einhverju af eigin fé, en það er ekki mér að kenna. Ekki einu sinni bönkunum eða ríkinu. Vissulega buðu bankarnir gull og græna skóga en þeir neyddu engan til að taka lán. Fólki stóð allan tímann til boða að taka leiðinlegt og dýrt íslenskt verðtryggð lán.

Við skulum einbeita okkur að því að aðstoða þá sem þurfa mest á aðstoð að halda. Allir þurfa að leggjast á eitt, kreppan lendir á okkur öllum. Vissulega mis mikið en við tókum líka ekki öll jafn mikið þátt í "góðærinu".

Marinó G. Njálsson - 11/05/09 17:52 #

Af hverju heldur þú að það sé þitt hlutverk að bæta einum eða öðrum eitthvað upp? Það eru kröfuhafar bankanna sem bera það sem verður leiðrétt eða dæmt ólöglegt.

Ég er ekki að taka orð fasteignasala fyrir því. Ég er að benda þér á fá það staðfest hjá þeim. Þú getur líka farið til Fasteignaskrár og færð líklegast sömu svör. Vorið 2004 var frost á fasteignamarkaði. Það sáu allir sem fylgdust með markaðnum.

Hugsanlega var það löglegt hjá bönkunum að setja þjóðfélagið á hliðina. Ég einvhern veginn efast um það. En það er bara mín tilfinning og hún vegur svo sem ekki neitt. Hver er þín tilfinning? Heldur þú að allt sem bankarnir gerðu í undanfara hrunsins hafi verið löglegt? Ah, þú svarar þessu: "en það er ekki mér að kenna. Ekki einu sinni bönkunum eða ríkinu." Þarna greinir okkur á. (Vissulega ekki hvað varaðar sekt þína.) Bankarnir og ríkið bera mikla ábyrgð á því hvernig fór.

Varðandi "leiðinlegu verðtryggðu lánin", þá er ég viss um að þegar upp verður staðið, þá munu þeir sem tóku "leiðinlegu verðtryggðu lánin" koma verr út en hinir sem tók "áhættusömu gengisbundnu lánin". Þess vegna er ég að nýta alla möguleika til að frysta mín gengisbundnu lán (og raunar líka verðtryggðu lánin) þar til krónan hefur vonandi jafnað sig. Með því er ég að tryggja, að þegar ég fer að borga af þessum lánum, þá verði ég búinn að selja aðra eignina og stend því undir afborgunum, auk þess sem krónan verði orðin um 30% sterkari en hún er í dag. (Sakar ekki að dreyma.)

Ég get alveg tekið undir með þér að það þurfi að aðstoða þá sem verst eru settir, en það sorglega er að þeim er ekki boðið neitt nema líkardeildin með hjúkrunarfræðingi, fyrirgefðu, greiðsluaðlögun með umsjónarmanni.

Matti - 11/05/09 18:06 #

Af hverju heldur þú að það sé þitt hlutverk að bæta einum eða öðrum eitthvað upp? Það eru kröfuhafar bankanna sem bera það sem verður leiðrétt eða dæmt ólöglegt.

Vegna þess að það lendir á mér.

Af hverju ættu kröfuhafar bankanna að samþykkja niðurfellingu skulda sem ekki þarf að fella niður? Svarið er: Þeir gera það ekki.

Ég sé ekki betur en að það hafi verið fleiri kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu árið 2004 heldur en árin 2003 og 2005.

Mér finnst ræða þín um góða stöðu lána þinna dálítið skondin í ljósi þess sem áður hefur komið fram. Bæði er ljóst að þér standa til boða ákveðin úrræði (annað hefði mátt halda) og að þú ert ekkert í svo slæmu málum eftir allt saman, þrátt fyrir að eiga 100% fleiri fasteignir en ég.

Ég get alveg tekið undir með þér að það þurfi að aðstoða þá sem verst eru settir, en það sorglega er að þeim er ekki boðið neitt nema líkardeildin með hjúkrunarfræðingi, fyrirgefðu, greiðsluaðlögun með umsjónarmanni.

Þetta er rangt Marinó. Það er ýmislegt í boði, þar með talið greiðsluaðlögun með umsjónarmanni. Fólk sem er í djúpum skít þarf slíka aðstoð.

Marinó G. Njálsson - 11/05/09 18:32 #

Fræddu mig endilega um það hvað er annað í boði fyrir þá verst settu. Ég er að undirbúa erindi sem ég mun flytja í kvöld hjá Borgarafundum og vil gjarnan hafa allt með. Þrátt fyrir góðan vilja, þá sé ég ekki önnur úrræði fyrir þá verst settu.

Ef leiðrétting lánanna lendir á þér, þá hlýtur vernd innistæðna líka að lenda á þér. Munurinn er að annað er krafa sem þarf að greiða, en hitt er eign sem nota á til að greiða kröfuna og aðrar kröfur á bankana.

Það er ekki sama að fjöldi kaupsamninga hafi verið mikill og að verð hafi verið orðið of hátt. Fjöldi kaupsamninga dregst saman af þremur ástæðum: a) minni aðgangur að lánsfé; b) of hátt verð; c) fækkun eigna á sölu. Hafi kaupsamningum fækkað 2005 og 2006 miðað við 2004, þá hlitur eitt af þessu að hafa átt sér stað. Við vitum að a) átti ekki við, þannig að annað hvort eða bæði hinu tvennu hefur því átt við.

Matti - 11/05/09 20:40 #

Fræddu mig endilega um það hvað er annað í boði fyrir þá verst settu.

Má til með að benda þér á góða samantekt hjá ágætum (en mistækum) moggabloggara þar sem talin eru upp úrræði fyrir skuldara. Mörg þeirra fá meira að segja þokkalega einkunn hjá honum.

Marinó G. Njálsson - 12/05/09 00:36 #

Þá hefðir þú átt að hlusta á mig í kvöld, þar sem ég var bara nokkuð jákvæður. Málið er samt að þetta eru nærri allt bráðabirgðalausnir.

En takk samt. Þessi listi var tekinn saman svo gætt væri hlutleysis. Niðurstaðan er samt sú, að þetta er ekki fyrir alla og sumir fá nær enga úrlausn nema þeim takist að komast í gegnum "eitthvað um 100 blaðsíður af spurningum", eins einn fundargestur orðaði það í kvöld. Þeir sem helst fá úrlausn sinna mála eru þeir sem eru með gengisbundin lán og þeir sem glíma við sölutregðu!! Varðandi þetta síðasta, þá er það úrræðum Íbúðalánasjóðs að þakka, en bankarnir erfðu þau rétt fyrir páska.

Takk fyrir góða umræðu hér. Mér hefur fundist hún mun hófstilltari en á þræðinum hjá mér.