Örvitinn

Flott framtak hjá Siðmennt

Alþingismenn eiga valkost við guðsþjónustu við þingsetningu

Siðmennt félag siðrænna húmanista á Íslandi býður alþingismönnum að koma á Hótel Borg áður en þing er sett föstudaginn 15. maí kl. 13:30 og hlýða á Jóhann Björnsson heimspeking flytja hugvekju um mikilvægi góðs siðferðis í þágu þjóðar. Allir alþingismenn eru hjartanlega velkomnir til að eiga stutta samverustund óháð öllum trúarsetningum áður en þeir ganga til þingstarfa.

Ég geri samt ekki ráð fyrir góðri mætingu hjá þingmönnum. En hver veit, kannski koma einhverjir á óvart.

vísanir
Athugasemdir

Hólmfríður Pétursdóttir - 14/05/09 15:05 #

Hvað hefur breyst í 1000 ár. getur enginn komið í stað Þorgeirs Ljósvetningagoða.

Okkur veitir ekki af samstöðu og mér finnst ekki brotin mannréttindi á neinum þó menn gagngi til kirkju.

Ég er viss um að allir hefðu gott að að heyra þetta erindi Jóns Björnssonar.

Sem sagt bæði og en ekki annað hvort eða, í þessu tilfelli.

Hólmfríður Pétursdóttir - 14/05/09 15:12 #

Stundum reynir tölvan að hafa vit fyrir mér, núna sendi hún fyrri færslu aðeins of fljótt (auðvitað hef ég rekið mig í eitthvað, er með hana í kjöltunni)

Það sem ég vildi bæta við var það að ég fullyrði að það sé öllum frjálst að vera ekki við guðsþjónustuna og val hvers og eins hvar hann heldur sig.

Matti - 14/05/09 15:14 #

Að mínu mati er það móðgun við mig og alla aðra íslendinga sem ekki eru kristinnar trúar að setning æðstu stofnunar þjóðarinnar hefjist samkvæmt dagskrá með trúarathöfn hjá einu tilteknu trúfélagi. Alþingi Íslands er veraldleg stofnun.

Kristín - 14/05/09 15:30 #

Sem betur fer hefur ekkert breyst í 1000 ár. Sem betur fer.

Matti - 14/05/09 15:32 #

Akkúrat :-)

Haukur - 14/05/09 15:42 #

Æ, ég veit ekki með þessa grein hjá Illuga. Hann setur fram yfirgripsmiklar fullyrðingar eins og, "Það er einfaldlega eðli trúarbragða". Ég er bara ekki viss um að trúarbrögðin eigi neitt eitt eðli. Sam Harris er duglegur að benda á að mismunandi trúarbrögð hafa mismunandi afleiðingar (honum verður tíðrætt um íslam og jainisma) og það mundi ég gjarnan vilja sjá víðar í gagnrýni trúleysingja.

Svo finnst mér einhvern veginn ekki alveg passa að bera saman presta og heimspekinga - annað er starf (sem felur í sér ýmis hagnýt verkefni), hitt er fræðigrein. Það væri frekar hægt að bera saman guðfræðinga og heimspekinga.

Matti - 14/05/09 15:48 #

Heimspeki getur verið starfsheiti samanber bók Róbert Jack Hversdagsheimspeki en almennt er þetta vissulega notað um fræðigrein.

Mér finnst skrif Illuga hressandi. Ég meina, hvaða máli skiptir jainismi í hversdagslegri trúarbragðaumræðu? Við erum yfirleitt að ræða þau trúarbrögð sem eru ráðandi.

Haukur - 14/05/09 15:53 #

Þú manst kannski, Matti, að þetta er röksemdin sem er venjulega notuð til að gera lítið úr þér og þínum skoðanabræðrum í Vantrú og Siðmennt. Hvaða máli skipta einhverjir fáeinir nöldrandi trúleysingjar? Erum við ekki næstum því öll kristin eða að minnsta kosti hlynnt kristninni?

Jainismi skiptir litlu máli hér á landi enda var það ekki mitt dæmi heldur það sem Harris tekur. Hins vegar er hér talsvert af fólki sem aðhyllist önnur trúarbrögð en kristni.

Matti - 14/05/09 15:55 #

Vissulega man ég það, enda var ég ekki að segja að jainismi skipti engu máli heldur að við hljótum að mega fullyrða eitthvað um trúarbrögð almennt ef það á við um lang stærstan hluta þeirra. Eins og t.d. það að það sé í eðli trúarbragða að vera uppfull af umburðarleysi. Jújú, það má eflaust finna einhver dæmi um annað.

Matti - 14/05/09 16:02 #

Já og skammaðu svo Illuga freka en mig. Þetta á aðallega að snúast um þetta fína framtak Siðmenntar :-)

Haukur - 14/05/09 16:19 #

Ég gæti samþykkt að það væri í eðli boðunartrúarbragða-sem-vilja-leggja-undir-sig-heiminn-og-útrýma-öllum-öðrum-trúarbrögðum að vera umburðarlaus, en það er eiginlega tátólógískt. Eins og við vitum eru tvö fjölmennustu trúarbrögð í heiminum af þessari gerð svo að ég get vissulega fallist á það með þér að nóg sé af umburðarleysinu.

Af bókinni hans Hitchens gæti maður haldið að Lótussútran væri jafnlíkleg til að ýta fólki út í trúarbragðastríð og Kóraninn. Það held ég að sé ákaflega langt frá því að vera satt. Mér dettur stundum í hug að trúleysingjar séu hikandi við að gagnrýna íslam sérstaklega, af ótta við að vera taldir arabahatarar eða eitthvað slíkt. En ég held að umburðarleysið sé ennþá innbyggðara í íslam en kristnina.

Haukur - 14/05/09 16:19 #

Já, æ, ég nenni svo sjaldan að kommenta á öðrum bloggum en þínu :-)

Haukur - 14/05/09 16:26 #

Um framtak Siðmenntar hef ég svo sem engu við að bæta. Mér þykir sjálfum óþægilegt og óyndislegt að sækja athafnir í kirkju. Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég væri þingmaður.

Hólmfríður Pétursdóttir - 14/05/09 17:00 #

Matthías,

Þú ert á undan þinni samtíð. Alþing er veraldleg stofnun rétt er það en meðan stjórnaskránni hefur ekki verð breytt verður þessu með messuna sjálfsagt ekki breytt heldur.

Hvað með okkur hin sem finnst í rauninni sjálfsagt að hafa þessa messu, en hafa þáttöku frjálsa?

Matti - 14/05/09 17:06 #

Alþing er veraldleg stofnun rétt er það en meðan stjórnaskránni hefur ekki verð breytt verður þessu með messuna sjálfsagt ekki breytt heldur.

Af hverju? Er eitthvað um það í stjórnarskrá að setning Alþingis skuli hefjast í guðsþjónustu?

Hvað með okkur hin sem finnst í rauninni sjálfsagt að hafa þessa messu, en hafa þáttöku frjálsa?

Ykkur er frjálst að fara í kirkju hvenær sem þið viljið. Svo lengi sem það er ekki hluti af dagskrá þegar Alþingi kemur saman.

Hólmfríður Pétursdóttir - 14/05/09 18:16 #

Samkvæmt 6. kafla og 62 grein stjórnarskrárinnar er hér Þjóðkirkja og ríkið á að vernda hana og styðja, svo hefðin verður sjálfsagt ekki brotin fyrr en þessu hefur verið breytt, en stjornarskráin mælir ekki fyrir um messuna.

Hver er réttur okkar til að vilja hafa þetta eins og það er?

Matti - 14/05/09 18:21 #

stjornarskráin mælir ekki fyrir um messuna

Akkúrat. Þó enn sé talað um Þjóðkirkju í stjórnarskrá er ekki þar með sagt að Alþingi hefjist með guðsþjónustu.

Hver er réttur okkar til að vilja hafa þetta eins og það er?

Réttur ykkar er enginn. Ekki frekar en réttur þeirra sem voru á móti því að konur fengju kosningarétt eða réttur þeirra sem vilja ekki að samkynhneigðir fái að gifta sig.

En þið hafi rétt á því að fara til kirkju hvenær sem ykkur hentar, líka þingmenn.

Hólmfríður Pétursdóttir - 14/05/09 19:49 #

Ég skil þig. Rétturinn að vera laus undan. Þarf að hugsa það í þessu samhengi svo lítið lengur.