Örvitinn

Stopult umburðarlyndi biskups

Karl Sigurbjörnsson biskupÍ fyrradag bar Vantrú saman orð biskups og Dalai Lama um þá sem ekki aðhyllast trúarbrögð.

Dalai Lama hefur t.d. sagt:

Þótt Búddismi minn hafi auðveldað mér að kalla fram kærleika og væntumþykju, jafnvel í garð þeirra sem við teljum óvini okkar, er ég sannfærðum um að allir geta þróað mér sér gott hjartalag og ábyrgðarkennd gagnvart alheiminum með eða án trúarbragða.

Biskupinn á þessu fleygu orð:

Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar.

Morten Lange skrifar áhugaverða athugasemd og bendir á að umburðarlyndi biskups virðist stopult, hugsanlega meira meðan Dalai Lama hlustar.

Ég þurfti að hlusta ítrekað á upphafsorð biskups til að finna umburðarlyndi í garð trúlausra.

Hér eru orðin sem ég fann : "As your holiness has relentlessly stressed, human kind in all its diversity is one family. That message resounds in our hearts whatever faith or world view we hold. We are all brothers and sisters....."

Hann notar sem sagt orðin "faith or world view" í jákvæðu samhengi.

En það er skrýtið að sjá að þegar þessi upphafsorð birtast á íslensku á tru.is, þá eru orðin "world view" og "in all its diversity" dottin út:

"Eins og Yðar heilagleiki hefur þráfaldlega minnt á þá er mannkyn allt ein fjölskylda. Sá boðskapur á sér hljómgrunn með okkur öllum, hverrar trúar sem við erum. Við erum systkin, líf okkar allra er af sömu jörðu runnið, við eigum hlutdeild í sömu mennsku, jarðarbörn."

( Af tru.is : Friður og von)

Biskup sagði einnig í ræðu sinni:

Trúin sækir styrk og viðmið til æðri máttar og visku. Við þörfnumst öll þess máttar og visku til að leiðbeina okkur á vegi hins góða. Allt góðviljað fólk þarf að taka höndum saman um það.

Við stöndum hér fulltrúar trúarbragða á Íslandi. Við erum að feta okkur fram á vegi virðingar og gagnkvæms trausts. Öll erum við þess meðvituð að það er vilji þess æðri máttar sem við leitum og treystum.

Við nemum staðar á þessum helga stað til að hlusta eftir rödd friðar og vonar í helgum ritum og helgum trúarhefðum, og ávarp þitt, sem við höfum öll beðið eftir að fá að heyra, kæri bróðir.

kristni
Athugasemdir

Haukur - 03/06/09 10:20 #

Já, þetta er fín mynd af kallinum.

Það sem mér finnst kímilegast við þessar umræður allar er að nú er Jón Valur skyndilega í hlutverki hófsemdarmannsins, bæði á Vantrúarþræðinum og sínu eigin bloggi.

Matti - 03/06/09 10:48 #

Ég átta mig ekki á Jón Val í þessu máli (og nenni ekkert að átta mig á honum). Er hann virkilega hrifinn af Dalai Lama eða styðst hann við spekina óvinur óvinar míns er vinur minn?

Óli Gneisti - 03/06/09 11:48 #

Ég held að það gæti vel verið að Jón Valur sé í alvörunni svoltið heillaður af Dalai Lama eins og sást í færslu sem hann skrifaði um æskuminningar sínar af honum. Hann tekur líka Tíbet mál mjög alvarlega. Ég held að ég hafi fyrst séð hann við Perluna þegar komu Kínaforseta var mótmælt.