Örvitinn

Ríkisvæðum fjarskiptanetin

Nú þegar verið er að semja við eigendur fjarskiptafyrirtækjanna á Íslandi um greiðslur skulda og afskriftir lána höfum við einstakt tækifæri til að leiðrétta þau mistök sem gerð hafa verið í fjarskiptamálum á Íslandi.

Ég legg til að við ríkisvæðum grunnfjarskiptanet þjóðarinnar. Ríkið takið yfir netin sem eru í eigu Vodafone, Símans (Mílu) og Orkuveitunnar. Að sjálfsögðu kemur einhver greiðsla eða eftirgjöf skulda á móti.

Búin verði til ein stofnun sem hefur með að gera fjarskiptanetið, sjái um uppbyggingu þess og viðhald. Öll fyritæki fá aðgang að netinu gegn hóflegri þóknun sem tekur mið af kostnaði og stofnunin sér til þess að allir landsmenn fá bestu mögulegu tengingu á besta mögulega verði. Internetþjónusta, símaþjónusta og sjónvarpsveitur verða í höndum einkaaðila en flutningurinn fer í gegnum sameiginlegt fjarskiptakerfi. Efnisveitur verða þar með aðskildar fjarskiptanetinu og mögulegt að bjóða upp á alvöru samkeppni á þeim vettvangi þar sem nýir aðilar þurfa ekki að kosta miklu uppbyggingu fjarskiptakerfis.

Það hefur verið heilmikil sóun undanfarin ár þar sem samkeppnisaðilar hafa verið að byggja fjarskiptakerfi hlið við hlið. Í raun er sorglegt að hugsa til þess að við séum enn að nota koparinn á flestum heimilum í stað þess að hafa ljósleiðara. Þetta er ekki vandamál sem einkageirinn leysir, þar á bæ hafa menn alltof mikinn hag af því að kreista krónur út úr úreltri tækni og selja eins lítið og hægt er fyrir eins mikinn pening og mögulegt er. Sjáið bara ruglið í Bandaríkjunum.

Ég vil setja fjarskiptanetið í sama flokk og rafmagnið, vatnið og vegakerfið. Þetta eru undirstöðukerfi sem þurfa að vera í lagi og meðal þess sem gera þjóðina samkeppnishæfari en aðrar þjóðir.

Gleymum ekki farsanum í kringum grunnnetið sem ekki var fræðilega hægt að aðskilja rekstri Símans fyrir sölu en var svo komið í fyrirtækið Mílu korteri síðar. Þvílík svikamylla!

pólitík
Athugasemdir

Ásgeir - 07/06/09 16:06 #

Kommúnisti!

Guðmundur D. Haraldsson - 07/06/09 19:45 #

Ekki nóg með að grunnneti LS var sett í sér fyrirtæki, heldur voru samningaviðræður í gangi um að sölu Mílu - til OR, ef ég man rétt.

Gísli Freyr - 07/06/09 21:29 #

Þannig að vatn, rafmagn og vegakerfi myndi hreinlega leggjast af ef það væri ekki rekið af hinu opinbera?

Matti - 07/06/09 21:30 #

Sagði ég það?

Bjarki - 08/06/09 10:01 #

Amen! Þessi ofsatrú á óskeikulleika markaðarins tilheyrir tímabili fáránleikans sem nú er sem betur fer lokið. Markaðurinn er snjall, skapandi og kraftmikill og samfélagið þarf að beisla þá krafta en því fer fjarri að allt eigi að lúta lögmálum markaða. Ljósleiðaravæðing heimilanna er samfélagsverkefni á borð við rafvæðingu eða lagningu hitaveitu á fyrri áratugum. Stofnkostnaðurinn er mikill miðað við beinan ágóða þess sem rekur dreifikerfið (allavega til að byrja með) en ágóði samfélagsins í heild er ótvíræður. Það er vonandi ekki lengur púkó að segja það, en hér þarf ákveðna miðstýringu til að drífa verkið áfram og skipuleggja það þannig að uppbyggingin verði rökréttari en hingað til.

hildigunnur - 08/06/09 12:38 #

Nákvæmlega! Ef samkeppni á þessu sviði virkar ekki einu sinni almennilega í BNA, hvernig í ósköpunum á hún þá að virka hérna í okkar örþjóðfélagi?

Gísli Freyr, hver sagði það? Hins vegar er ég nokk viss um að það yrði dýrt, óhagkvæmt og ömurleg þjónusta til svæða þar sem ekki búa margir.

Gísli Freyr - 08/06/09 13:23 #

Nei, þú sagðir það ekki beint.

Þú sagðir hins vegar: „Ég vil setja fjarskiptanetið í sama flokk og rafmagnið, vatnið og vegakerfið. Þetta eru undirstöðukerfi sem þurfa að vera í lagi og meðal þess sem gera þjóðina samkeppnishæfari en aðrar þjóðir."

Ég var ekki að vera með leiðindi, bara gaman að velta þeirri spurningu upp hvort þessir þættir væru ekki samt til staðar þótt þeir væru ekki í umsjá hins opinbera.

Halldór E. - 08/06/09 15:07 #

Nei, Gísli því miður. Fjölmargir íbúar í eystri hluta Columbus, Ohio, geta vitnað um það að einkarekið veitukerfi þýðir að rafmagn er ekki alltaf til staðar, jafnvel sum okkar í ríkari hlutum stórborgarinnar erum meðvituð um að endurnýjun lagnakerfisins er fjárhagslega óhagkvæm framkvæmd fyrir einkafyrirtæki, svo við verðum einfaldlega að sætta okkur við nokkra daga rafmagnsleysi á ári.

Matti bendir á vandann hér að ofan, meðan enn er hægt að ná pening út úr úreltri tækni er enginn endurnýjun og kostnaður fyrir aðra einkaaðila til að koma inn á markaðinn með nýja tækni er stjarnfræðilegur og það tekur tugi ári að skila sér í kassann. Veitukerfi eru úrvalsdæmi, um markaðsbrest, þar sem frjáls markaður heftir framþróun og lífsgæði.

Þetta er vandamálið í BNA. Vandinn við einkarekna vatnsveitur í þriðja heimslöndum er síðan annað og alvarlegra dæmi, sem snýst ekki aðeins um óþægindi af 4 daga rafmagnsleysi í stórborg, heldur líf og dauða þúsunda.

Hugsanlega er ásættanlegt í hugum einhverra að rafmagn og vatn séu bara aðgengileg þeim sem geta borgað, en fyrir okkur hin sem trúum að við berum ábyrgð á náunga okkar, þá ber slík hugsun merki um illsku.

Matti - 08/06/09 19:38 #

Ég skil ekki af hverju sumir ríghalda í þá trú að einkaaðilar séu á einhvern hátt betri í að reka grunnkerfi samfélagsins. Þ.e.a.s. betri fyrir einhvern annan en sjálfan sig.

ps. Gísli Freyr, finnst þér ekki dálítið huggulegt að fá að gera athugasemdir?

Már - 08/06/09 22:03 #

Amen við þessari bloggfærslu!