Örvitinn

Veitingastaðurinn Volare

Kíktum út að borða í gærkvöldi og ákváðum prófa Volare sem er nýr ítalskur veitingastaður í portinu við Laugaveg 55, þar sem Vín og skel var upprunalega.

Við skoðuðum matseðil fyrir utan sem var bæði á ítölsku og íslensku og okkur leist ágætlega á, sáum m.a. sjávarréttarisotto sem vakti forvitni mína. Ég er mikill risottomaður.

Þegar inn var komið tók ungur strákur á móti okkur og vísaði til borðs í salnum hægra megin við innganginn og færði okkur ítölsku útgáfuna af matseðlunum.

Strákurinn kom fljótlega og tók drykkjarpöntun en var of ungur til að afhenda mér bjórinn. Ágætt að fara eftir reglum, eldri þjónn kom bjórnum til skila.

Það leið nokkur tími þar til matarpöntunin var tekin, eitthvað vesen með að afgreiða útlendingana á næsta borði. Við vorum orðin ansi svöng þar sem ekkert brauð komið á borð ennþá.

Pöntuðum tvo forrétti sem við deildum, annars vegar carpaccio og hins vegar reykta önd. Í aðalrétt pantaði Gyða cannelonini með kjúkling, ég fékk mér að sjálfsögðu risottot og stelpurnar sjávarréttapasta með rækjum og humar. Forréttirnir kostuðu 950 krónur hvor.

Forréttir voru ágætir, ég hef fengið betra carpaccio en það var samt gott. Reykta öndin var líka þokkaleg. Forréttir voru frekar litlir.

Eftir forrétti fengum við loks brauðkörfu sem innihélt þrennskonar brauð (ítalskt brauð, foccica brauð og brauðstangir) ásamt tómamauki. Brauðið var mjög gott og maukið fínt.

Þegar aðalréttirnir komu á borðið bað ég þjóninn um aðeins meira brauð og hann virtist taka vel í það en brauðið skilaði sér aldrei.

Rétturinn minn var skrítinn. Fyrst fannst mér eins og risottið væri ofeldað en svo fannst mér annar hluti af því hæfilega eldaður. Rétturinn hafði greinilega verið saltaður áður en hann var borinn fram og mér fannst full mikið salt ofan á honum. Humarinn var aftur á móti afbragðsgóður, hörpuskelin fín og hæfilegt magn af tómötum í grjónunum. Risottoið stóst samt ekki prófið þar sem ég tel mig geta gert betur sjálfur.

Gyðu fannst rétturinn sinn góður en skammturinn ansi lítill. Eflaust hefur hugmyndin verið sú að borðað yrði með ítölskum hætti, antipasti, primi piatti og secundi piatti en það hefði þá mátt koma fram á matseðli eða hjá þjóni. Íslendingar eru vanir að borða tvíréttað þó hitt sé að mínu mati afar skemmtilegt.

Gyða var a.m.k. glorhungruð eftir matinn. Meira brauð hefði eflaust dugað til.

Stelpurnar voru ánægðar með sjávarréttapastað sitt en okkur foreldrunum þótti pastað alltof mikið soðið, eiginlega mauksoðið. Við borguðum fyrir einn rétt handa þeim sem skipt var á tvo diska. Aðalréttirnir kostuðu 1,590.- hver.

Reikningur var 9,370 krónur með tveimur bjórum (700) og þremur gosglösum (400).

Við vorum semsagt frekar óánægð með Volare í gærkvöldi. Litlu atriðin klikkuðu, brauðkarfa hefði mátt koma fyrr á borðið, vatnskannan skilaði sér aldrei þó talað verið um það og maturinn náði einfaldlega ekki að bjarga dæminu.

veitingahús