Örvitinn

Tapas barinn

Ég og Gyða kíktum á Tapas barinn áður en við fórum í bíó í gærkvöldi. Mættum klukkan sjö og fengum borð án þess að hafa pantað.

Völdum okkur fjóra tapas rétti hvort. Ég valdi foie gras de Canard með grilluðu brauðu og sultu (1.790), kjötbollur í Romesco sósu (840), serrano með melónu og piparrót (880) og djúpsteiktan humar Orly (990). Gyða pantaði andabringu með appelsínusósu Grand Mariner (970), hvitlauksmarineraðan skötusel og humar með zaffran sósu (980), krónhjörtu með Calvadossósu (1.050) og svo man ég ekki hver fjórði rétturinn hennar var. Brauðkarfa með hummus og ólívumauki fylgdi með.

Þetta var allt óskaplega gott. Foie gras og kjötbollur þótti mér sérstaklega gott. Serrano með melónu er tilþrifalítið og mér finnst á mörkum að það sé réttlætanlegt að djúpsteikja humar í orly deigi - en það er samt ansi gott :-)

Þjónustan hefur alltaf verið góð þegar við förum á Tapas barinn og svo var einnig í þetta skipti. Það eina sem ég gæti sett út á - og það er hálfpartinn kjánalegt að gera það - er að hlutirnir gengu eiginlega of hratt fyrir sig. Hætt er við því að maður borði of hratt þegar réttirnir koma án afláts og við vorum búin full snemma, hefðum kosið að fá réttina aðeins hægar á borðið í þetta skipti.

Ég mæli með Tapas barnum og öllu á matseðlinum hjá þeim. Hef ekki enn orðið fyrir vonbrigðum með neitt á þessum stað.

veitingahús
Athugasemdir

Bragi - 15/06/09 09:17 #

Sæll Matti

Ég þekki mjög vel yfirkokkinn og eigendurna að Tapasbarnum. Allt saman öndvegispiltar en maturinn á staðnum tók að mínu mati stökkbreytingu þegar að Martin, argentínski yfirkokkurinn, hóf að elda á staðnum. Hann er alger snillingur, giftur inn í ætt konunnar. Ef þú getur vinsað út katalónsku réttina af matseðlinum þá á maður að fara í þá.

Eygló - 15/06/09 13:24 #

Ég hef alltaf fengið góðan mat á Tapas barnum en tvisvar verið óánægð með þjónustuna. Annað skiptið höfðum við pantað hóptilboð fyrir stóran hóp en þegar til kom vorum við rukkuð um mikið hærri upphæð en um var samið og þurftum að standa í miklu stappi til að fá það leiðrétt. Í hitt skiptið vorum við fjórar saman að borða þarna og það var ekkert passað uppá að við fengjum réttina okkar á svipuðum tíma, þannig vorum við þrjár sem höfðum fengið 2-3 rétti þegar ein fékk loksins sinn fyrsta.

kongurinn - 28/10/09 13:28 #

Bragi, Martin er ekki yfirkokkur á Tapasbarnum, þú þekkir þetta greinilega ekki alveg nógu vel þarna á Tapas