Örvitinn

Kúlulán og "venjulegt fólk"

Flest venjulegt fólk veit ekki af öðrum tegundum lána en þessum venjulegu sem fólk borgar af reglulega, með vöxtum og öllu. Lán binda fjárhag lántakanda því hann þarf að geta staðið af reglulegum afborgunum, oft í hverjum mánuði. Kúlulán er allt annars eðlis því af slíkum lánum er ekki borgað allan gildistíma lánsins, oft ekki heldur vextir, heldur kemur lánið allt til greiðslu á eindaga. Þar af nafnið: allar greiðslur koma í einni kúlu í lokin. Lántakinn er því þægilega óbundinn af afborgunaráhyggjum og getur notað peningana sína í annað á meðan. Erlendis er það yfirleitt aðeins vel stætt fólk sem fær slík lán því viðkomandi verður þá að fjárfesta sjálfur til að geta borgað lánið á endanum. En þeir útvöldu fá svo bara ‘fjárhagslega endurskipulagningu’ á eindaga: annað kúlulán – og þá er viðkomandi í verulega þægilegri aðstöðu. #

Hvaða bull er þetta í Sigrúnu Davíðsdóttir? Vel má vera að ég sé ekki einn af "venjulega fólkinu" en það er afskaplega langt síðan ég heyrði fyrst um kúlulán.

Nokkuð var um að eldra fólk tók lán á út fasteign með greiðsludaga eftir einhverja áratugi. Hugmyndin var sú að fólk lifði á fasteign sinni en væri þó öruggt um að geta búið í henni áfram (nema svo óheppilega vildi til að það myndi aldrei hrökkva upp af). Þegar fólk lést var fasteignin seld og lánið greitt upp.

Þessi orðræða um "venjulegt fólk" og hina sem misnotuðu bankakerfið er óskaplega villandi. Kúlulán hafa ekki verið neitt leyndarmál. Til hverra er eiginlega verið að höfða?

Svo er allt önnur umræða hvort vildarvinir bankanna hafa fengið óeðlileg kúlulán.

Annað. Er heiðarlegt að tala í sífellu um 3.5% vexti og hve hrikalega hagstæðir þeir eru en minnast ekki á verðtryggingu? 3.5% verðtryggðir vextir eru ekkert mjög óeðlilegir hjá lífeyrissjóðum, sbr. þessa frétt hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga

Með þessu er ég ekki að verja Sigurjón eða lánin til hans heldur að gagnrýna þá "fréttamennsku" sem stunduð er á Eyjunni.

pólitík
Athugasemdir

Sveinn Arnórsson - 15/06/09 11:53 #

Sæll Matti - það er alveg fair að hnýta í smáatriðin svosem, en...

Hver er aftur bankastjóri NBI í dag? Er ekki heiðarlegt að taka fram þín tengsl svo fólk geti sjálft metið hvort einhver dulinn tilgangur sé í þessu hjá þér?

Svenni

Matti - 15/06/09 11:55 #

Hvað hefur þessi pistill með NBI að gera?

Er þetta ekki taktíkin sem verið er að nota á alla gagnrýnendur í dag, dæma þá úr umræðunni vegna tengsla eða einhvers sem þeir hafa sagt?

Ef þú ætlar að setja út á eitthvað í þessum pistli, gerðu það þá í stað þess að dylgja um "dulinn tilgang". Tilgangur minn er sá að koma með innlegg í umræðuna og benda á þennan flöt.

Teitur Atlason - 15/06/09 13:01 #

Kúlulán eru ekkert leyndó og voru barasta á hversmannsvörum í góðærinu.

Það dularfulla við þennan Sigurjónsdíl eru nokkur atriði. Hann fær dílinn við Nýja Landsbankann. Hann fær hann þennan díl hjá lífeyrissjóði sem enginn kannast við. Hann er í rauninni að taka út sparnaðinn sinn fram í tímann nokkuð sem "venjulegt" fólk fær ekki. Aðkoma Sigurðar G. er í meira lagi sérkennileg því hann reynir að ljúga sig út úr málinu með hraklegum hætti. Hitt er annað mál að verðtryggð kúla með 3.5% vöxtum til 20 ára (eða var það meira?) eru lágir vextir, en hugsanlega ekki einstakir.

Stóra málið er að þarna er bankakall að fá díla sem aðrir fá ekki og það er óþolandi.

Matti - 15/06/09 13:03 #

Hann fær dílinn við Nýja Landsbankann. Hann fær hann þennan díl hjá lífeyrissjóði sem enginn kannast við.

Hvort er það?

Af hverju skrifar lögfræðingur NBI ekki undir þetta heldur lögfræðingur úti í bæ ef það er NBI sem stendur á bak við þetta?

Stóra málið er að þarna er bankakall að fá díla sem aðrir fá ekki og það er óþolandi.

Algjörlega. Það er lykilatriði málsins. Ekki vaxtaprósentan eða fyrirbærið kúlulán.

Og ég vil að gefnu tilefni taka fram að ég veit ekkert um þetta mál annað en það sem fram hefur komið í fjölmiðlum.

hildigunnur - 15/06/09 14:03 #

3,5% eru fínir vextir en ég veit reyndar ekki til þess að neinn annar en LV hafi boðið þá vexti lengi vel - allavega vorum við öfunduð mikið af því að eiga möguleika á þeim vöxtum þegar við keyptum íbúðina. Þurftum reyndar að bæta við skylduinnborgunina í sjóðinn þar sem bóndinn var ekki á nógu háu kaupi þegar við komum hingað heim til að afborganirnar dygðu til að safna sér lánsrétti.

Matti - 15/06/09 14:52 #

3,5% eru vissulega afskaplega fínir vextir en augljóslega eru fordæmi fyrir slíkum vaxtakjörum. Þessi kjör eru m.ö.o. ekki óþekkt. Annað vildi ég ekki segja um það :-)

Eggert - 15/06/09 18:16 #

Komið upp í 3,75% núna. Þetta er hugsað þannig að 3,5% er skylduávöxtun lífeyrissjóðsins, og félagar í lífeyrissjóðnum eru því í rauninni að aðstoða hver annan - eldri félagar fá 3.5% ávöxtun á sinn lífeyri - yngri félagar fá lán á 3.5% vöxtum (núna 3.75% af því 0.25% fer í, ööö, lúxusbíla fyrir sjóðsstjórnendur!!!!! Meira í séð og heyrt!!!!).
Verðtryggingin passar svo að ekkert rýrnar í verðgildi. LV lánar reyndar líka að hámarki eitthvað í kringum 5 milljónir, ef ég man rétt, og þarf að vera á öðrum eða betri veðrétti ( <65% af heildarveðsetningu).

Ég hef svosem ekki lesið nóg um þessi lán til Sigurjóns til þess að mynda mér það sem kallast gæti upplýst skoðun, en mér finnst pínu skítalykt af þessu, ég verð að segja það.