Örvitinn

Sumarfrí á morgun

Seinni partinn á morgun byrja ég í sumarfríi. Tek fjórar vikur, þar af næstu þrjár með Gyðu en svo eina bara með stelpunum.

Í raun ekkert planað nema eitt ættarmót fyrir austan.

Ég held hafi gott af því að taka mér smá frí. Ætla að leggja mig fram um að láta vinnuna ekki trufla það.

dagbók
Athugasemdir

Haukur Þorgeirsson - 19/06/09 01:21 #

Þú getur byrjað á að skrifa um breytingarnar á lögum um trúfélög í bandorminum :)

Fljótt á litið sýnist mér þetta líta svona út:

Annars vegar eiga þeir sem eru utan trúfélaga ekki lengur að greiða sóknargjöld til Háskólans sérstaklega heldur almennt til ríkisins. Breytir svo sem engu í praxís - ríkinu var alltaf í lófa lagið að haga fjárveitingum sínum til HÍ eftir því (meðal annars) hvaða tekjur Háskólinn hefði úr þessum lið. Þetta er í raun bara staðfesting á því. Kannski er þetta aðeins eðlilegra og einfaldara svona en þeim sem fannst kerfið óréttlátt fyrir mun sjálfsagt finnast það jafnóréttlátt eftir.

Hins vegar eru sóknargjöldin lækkuð verulega næstu tvö árin (ekki þannig að tekjuskattur lækki heldur þannig að ríkið taki til sín hærra hlutfall af tekjuskatti). Einhverjum trúleysingjum finnst þetta kannski gleðilegt en menn ættu samt að athuga hverjum þetta kemur mest niður á og hverjum minnst. Þetta er veruleg skerðing fyrir frjálslynda söfnuði eins og Fríkirkjuna í Reykjavík sem treysta að mestu á sóknargjöldin til að fjármagna sína starfsemi. Þetta skiptir sáralitlu máli fyrir heittrúarsöfnuði eins og Votta Jehóva, sem fjármagna sig að mestu með framlögum meðlima utan milligöngu ríkisins. Þetta skiptir nokkru máli fyrir Þjóðkirkjuna en breytir engu um sérstök framlög ríkisins til hennar (laun presta o.fl.) og skaðar hana því hlutfallslega minna en frjálslyndu sjálfstæðu söfnuðina.

Ég veit að sumum herskáum trúleysingjum er einmitt sérstaklega í nöp við frjálslynda trúmenn því að þeir telja þá veita hinum strangtrúuðu skálkaskjól og samfélagslega viðurkenningu. Ég veit ekki hvort margir í Vantrú hafa þetta viðhorf en ef einhverjum er sérstaklega í nöp við Hjört Magna og félaga þá ættu þeir sem sagt að gleðjast yfir þessum bandormi.

Að lokum ætla ég að nýta tækifærið og koma að þessu grafi um fólk á Íslandi utan trúfélaga frá 1880 til 2008.

hildigunnur - 19/06/09 08:37 #

Hafðu það gott í fríinu :D

Óli Gneisti - 19/06/09 13:15 #

Ég held að fáir beri ábyrgð á meiri fjölgun meðlima hjá Hirti (og Ásatrúarfélaginu) en okkar úrskráningarfólk.

Haukur - 19/06/09 15:45 #

Já, Ásatrúarfélagið er annað dæmi um frjálslynt trúfélag sem treystir mjög á sóknargjöldin (sjá t.d. reikning félagsins 2005).

Meðlimum í Ásatrúarfélaginu hefur fjölgað á hverju ári frá 1984 (sjá graf). Ég hef ekki enn tekið saman staðtölur um fríkirkjusöfnuðina - eitt sem gerir það erfiðara er að manntalið grautar þeim stundum saman við Þjóðkirkjuna.

Það eru krúttlegar myndir (PDF-skjal, 10 MB) af Hirti Magna og Hilmari Erni að knúsast í nýlegu fréttabréfi Ásatrúarfélagsins.

Mér finnst trúfélagaskráningarleiðréttingarátak Vantrúar vera með því sniðugasta sem það félag hefur gert og ég er vel tilbúinn að trúa að það hafi merkjanleg áhrif. Ég nefni það enda í skýringartextanum við þetta graf.

Óli Gneisti - 19/06/09 17:49 #

Það hefur verið ákveðin lægð í því síðan Teitur flutti út. Því miður.

Haukur - 20/06/09 20:34 #

Er ítalska otto per mille kerfið betra eða verra en sóknargjaldakerfið okkar?