Örvitinn

"Óþolandi rökvísisvæðing Vesturlanda"

Arnar Eggert Thoroddsen skrifaði ljósvakapistil Morgunblaðsins síðasta sunnudag.

Nú er minn ástkæri Jay Leno farinn af Skjá Einum og í hans stað komnir galgopar að nafni Penn Og Teller en þeir stýra þættinum Nautaskít eða Bullshit. Um er að ræða fyrrverandi töframenn sem hafa einsett sér að fletta ofan af hvers kyns rugli og þrugli og hafa feng shui fræðingar, Biblían, umhverfissinnar, geimverufélög o.fl. fengið að kenna á sannleiksást þeirra félaga. Félagsmenn í Vantrú og uppreigðir rökhyggjumenn hafa að sjálfsögðu hoppað hæð sína í loft upp yfir þáttunum og sitja væntanlega límdir við skjáinn hvert vikukvöld. En vitið þið, það er eitthvað við þessa þætti sem fer í taugarnar á mér. Hvernig á ég að orða það; af hverju má maður ekki gæla við barnslega trú á geimverum í friði? Þessi óþolandi rökvísisvæðing Vesturlanda, þar sem allt þarf að vera rúðustrikað, pirrar mig.

Auk þess eru þættirnir skringilega móðursýkislegir, rökhyggjubræðurnir fara oft og iðulega eftir ódýrum smekklausum leiðum til að "fletta ofan af" fólki og það er auðsýnilegt að sjálfir sveigja þeir og beygja frá sannleikanum í ýmsum tilvikum til að koma skilaboðunum í höfn. Kannski er spurning hvort Penn og Teller fari sem fyrst í mikilvægt verkefni; að afhjúpa sjálfa sig.

Ég hef reyndar séð þessa þætti fyrir löngu og var ósköp glaður að þeir eru sýndir í sjónvarpinu hér á landi en mér þykir ofmælt að segja að ég eða aðrir félagar í Vantrú hafi hoppað hæð sína í loft upp eða setið límdir fyrir framan skjáinn.

Þættirnir eru misgóðir og vissulega er hægt að gagnrýna aðferðirnar sem stundum eru notaðar. Í fyrsta þættinum er reyndar farið aðeins út í orðfærið, ástæðu þess að menn tala um kjaftæði og fábjána. Auk þess bentu bæði ég og Vantrú á að Penn og Teller eru ekki fullkomnir.

En það er þetta með rökvísisvæðingu Vesturlanda. Af hverju má fólk ekki hafa skoðanir sínar "í friði"? Hvað þykjasta Penn og Teller eða félagar í Vantrú geta sagt fólki hvað það má hugsa?

Eins og ég sagði í greininni Gegn boðun hindurvitna er markmið Vantrúar að veita mótvægi gegn boðun kjaftæðis. Ég þykist viss um að eitthvað svipað gildir um Bullshit þættina, a.m.k. virðast alltaf einhverjir sem græða peninga á kjaftæðinu sem fjallað er um í þeim þáttum. Ef hindurvitni væru ekki boðuð væri Vantrú ekki til og Bullshit þættirnir hefðu sennilega aldrei komist af hugmyndaborðinu.

Hvað á Arnar eiginlega við með að hafa skoðanir í friði? Mega þeir sem aðhyllast rökvísi ekki hafa sínar skoðanir í friði líka eða er þetta enn eitt bullið um að enginn megi gagnrýna neitt, allir eigi að hafa sínar skoðanir útaf fyrir sig og andmæli séu óvirðing?

Af hverju er Arnar Eggert þá að tjá sig?

Sjálfur er ég ákafur aðdáandi rökvísisvæðingar. Tel rökvísina töluvert skárri en hindurvitni sem áður ríktu. T.d. er ég hrifinn af læknavísindum og nútíma tækni, ekki jafn hrifinn af vosbúð og galdrabrennum.

ps. Við þetta má bæta að Penn og Teller starfa enn sem töframenn. Þeir eru semsagt ekki "fyrrverandi".

efahyggja
Athugasemdir

Sævar Helgi - 23/06/09 21:23 #

Þar að auki er raunveruleikinn miklu áhugaverðari og meira töfrandi heldur en gerviheimurinn.

Arnar Eggert þyrfti bara að komast svolítið í kynni við töfra vísinda og rökvísi.

Matti - 23/06/09 21:25 #

Það er einmitt vandamálið, margt fólk hefur furðulega fordóma gegn rökvísi og vísindum. Tengir það gjarnan við leiðindi og tilfinningaleysi.

Haukur - 23/06/09 22:26 #

Sumir herskáir guðleysingjar hljóma stundum eins og þessi paródía. Það getur farið í taugarnar á fólki.

En takið eftir að ég segi "sumir stundum" en ekki "allir alltaf" - trúlega upplifir fólk trúleysingja á þennan hátt oftar en þeir eiga skilið.

Haukur - 24/06/09 00:08 #

Já, þetta er ekkert sérstaklega heppilegt orð - hvaða orðnotkun mælirðu með? Boðandi trúleysingjar?

Matti - 24/06/09 00:59 #

Hvað með "háværir"?

Svo getur fólk bara sagt "óþolandi", "leiðinlegir" eða "ljótir" því oftast er það meiningin þó fólk þori ekki að segja það :-)