Örvitinn

Erlend lán

Ég skulda ekki krónu í (eða tengda) erlendum gjaldmiðli. Samt er ég örviti. Svona getur lífið verið skrítið og skemmtilegt.

Mér finnst alveg vanta einn flöt á lánaumræðuna. Í Bandaríkjunum var mikið um svokölluð undirmálslán. Lán sem veitt voru fólki sem ekki hafði forsendur til að greiða þau.

Hér á Íslandi var töluvert um það sama. Fólk fékk lán sem það hafði engar forsendur til að greiða. Fólk keypti jafnvel fasteign og bíl án þess að hafa safnað krónu, fékk 100% lán. Allt þurfti að ganga upp til að sumir lántakendur gætu borgað. T.d. þurfti fasteignaverð að halda áfram að hækka og fasteignamarkaður að vera afar virkur eins og hann hafði verið í nokkur ár á undan (en ekki alltaf). Laun fjölskyldunnar þurftu að hækka (bankinn borgar fínan bónus) og verðlag standa í stað.

Hluti vandans er að fólk fékk lán þó það hefði engar forsendur til að borga. Nú er þetta fólk í djúpum skít.

Fyrir nokkru var bíll dreginn af bílastæði við Leifstöð. "Eigendur" voru erlendis og fjármögnunarfyrirtæki (vondu mennirnir) sótti bílinn sem ekki hafði verið greitt af í marga mánuði. Blað eitt ætlaði að fjalla um málið, hringdi í fyrirtækið og spurði hvaða mannvonska þetta væri að taka bílinn. Sá sem rætt var við spurði á móti hvort hin raunverulega frétt væri ekki sú að fólk sem ekki gæti borgað af bílnum sínum væri statt erlendis í skemmtiferð. Engin frétt var skrifuð.

Það er nefnilega ekkert fólki að kenna.

pólitík
Athugasemdir

Óli Gneisti - 01/07/09 18:46 #

Ég man að þegar við fengum viðbótarlán hjá SPRON þá virtist fulltrúi bankans vilja gera allt til að ýkja stöðu okkar upp á við svo við værum örugg um að fá lánið (en það var svosem aldrei neinn vafi).

Um leið rifjast upp fyrir mér þegar ég fékk greiðslukort með 750 þúsund króna heimild á svipuðum tíma. Ekki hefði mér sjálfum dottið í hug að biðja um svona háa heimild og hafði enga þörf fyrir hana. Ég notaði hana líka aldrei og hún var lækkuð í kjölfar hrunsins. En ef ég væri til dæmis týpan til að vera fullur og vitlaus á strippstað þá hefði þetta getað rústað fjárhagnum.

Matti - 01/07/09 19:54 #

Greiðslumat var orðinn einhver leikur. Í sumum tilvikum var fólk að fá lánaðan pening til að leggja inn á bankabók rétt á meðan matið fór fram.