Örvitinn

Laun lækna

Læknar eiga að fá hærri laun en forsætisráðherra. Miklu hærri. Reyndar eru læknar með afskaplega mishá laun en það er önnur umræða.

Aftur á móti tel ég að læknar sem eru í fullu starfi á spítala eigi ekki að geta verið með eigin rekstur úti í bæ. Það er líka allt önnur umræða.

pólitík
Athugasemdir

Már - 02/07/09 15:34 #

Ha? af hverju í ósköpunum þarf læknisstéttin að vera einhver brjáluð ofurlaunastétt?

Væri ekki nær að hleypa öllum sem standa sig með prýði í læknisfræðinni áfram í námi og útskrifa eins marga frábæra lækna og hægt er og stytta jafnframt vinnutíma/vaktir þessarar stéttar niður í þægilegt horf og borga þeim í staðinn "normal" laun m.v. menntun og hæfileika?

(Þar sem "normal" er ekki skilgreint nánar. :-)

Már - 02/07/09 15:40 #

...og auðvitað er algjörlega fáránlegt að læknar á Landspítalanum séu á fullum launum við það að vísa sjúklingum á að hitta sig á læknastofunni sinni úti í bæ, þar sem þeir rukka svo ríkið marga tugi þúsunda á tímann.

(Hef sjálfur lent í svoleiðis tilvísun, og á reikninginum kom fram að samanlagður kostnaður minn og ríkisins var rúmar 18 þúsund krónur fyrir 15 mínútna skoðun.)

María - 02/07/09 17:05 #

Heilbrigðiskerfið ræður aðeins við að kenna vissum fjölda læknanema á ári. Því er ekki hægt að hleypa öllum sem vilja og geta að.

Ég myndi seint kalla læknastéttina ofurlaunastétt. Að baki þessum launum eru mjög langir og erfiðir vinnudagar, að ógleymdri gífurlegri ábyrgð og margra ára og jafnvel áratuga menntun. Langflestir sérfræðingar hafa sótt sína menntun erlendis. Íslenskir læknar eru eftirsóttir í öðrum löndum og geta fengið mun launhærri stöður en þeir fá hér á landi. Ef kjör lækna hérlendis versna þá má alveg búast við læknaskorti og skertri þjónustu, læknar í sérnámi úti eiga ekki eftir að vilja koma aftur heim. Við höfum aðgang að læknum á heimsmælikvarða sem gerir íslenskum sjúklingum mögulegt að gangast undir aðgerðir í sínu heimalandi. Það er ómetanlegt.

Matti - 02/07/09 17:05 #

Ha? af hverju í ósköpunum þarf læknisstéttin að vera einhver brjáluð ofurlaunastétt?

Grunnnám lækna er sjö ár með kandídatsári. Sérfræðinám er einhver ár þar í viðbót.

Þeir hafa mun færri ár til að ná inn tekjum en flestar aðrar stéttir.

Þeir vinna gríðarlega mikilvægt starf og við viljum að okkar allra hæfasta fólk sinni þessu.

Ég sé ekki að það sé einhver lausn á þessu að fjölga gríðarlega þeim sem stunda læknisfræðinám. Það er afar dýrt að mennta lækna. LSH hefur töluverðan kostnað af læknanemum. Það mun ekkert minnka.

Matti - 02/07/09 17:06 #

María skrifaði sína athugasemd á nákvæmlega sama tíma og ég. Ég hefði getað sleppt því að kommenta :-)

Már - 02/07/09 23:17 #

Jah, laun og lengd náms haldast engan veginn alltaf í hendur. Ljósmæðranám er t.d. að lágmarki 6 ár, og þær fá skítalaun ef tekið er mið af því.

Og þótt námið sé nokkrum árum lengra en gengur og gerist, þá sést með einföldum útreikningi að yfir 30 ára starfsaldur þarf ekkert svakalega mikla hækkun mánaðartekna til að dekka tekjutapið á námstímanum.

Það má vera að læknanám sé dýrt, en það þarf enginn að segja mér að það sé beint ókeypis eða mikið hagræði í því að hafa fullt af læknum vinnandi tvöfalda vinnu.

af hverju í ósköpunum þarf læknisstéttin að vera einhver brjáluð ofurlaunastétt?

Nota bene, ég er ekki að tala fyrir því að læknar fari á einhver lúsarlaun - engan veginn.

María - 03/07/09 00:12 #

Í dag er ljósmóðir með hærri laun en læknakandídat. Þá hafa báðir aðilar lokið við sex ára háskólanám. Unglæknar eru almennt á drullulágum launum.

Ljósmæðranám og læknanám er á engan hátt sambærilegt, trúðu mér. Ljósmæðrastarf og læknastarf er það ekki heldur. Á endanum er það alltaf læknirinn sem ber ábyrgðina. Ljósmæðranám er nær undantekningalaust 6 ár. Læknir er sjö ár að fá starfsheiti sitt, þar af eru sex ár algjörlega launalaus. Hann þarf að flytja úr landi hvort sem honum líkar betur eða verr til að fá sérfræðigráðu og það getur tekið allt að átta árum. Eftir það getur hann fyrst farið að sjá þokkaleg laun. Ekki misskilja mig, báðar stéttirnar eru gríðarlega mikilvægar en það er ekki hægt að bera þær saman m.t.t. launa. Þetta er bara ekki sami hluturinn.

Og ég endurtek: LSH ræður ekki við að mennta nema ákveðinn fjölda læknanema á ári hverju. Það er aðalástæðan fyrir fjöldatakmörkun í læknadeild.