Örvitinn

Deilur um list (og trú)

Ég hef dálítið gaman að deilunni um merkingu framlags Íslands á Feneyjartvíæringnum í ár. Ragnar Kjartansson málar mann sem reykir sígarettur og drekkur bjór. Voða spennandi. Þessa dagana eru ritdeilur í blöðunum þar sem fólk veltir því fyrir sér hvort þetta sé bölvað bull eða ekki. Nýju fötin keisarans hafa verið nefnd til sögunnar og svo rembast menn við að túlka eða túlka alls ekki.

Spáið í því ef Ragnar og vinir hans hefðu fimm milljarða á ári til að leika sér með. Fremdu svona gjörninga um allt land og fullyrtu að þeir sem fýluðu þetta ekki væru bölvaðir durgar og siðleysingjar.

Kristin trú er ákveðinn gjörningur. Þegar menn reyna að spyrja um túlkun móðgast "listamennirnir" og segja að hver þurfi að túlka eftir sínum hentileika. Gagnrýnendur, sem telja að til séu fleiri listastefnur, eru málaðir út í horn. Sagðir skilningslausir leiðindapúkar sem skortir allan húmor.

Þessi gjörningur segir okkur ekkert nýtt, færir okkur ekkert sem við höfðum ekki fyrir og bætir engu við umræðuna. Þetta gengur bara út á að skaffa listamönnunum djobb og viðhalda stofnuninni. Listamennirnir eru eins og hasshausarnir sem halda að þeir séu ógeðslega djúpir þegar þeir tala um vegglampann eða veggfóðrið. Þeir sem eru edrú og hlusta á sjá strax að spekin er ekki djúp heldur eru pælararnir ógeðslega grunnir.

Kristin trú er alveg óhugnalega grunn og heimskuleg speki. Það er bara tabú að benda á það vegna þess að þá ertu farinn að gagnrýna túlkun og ef eitthvað er alveg á hreinu þessa dagana, þá er það sú staðreynd að það er bannað að gagnrýna túlkun. Gott ef það er ekki talið fasískt og hver vill vera fasisti?

efahyggja menning
Athugasemdir

Kristinn - 03/07/09 09:23 #

Þetta er prýðileg pæling hjá þér, Matti, þó enginn kommenti ;)

Matti - 03/07/09 11:01 #

Þakka þér. Mér fannst þetta einmitt ágæt pæling en ætli fólk sé ekki hætt að nenna að kommenta á trúleysisþvaður mitt :-)

Gurrí - 03/07/09 14:31 #

Þetta er fínasta pæling að vanda. Takk fyrir mig.