Örvitinn

Ríki eða þjóð og kirkja

Gvuði sé lof fyrir hámenntaða gvuðfræðinga.

Að þessu sögðu er tal um aðskilnað ríkis og kirkju um allt annað en 62. greinina – því greinin fjallar um þjóð og kirkju en ekki ríki og kirkju. Við getum að mínu viti aðskilið ríki og kirkju algerlega og haldið algerlega í stjórnarskrárákvæðið. En ef við viljum aðskilnað þjóðar og kirkju þá erum við farin að tala um 62 greinina. #

Jájá, aðskiljum þá bara þjóð og kirkju. Af hverju í ósköpunum heldur kirkjuliðið að svona orðhengilsháttur gagnist málstað þeirra?

kristni pólitík
Athugasemdir

Stebbi - 09/07/09 13:03 #

Samkvæmt þessum skilningi er rétt að segja sem svo að samkvæmt 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins teljist þeir einir til íslensku þjóðarinnar (þá væntanlega óháð ríkisfangi) sem eru félagar í þjóðkirkjunni. Matti, þú ert sem sagt ekki raunverulega Íslendingur. Úrsögn úr kirkjunni jafngildir úrsögn úr þjóðinni, eða hvað?

Aðrir hafa áður lýst því sem skoðun sinni að kristni sé ein forsenda þess að geta talist Íslendingur. Frægt dæmi er Björn Bjarnarson (þáverandi ráðherra) sem skrifaði eftirfarandi í desember 2007. "Kristni og kirkja eru þrátt fyrir breytingar á þessu sambandi [við ríkið] grunnþættir íslensks þjóðlífs og þess að vera íslenskur – jafnríkur þáttur og að tala íslensku eða þekkja íslenska sögu."

Ég trúi ekki öðru en að þetta sé raunverulega skoðun mjög lítils hluta þjóðarinnar. Varla eru margir sem neita að telja trúleysingja, ásatrúarmenn, búddista, o.s.frv. sem hluta af íslensku þjóðinni. Ég vil meira að segja trúa því að Björn myndi endurskoða orð sín ef honum væri bent á þetta samhengi.

Er þetta ekki í raun rök fyrir því að afnema (eða a.m.k. breyta) 62. gr. óháð því hvað ákveðið er um samband ríkis og kirkju? Jafnvel er um að ræða sterk rök fyrir því að kirkjan ætti að breyta nafni sínu. Ef sífellt stækkandi hluti þjóðarinnar er utan "þjóð"-kirkjunnar verður hún að endurskoða heiti sitt er það ekki? "Kirkja stórs hluta þjóðarinnar" er réttara í þessu samhengi.

Halldór E - 09/07/09 13:28 #

Stebbi, þessi skilningur Sigurðs leiðir ekki til þess að einvörðungu þeir sem eru í þjóðkirkjunni séu Íslendingar, heldur til þess að kirkjan lofar að þjóna öllum íbúum án tillits til trúarskoðana og játningar. Þjóðkirkjuhugtakið er þannig ekki meirihluta/minnihlutahugtak, heldur fjallar það um stefnu kirkjustofnunarinnar.

Þesssi skilningur leiðir einnig til þess að um leið og Biskup gagnrýnir Votta Jehóva, líkt og gert var í kringum 1970, eða ræðst að trúlausum með fullyrðingum um siðleysi þeirra, þá er það brot á Stjórnarskrárbundnum skyldum kirkjunnar.

Afleiðing þessa skilnings Sigurðar, sem mér finnst mjög áhugaverður, er einnig að kirkjan tekur að sér að vera helgisiðastofnun þjóðarinnar, óháð trúarskoðunum þegnanna. Þannig má halda því fram að ef Siðmennt fær ekki heimild fyrir athafnir í kirkjuhúsum sé það brot á stjórnarskrárákvæðinu.

Með öðrum orðum, ef Sigurður hefur rétt fyrir sér, þá hlýtur niðurstaðan að vera sú að Ev. lúth. kirkjunni ber að halda kjafti og vera sæt. Um leið og kirkjan tjáir sig um hluti sem ekki er sátt um, þá fellur stuðningur ríkisvaldsins niður.

Svipuð hugsun er að sjálfsögðu falinn í hugmyndum í aðskilnaðarhugmyndum um ríki og kirkju í BNA, þar sem þögn er skilyrði fyrir skattaívilnunum.

Halldór E - 09/07/09 14:26 #

Afsakaðu athugasemd #2 í röð. Ég held að Sigurður geri mistök þegar hann segir: Rof eða niðurfelling greinarinnar er því veigamikil breyting á skilgreiningu þjóðarinnar. Greinin snýst nefnilega um skilgreiningu á kirkjunni, ekki þjóðinni. Það kemur skýrt fram í ör-erindi Sigurðar að öðru leiti. Hugsanlega byggir þetta á hugmynd Sigurðar að Stjórnarskráin sé sáttmáli fólksins, en svo er alls ekki. Stjórnarskráin kemur að ofan, úr hendi konungs, eins og við erum minnt á þegar við ökum Lækjargötuna.

Matti - 09/07/09 14:31 #

Til hvers er Sigurður að skrifa þetta?

Er kirkjan ekki einfaldlega að búa sig undir baráttu gegn því að ríki og kirkja verði aðskilin?

Ég held ekki að Sigurður hafi gert mistök en útiloka það ekki. Ég held einfaldlega að Sigurður (eins og BB) líti á Ísland sem "kristna þjóð" og þyki þeir sem ekki aðhyllast kristni ekki "alvöru íslendingar".

Halldór E - 09/07/09 14:45 #

Mér finnst pæling Sigurðar áhugaverð, reyndar gagnleg fyrir mínar eigin fræðirannsóknir á hlutverki og stöðu kirkjunnar í samfélaginu. Ég held að á sama hátt sé innleggið áhugavert þegar kemur að umræðunni um ríki og kirkju.

Hins vegar held ég að þessi túlkun Sigurðar sé ekki hjálpleg í baráttunni gegn aðskilnaði ríkis og kirkju. Það er nefnilega auðvelt að færa rök fyrir því að kirkjan standi ekki við sinn hluta í 62. grein og fyrir okkur sem lítum á kirkjuna sem vettvang trúar fyrst og fremst, þá leiðir þessir skilningur Sigurðar til þess að við hljótum að mótmæla Stjórnarskrárákvæðinu á þeim forsendum að það neyði kirkjuna til að vera annað en hún er kölluð til af Guði (enginn getur þjónað tveimur herrum og allt það).

Ég held að skrif Sigurðar séu einvörðungu til íhugunar og e.t.v. köllun til rannsóknar á raunverulegri merkingu 62. greinar. Ég fæ ekki séð að með þeim sé hann að skipa sér í flokk með eða á móti aðskilnaði, enda væri slík afstaða ekki í samræmi við Þjóðkirkjuhugtakið sem hann er að halda á lofti.

Þannig má segja að ef þjóðkirkjan tæki afstöðu í umræðunni um aðskilnað ríkis og kirkju, væri hún ekki lengur þjóðkirkja og því væri 62. greinin ógild og stuðningi ríkisins á forsendum stjórnarskrár sjálfhætt.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 09/07/09 17:35 #

Halldór, finnst þér þetta ekki fáránleg fullyrðing hjá Sigurði:

Við getum að mínu viti aðskilið ríki og kirkju algerlega og haldið algerlega í stjórnarskrárákvæðið.

Þetta er að mínu mati alveg ótrúlega vitlaust.

Halldór E - 09/07/09 18:01 #

Mér finnst fullyrðingin ekki fáránleg, fræðilega getur kirkjan verið þjóðkirkja, opin öllum, alltaf, alstaðar og fengið stuðning frá ríkinu án þess að vera ríkiskirkja. Á sama hátt og UMFÍ fær stuðning frá ríkinu gegn því að stuðla að heilbrigðum lífsháttum án þess að vera talið ríkisíþróttafélag.

En líkt og tengsl UMFÍ og ríkisins eru ekki nefnd sérstaklega í stjórnarskrá, þá sé ég ekki að tengsl ríkis og kirkju eigi að vera það heldur, ef sambandið á að vera á sömu nótum.

Með öðrum orðum, mér finnst fullyrðing Sigurðar ekki fáránleg, en ég sé ekki hvers vegna 62. greinin ætti að vera inni ef um fullkomin aðskilnað ríkis og kirkju er að ræða.

Bjarki - 10/07/09 18:55 #

Er nám í guðfræði nokkuð annað en langt námskeið í orðhengilshætti? Grunnurinn er 2-3000 ára frumtexti sem guðfræðingarnir rembast svo við að heimfæra á nútímann, hversu langsótt sem það stundum er.

Það má reyndar alveg ræða það hvað nákvæmlega felist í "aðskilnaði ríkis og kirkju". Mig grunar að það séu afar ólíkar hugmyndir uppi um það eftir því við hvern er talað.