Örvitinn

Kæru skattsvikarar

Vissulega er hægt að kenna nokkrum útrásarvíkingum um skítinn sem við erum sokkin í. Því er ekki að neita. Ábyrgðin dreifist ekki jafnt.

En þó þetta sé mest allt öðrum að kenna réttlætir það ekki skattsvik og tilraunir til að svíkja út atvinnuleysisbætur og þiggja svört laun á meðan.

Þið, sem eruð að rembast við að svíkja pening út úr kerfinu, eruð ekkert skárri en útrásarvíkingarnir sem þið bölvið. Eiginlega verri því þið vitið að við erum öll saman í skítnum. Við hin, sem borgum okkar skatta, eigum alveg nóg með að aðstoða þá sem virkilega þurfa á aðstoð að halda.

Við bregðumst ekki við siðleysi með meira siðleysi.

pólitík
Athugasemdir

hildigunnur - 10/07/09 23:35 #

Akkúrat - nú heyrir maður fólk tala um að svíkja meira undan skatti vegna þess að hann sé að hækka, mér finnst það bara grátlegt!

Eyja - 11/07/09 00:41 #

Mikið hlýt ég að lifa vernduðu lífi. Ég heyri aldrei neinn tala um að svíkja undan skatti. Eða ætli það þori kannski enginn að tala um svoleiðis þegar ég heyri til?

Matti - 11/07/09 11:13 #

Í gær heyrði ég frétt þar sem talað var við mann í ferðamálabransanum. Hann sagði að sumir sem sóttu um störf hefðu viljað fá þau greidd á aðra kennitölu svo þeir gætu haldið áfram að vera á atvinnuleysisbótum!

Sindri Guðjónsson - 11/07/09 16:12 #

Ég verð talsvert var við skattsvik. Verð alltaf rosalega reiður. Þekki fleira en eitt par sem hafa skilið til málamynda (þó að allt sé í himna lagi í sambandinu, og þau búi saman með börnin sín, o.s.frv.), til að fá hærri barnabætur.