Örvitinn

Geirland, gistiheimili og veitingastaður

Af þremur gistiheimilum sem við heimsóttum á hringferð okkar var Geirland best og dýrast. Það munaði samt litlu á verðinu milli staða.

BleikjaVeitingastaðurinn á Geirlandi vakti lukku, þar fékk á frábæra Klaustursbleikju. Reyndar var svepparisotto sem fylgdi ekki risotto heldur hrísgrjón með sveppum, en það er önnur saga. Gyða fékk sér lambakjöt og var mjög ánægð. Kolla var þokkalega sátt við grænmetispasta og Inga María fékk bara franskar. Hún var himinlifandi með það.

Útlendingar á næsta borði spurðu þjón hvort kjötið væri lókal, hún gat ekki sagt hvaðan af landinu kjötið kom en fræddi þau um að bleikjan væri úr nágrenninu. Íslendingar veitingastaðir eiga að bjóða upp á lambakjöt sem þeir geta kennt við bóndabæ, dal eða heiði. Heita súkkulaðikakan var fullkomin. Þjónustan var ágæt, sérstaklega miðað við að staðurinn var troðfullur.

Hundarnir vöktu lukku hjá stelpunum, þráðlausa netið vakti lukku hjá mér. Ég hefði samt verið ennþá ánægðari ef ég hefði náð sambandi í gamla húsinu þar sem við gistum. Þar var bara lokað þráðlaust net fyrir starfsfólk. Í staðin var ég á netinu í matsalnum og úti á túni.

Morgunmatur var innifalinn í verði hjá okkur hjónum, við borguðum hálft verð fyrir stelpurnar. Morgunverðarhlaðborð var ágætt, heimabakaða brauðið frábært.

veitingahús