Örvitinn

Enn um eignarhald banka á Íslandi

Nýjustu fréttir herma að nýju bankarnir, a.m.k. Íslandsbanki og Nýja Kaupþing, verði í eigu gömlu bankanna. M.ö.o. kröfuhafar gömlu bankanna munu eignast þessa nýju banka.

Er það virkilega það besta í stöðunni fyrir Ísland? Fyrir hverja vinna skilanefndirnar?

Eins og staðan er í efnahagsmálum í dag þurfa allar ákvarðanir að miðast við hagsmuni samfélagsins. Það er ljótt að segja það, en erlendir kröfuhafar eiga að mæta afgangi. Ef þeir vilja fara í mál verður bara svo að vera. Ef það þarf að setja önnur neyðarlög eða plástra þau sem áður voru sett verður bara svo að vera.

Mér sýnist það vera gríðarlega dýr eftirgjöf og óskaplega óhagkvæm fyrir samfélagið að láta þá fá bankana. Gleymum því ekki að tæknilega séð eiga bankarnir næstum öll fyrirtæki landsins. Ef einhverjir erlendir aðilar eiga að fá bankana eru það traustir erlendir bankar sem koma með peninga í þá. Ekki vogunarsjóðir og aðrir sem hafa keypt kröfur gömlu bankanna á afsláttarkjörum. Ég get ekki séð að það sé munur á því að vogunarsjóðir eignast nýju bankana beint eða með þessum hætti.

Tímasetningin er klassísk þegar koma á í gegn vafasömum dílum. Fréttir af þessu vekja ekki mikla athygli þegar allir eru að spá í ESB og Icesave. Ég gæti þó trúað því að þarna sé meira í húfi fyrir þjóðina.

pólitík
Athugasemdir

ASE - 17/07/09 11:17 #

Mikið er ég sammála þér. Mikið vildi ég að einhver fréttamaður tæki að sér að setja sig inn í þessi mál og útskýra fyrir okkur hvað þetta myndi þýða fyrir þjóðina. Því eins og þú, alls ekki viss um að samræmist best hagsmunum okkar.

En m.v. "copy paste" íslenska blaðamennsku þá ekki líklegt að svo verði. Líklegra að einhver bloggari taki að sér í sjálfboðavinnu að reyna að fá einhvern botn í málið.

Matti - 17/07/09 12:58 #

Það er í raun ótrúlegt hvað þetta fær litla umfjöllun. Að sjálfsögðu eru allir að spá í ESB og Icesave og taka ekki eftir því sem er að gerast í bakgarðinum.

Sigurður E. Vilhelmsson - 17/07/09 13:17 #

Ef ég skil þetta rétt þá virðast stjórnvöld í raun vera að færa bankana aftur á upphafsreit, þ.e. í sömu stöðu og þeir voru áður en neyðarlögin voru sett. Það er ekki beinlínis gáfulegt.

Sverrir - 17/07/09 14:16 #

Sammála. Ef menn hafa áhyggjur af sjálfstæði Íslands (í raun) þá er þetta mun viðsjárverðara en að ganga í ESB.

Arnold - 19/07/09 11:27 #

Það blasir við annað bankahrun. Efnahagsreikningar nýju bankanna eru feik. Ísland mun á næstu misserum tapa sjálstæði sínu á vetvangi bankanna. Ekki í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þjóðin er á hnjánum. Kostirninr eru allir vondir. Það er farin af stað atburðarás sem við ráðum ekkert við.

Arnold - 19/07/09 11:36 #

Það bendir allt til þess að ríkið muni tapa málaferlum sem eru að fara af stað og þá þarf að borga mikið meira en ICESAVE dílinn. Egnir nýju bankanna má deila í með 2. Þeir afskrifa ekki skuldir vegna þess að þá þarf að feisa raunveruleikann. Það lítur betur út í reikningum bankanna að eiga útistandandi kröfu en afskrifaða. Þó vita þeir að á endanum tapast þessar kröfur af stórum hluta. Það má ekki horfast í augu við veruleikann vegna þess að hann er skelfilegur. Svo er logið að þjóðinni hægri vinstri af stjórnmálastéttinni.

Matti - 19/07/09 14:03 #

Efnahagsreikningar nýju bankanna eru feik.

Það eru ekki komnir neinir efnahagsreikningar fyrir nýju bankana. Þá átti að birta núna. Ein ástæða þess að verið er að láta bankana í hendur erlendrar kröfuhafa er að verðmæti eigna bankanna er minna en menn héldu (afskrifa þarf meira en gert var ráð fyrir). Í stað þess að ríkið leggi inn meira eigið fé er verið að reyna að fá lánadrottna með í leikinn.

Ég hefði viljað að ríkið setti inn fé núna, hef trú a því að eftir nokkur ár geti ríkið selt bankana (hlut eða alla) fyrir miklu hærra fé og þannig náð að greiða eitthvað af þeim skuldum sem við erum að sökkva okkur í. Mér finnst blóðugt að láta kröfuhafa fá bankana á brunaútsölu eins og nú er að gerast.

Það bendir allt til þess að ríkið muni tapa málaferlum sem eru að fara af stað

Er það?

Arnold - 19/07/09 18:11 #

Ok það er ekki kominn "formlegur" efnahagsreikningur. En þú viðurkennir að eignir bankanna eru mun minni en áætlað var. Þú ert þá sammála mér þar. Við getum rifist um orðalag en það breytir engu.

Það eru margir lögfróðir sem hafa miklar áhyggjur af þessum málaferlum. Við brutum ESS samninginn það eru flestir sammála því. Við erum veiki aðilinn í þessum málferlum. Líkurnar eru ekki með okkur.

Arnold - 19/07/09 18:17 #

Annað líka að til þess að hægt sé að setja fé í bankana þá þurfum við erlend lán og þá þurfum við að smaþykja icesave. Það þarf nokkur hundruð milljarða til að reisa bankana við.

Matti - 19/07/09 18:22 #

Það er til hellingur af peningum innanland, t.d. í lífeyrissjóðum. Ég sé ekki af hverju erlend lán eru forsenda endurbygginga bankanna. Verð bara að játa fávísi mína þar.

"Formlegur" eða ekki, efnahagsreikningur bankanna hefur ekki verið til staðar, einmitt vegna þess að það verið að vinna í að meta eignir þeirra. Um það snerist þetta allt saman.

Hvernig brutum við EES samninginn? Með því að mismuna innistæðieigendum eftir því hvort þeir voru hér á landi eða ekki? Nú er ég ekki lögfræðingur en mér skylst að menn geti vísað til einhversskonar neyðarréttar þegar ljóst er að annars muni þjóðfélag fara á hliðina - sem er það sem gerst hefði ef allar innlendar innistæður hefðu ekki verið tryggðar og bankakerfið endurræst eins og gert var hér á landi. Við erum að tala um að á 2-3 dögum hefði fólk eflaust þurft að ræna mat því greiðslukerfi hefði ekki verið til staðar.

Arnold - 19/07/09 18:40 #

Já við brutum EES samninginn með því að mismuna. Vonandi tekst okkur að vinna þessi málaferli. Það ku samt ekki vera borðleggjandi. En það kemur í ljós.

Viltu sem sagt að lífeyrissjóðirnir fjámagni uppbyggingu bankakerfisins á tímum eins og þessum? Eru þeir ekki búnir að tapa nógu? Mér finnst það glapræði. Frekar vil ég að erlendir aðilar eignist bankana.

Matti - 19/07/09 18:45 #

Það kemur einmitt í ljós. Það er ekkert útséð með það. Við gátum ekki annað í stöðunni.

Þú veist að erlendir aðilar eignast ekki bara bankana heldur líka tæknilega megnið af landinu, fyrirtæki og jarðeignir.

Já, ég tel að ríkið ætti að fá lánsfé frá lífeyrissjóðum til að fjármagna bankakerfið frekar en að afhenda útlendingum allar okkar eignir á brunaútsölu.

Ég hef enga trú á öðru en að verðmæti bankanna muni aukast mjög mikið á nokkrum árum. Mér finnst blóðugt að erlendir vogunarsjóðir hagnist gríðarlega á því meðan þjóðin situr enn í súpunni með gríðarlegar skuldir.

Arnold - 19/07/09 18:58 #

Ég geri mér grein fyrir því að þegar erlendir aðilar eignast bankana þá eignast þeir fyrirtækin, jarðirnar, húsin og veðsettan kvótann. Þess vegna sagði ég í fyrsta kommentinu að sjálfstæði þjóðarinna væri að tapast í bankakerfiu en ekki í aðildarviðræðum og inngöngu í EB. Ég hef ágæta heimildarmenn og mig grunar að það sem ég heyri sé sennilega að gerast. Við erum orðin svo skuldum vafin að við sjáum ekki fram úr því.

Mikið vildi ég að heildarskuldir þjóðarinnar væru gerðar opinberar en ekki meðhöndluð sem trúnaðargögn. Þá værum við sennilega ekki í þessum vangaveltum. Ef fréttirnar eru slæmar að þá er eins gott að feisa þær strax. Nú ef þær eru jákvæðar ættu þær að blása lífi og baráttuanda í þjóðina.

En auðvitað vona ég að þetta endi vel, en er bara alls ekki bjartsýnn á það.

Guðmundur D. Haraldsson - 21/07/09 00:29 #

Af hverju ætli menn haldi leyndu hverjir þessir stærstu kröfuhafar eru? Menn vita alveg hverjir þeir eru... annars væri varla hægt að semja við þá.

Matti - 21/07/09 09:07 #

Það er ekki nóg með að því sé haldið leyndu heldur er markvisst verið að reyna að blekkja fólk.

Í Morgunblaðinu í dag eru stórir bankar nefndir á nafn, svo fólk haldi að þeir séu meðal kröfuhafa, en á sama tíma er tekið fram að kröfur hafi gengið kaupum og sölu og ekki sé vitað hverjir séu kröfuhafar. M.ö.o. þá vitum við ekki hvort þessir stóru bankar sem nefndir eru séu meðal kröfuhafa. Við vitum bara að þeir áttu kröfur á bankana.