Örvitinn

Hamborgari kvöldsins

Alvöru hamborgariHamborgari kvöldsins var heimatilbúinn. Keypti kíló af nautahakki í Þín verslun. Saman við hakkið setti ég egg, mjólkurvætt brauð, hvítlauk, þurrkaða basiliku, salt, pipar og parmesan ost.

Útbjó sex 200gr borgara. Setti fjóra í grillklemmu og hina tvo varlega á grillið. Borgararnir þurfa ágætis tíma á grillinu. Eru ansi lausir fyrst og því sný ég ekkert fyrr en eftir nokkrar mínútur. Tók borgarana úr klemmunni til að geta sett ost á þá. Mikill munur að hafa grillklemmuna.

Það er ótrúlega miklu betra að útbúa svona hamborgara sjálfur og skemmtilegt að leika sér að því að setja ýmislegt út í hakkið. Gott að setja ferskar kryddjurtir ef þær eru til. Hvítlaukur klikkar seint og parmesan ostur ávallt góður. Næst er ég að spá í að setja meiri ost í hakkið og sleppa því að setja ofan á borgarann. Getur verið gott að setja smátt saxaðan ferskan chili, pestó kemur líka vel út.

Bjórinn drakk ég meðan ég grillaði og kláraði með matnum. Allir nema Inga María kláruðu einn og hálfan borgara, hún kláraði næstum því einn. Það þarf engar franskar með svona mat.

Hér þurfti ég að skrifa dálítið mikinn texta til að hann flæddi meðfram myndinni. Fyrsta útgáfa færslunnar var helmingi styttri.

matur
Athugasemdir

Tinna G. Gígja - 21/07/09 22:24 #

Voðalega seturðu lítinn ost ofan á borgarann...tekur þessu nokkuð?

Matti - 21/07/09 22:26 #

Nei varla. Þetta er eiginlega táknrænn gjörningur :-) En það var dálítið af parmesan osti í borgaranum, það bjargar þessu.

Jóhannes Proppé - 22/07/09 00:17 #

Núna þarftu bara að verða þér úti um flösku af liquid smoke og fara að laga eigin BBQ sósu.

Brynjar - 22/07/09 10:17 #

Ég hef búið til mína eigin hamborgara um nokkurt skeið. Fór í mat til foreldra minna um daginn og var látinn grilla nokkuð þykka borgara úr kjötborði Nóatúns. Þvílíkur munur! Eftir smástund fór eitthvað að bráðna úr borgaranum (sennilega kartöflumjöl eða eitthvað drasl sem þeir nota til að drýgja hakkið!) svo maður hálfmissti lystina, svo er hakkið svo fínt í þessu að þetta er líkara farsbollum en borgurum.

Það er svo sannarlega þess virði að búa til sína eigin borgara.

Í mjög náinni framtíð er ætlunin að láta hakka fyrir sig t.d. entrecote og nota í borgara. Það er eitthvað sem maður verður að prófa einu sinni.

Matti - 22/07/09 11:08 #

Mig rámar í að hafa lesið frásögn af því að John Travolta hafi haft kokk með sér þar sem hann var að leika í kvikmynd. Kokkurinn eldaði fyrir hann hamborgara á hverjum degi og bjó til nautahakk úr nautalund.

Brynjar - 22/07/09 11:58 #

Já, ég hef heyrt af mönnum sem láta hakka fyrir sig lundir, t.d. í Kjötbankanum. En einhvers staðar las ég að það þurfi ákveðið hlutfall fitu í hakkið til að borgarinn verði sem bestur og að þá sé entrecote algjört gourmet.

En vel fitusprengd lund hljómar ekki verr.

Kannski svolítið '2007' að láta hakka svona flott kjöt í hamborgara! :)

Matti - 22/07/09 14:00 #

Það væri kannski full mikið að gera hamborgara úr nautalund.

40% er rosalega feitt, hakkið sem ég notaði er hvað, 8-12% og kjötið er alls ekki þurrt heldur vel djúsí.

Nonni - 22/07/09 14:57 #

Ég ætla að vera fordómafullur og segja að buff sem inniheldur "hvítlauk, þurrkaða basiliku, salt, pipar og parmesan ost" sé ekki hamborgari.

Þú gætir komist upp með það í Bretlandi, þar sem allt frá farsbollum og upp í það sem þú ert að lýsa hér að ofan er kallað hamborgari, en ég gútera þetta ekki á Fróninu.

Og hananú!

Ég er samt viss um að þetta var ógisslega gott

Matti - 22/07/09 14:59 #

Köllum borgarana þá buff, mér er alveg sama :-)