Örvitinn

Fríþenkjarar, saga trúleysis í Bandaríkjunum

Kláraði þess bók í bústaðaferðinni um daginn og skrifaði megnið af þessari bloggfærslu á sama tíma, kom mér bara ekki í að klára færsluna.

Bókin Freethinkers, a history of American secularism eftir Susan Jacoby (wikipedia) er afskaplega góð.

Fríþenkjarar er dálítið opið hugtak, meðal þeirra voru harðir trúleysingja en einnig fólk sem aðhylltist einhverja trú á æðri mátt án tenginga við trúarbrögð. Meðal fríþenkjara voru t.d. margir deistar. Fólkið átti það sameiginlegt að lúta ekki kennivaldi trúarrita (jafnvel trúmenn) og barðist fyrir skoðana og málfrelsi.

Bókin fjallar í ansi knöppu máli um áhrif fríþenkjara á frelsis- og framfarahreyfingar í Bandaríkjunum. Hvernig fríþenkjarar voru áberandi í hreyfingum sem börðust fyrir réttindum minnihlutahópa en voru eiginlega skrifaðir úr sögunni.

Feminstinn Elizabeth Cady Stanton er gott dæmi um þetta en hún var í forsvari kvenna sem börðust fyrir kvenréttindum á nítjándu öld auk þess að vera trúleysingi, bók hennar Womens Bible vakti hneykslan. Það var ekki fyrr en á miðri tuttugustu öld sem að Stanton var aftur sett á sinn stall.

Kristnir hafa stundum viljað eigna sér baráttuna gegn þrælahaldi en það er ljóst að kristnir voru þar báðum megin við borðið. Þeir sem börðust fyrir þrælahaldi voru nær alfarið kristnir meðan fríþenkjarar voru (nánast) allir í hópnum sem barðist gegn því.

Their influence and stature may have been independent of their ideas about religion, but their popularity stemmed from views which did involve their ideas about religion. This is a key point in Jacoby's argument: over and over, prominent figures in social or political movements owed their ideas to secular, skeptical, anti-religious, or just religiously unorthodox opinions.

Robert Ingersoll fær nokkuð pláss í bókinni. Hann var afskaplega frægur, ferðaðist vítt og breitt um Bandaríkin og flutti fyrirlestra um trúmál. Iðulega var uppselt á fyrirlestra Ingersoll og fólk ferðaðist oft langar leiðir til að hlusta á hann. Fjölmiðlar fjölluðum um þá og lýstu ánægju fundargesta þó margir væru ósammála frummælanda.

Margir telja að ef ekki væri fyrir trúleysi hans hefði Ingersoll örugglega náð miklum frama innan stjórnsýslu Bandaríkjanna. Ingersoll var af sumum líkt við Voltaire en þrátt fyrir það hefur nafn hans nánast gleymst. Í fyrra kom bókin Andlegt sjálfstæði sem inniheldur greinar eftir Ingersoll út, ég mæli með henni. Fæst í betri bókabúðum.

Það er afar fróðlegt að lesa um samband ríkis og kirkju í Bandaríkjunum. Þessi veggur sem átti að vera þar á milli átti ekki að vera óljós lína. Það er ekki rétt að tala um raunverulegan aðskilnað í BNA, sérstaklega í tíð Bush yngri. Því er að mínu mati tómt bull að vísa til Bandaríkjanna sem dæmis um það sem getur gerst ef engin ríkiskirkja er til staðar. Síðustu áratugi hefur samband ríkis og kristni stundum verið afskaplega sterk í BNA.

Fyrstu forsetar Bandaríkjanna vísuðu ekki sífellt til Gvuðs, það er seinni tíma fyrirbæri. "In God we trust" varð ekki mottó fyrr en í kalda stríðinu, áður var það E pluribus unum. Kalda stríðið var kjörið tækifæri til að auka fordóma gegn trúleysingjum sem þá voru tengdir hinum gvuðlausu Sovétríkjum, gvuðlausir kommúnistar voru gerðir brottrækir í stórum stíl. Það má segja að með því hafi trúleysingjar og fríþenkjarar verið gjörsamlega þaggaðir niður.

Stjórnarskrá Bandaríkjanna mælir algjörlega fyrir að ríkið skuli engin afskipti hafa af trúarbrögðum en þarlendir trúarnöttarar hafa ætí barist við að komast hjá því með góðum árangri. Bush seinni toppaði allt og því miður virðist Obama lítið ætla að gera til að breyta því.

Það er fróðlegt að hápunktur fríþenkjarahreyfingarinnar í Bandaríkjunum var áður en útvarpið kom til sögunnar. Fyrirlestrar, bóka- og blaðaskrif voru vettvangur fríþenkjara en þegar útvarpið kom til sögunnar, með kostun stórfyrirtækja sem ekki vildu kenna sig við gvuðleysi, má segja að sýnileiki fríþenkjara hafi minnkað meðan plássið sem trúmenn fengu stórjókst. Skyndilega voru trúarnöttarar komnir inn í stofu um öll Bandaríkin. Það er svo ekki í raun fyrr en internetið kemur til sögunnar að fríþenkjarar lifna aftur við að einhverju viti.

Um þessar mundir er mikið rætt um nýja trúleysið og nýju trúleysingjana. Sumir velta því fyrir sér af hverju það er að vakna. Ég held að hin raunverulega spurning sé af hverju trúleysið þagnaði. Þessi bók svarar því að hluta. Það heyrðist ekkert í fríþenkjurum í langan tíma vegna þess að það borgaði sig ekki að tala. Það er þó alveg ljóst að þeir voru til staðar og studdu öll alvöru framfaramál í BNA á 20. öldinni í stríði gegn íhaldssömum kristnum öflum.

N.b. í þessari færslu blanda ég saman efni bókarinnar og mínum hugleiðingum eftir lesturinn.

Secularism þýðir ekki trúleysi en mér fannst þetta henta. Hvernig á að þýða það? Veraldarhyggja er frekar natúralismi sýnist mér.

bækur efahyggja
Athugasemdir

Haukur - 23/07/09 13:37 #

Það er athyglisvert að leita að 'Ingersoll' á timarit.is - hans er mjög oft getið í Vesturheimsblöðunum Heimskringlu og Lögbergi en einnig alloft í blöðum gefnum út á Íslandi.

Óli Gneisti - 23/07/09 14:34 #

Já, hann var þekkt nafn hérna frameftir 20. öldinni eftir þessu að dæma. Morgunblaðið birtir til að mynda sama brandarann/flökkusöguna um hann með 32 ára fresti. Annars er svoltið böggandi að þegar á líður koma upp einhverjar fjandans búvélaauglýsingar eða eitthvað álíka með heitinu Ingersoll.

Steindór J. Erlingssin - 23/07/09 14:36 #

Trúaður einstaklingur getur aðhyllst "secularism" enda felur hugtakið bara í sér aðskilnað ríkis og kirkju.

Matti - 23/07/09 14:38 #

Aðskilnaðarsinni er samt vont orð í þessu samhengi :-) Ætli við verðum ekki bara að tala um "Þá sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju". Þetta á þá ekki einu sinni við um alla trúlausa einstaklinga.

Gunnar J Briem - 23/07/09 16:04 #

Orðabók Arnar og Örlygs þýðir secularism sem "veraldarhyggja" eða "fríhyggja". Ég sting upp á "jarðbindihyggja" því ríkisvaldið á að vera jarðbundið. :-)

Halldór E - 23/07/09 17:15 #

Ég held að það sé of mikil einföldun að tengja "secularism" einvörðungu við aðskilnað ríkis og kirkju. Hér er frekar um að ræða brotthvarf trúarlegs valds úr opinberi ákvarðanatöku.

Þannig er aðskilnaður ríkis og kirkju greinilegur í BNA, en trúarlegt vald hefur gríðarleg áhrif þegar kemur að opinberri ákvarðanatöku. Það má færa rök fyrir því að þessu sé öfugt farið í Danmörku svo dæmi sé tekið.

Steindór J. Erlingssin - 23/07/09 17:46 #

Halldór, með aðskilnaði ríkis og kirkju átti ég við "brotthvarf trúarlegs valds úr opinberi ákvarðanatöku". Ég var ekki nógu nákvæmur í orðalagi.

Matti - 23/07/09 17:48 #

Þannig er aðskilnaður ríkis og kirkju greinilegur í BNA

Er svo í raun? Hvað með t.d. White House Office of Faith-Based and Neighborhood Partnerships? Enn er ríkið að dæla peningum í trúfélög, jafnvel þó þessi trúfélög ráði bara starfsfólk sem er þeirrar trúar sem félagið boðar. Stangast klárlega á við stjórnarskrána en hverjum er ekki sama :-)

Legopanda - 26/07/09 16:55 #

Hljómar eins og mjög áhugaverð bók. Ég hef haft áhuga á því að glugga í hana síðan ég heyrði viðtal við höfundinn í þættinum Freethought Radio.

Mér hefur ,,veraldlegur" þótt ágætis þýðing á secular, þó að ,,veraldarhyggju" tengi maður einhvernvegin við efnishyggju. Kannski er það samt besta orðið (jarðbindihyggja finnst mér eiga heima í jarðfræði :P).