Örvitinn

Ríkiskirkjuprestar á Ómega

Áðan horfði ég á ríkiskirkjupresta ræða málin á Ómega, sá kunnulegt andlit þegar ég var að fletta framhjá.

Það er merkilegt að þegar ríkiskirkjuprestar rökræða við trúleysingja opinberlega afneita þeir eiginlega alltaf megninu af því sem trú þeirra snýst um - en þegar þeir halda að enginn sé að hlusta kemur í ljós að þeir trúa þessu öllu saman. Allri bölvaðri vitleysunni. Eru í raun ekkert skárri en hið svokallaða ofsatrúarlið sem er með aðra þætti á Ómega.

Nokkrir punktar sem ég pikkaði inn meðan ég hlustaði. Það kemur sér stundum vel að hafa lært vélritun í Verzló.

Hvar værum við ef við hefðum ekki upprisuna, þessa von um að við eigum okkur líf með guði. Staðreynd upprisunnar er efni í annan þátt. Án upprisunnar er engin kristin trú.

Já, "staðreynd upprisunnar" er svo sannarlega grundvöllur kristinnar trúar. Án þeirrar "staðreyndar" er engin kristni. Hvað ætli margir íslendingar trúi því að upprisan sé staðreynd? Ég held þeir séu ansi margir sem ekki teljast kristnir samkvæmt þessari (fínu) skilgreiningu.

Hvers eðlis er veruleikinn ef hann [Gvuð] er ekki til? Mikilvægasta spurning sem við spyrjum okkur.

Fólk lifir í gjörsamlega ólíkum veruleika eftir því hvort það trúir á Guð eða ekki. Svart og hvítt.

Ef Guð er ekki til staðar, hvað segir það um tilgang lífsins, gildi okkar sem manneskju, merkinguna á bak við lífið og tilveruna.

Ef fólk hugsar það til enda, áttar á sig að ef heimurinn er bara lokaður kassi tímarúms og efni, þá er lífið rúið öllum tilgangi, innihaldi og merkingu.

Séra Gunnar Jóhannesson sagði þetta í alvörunni og hann var ekki að grínast enda ekki að segja þetta í fyrsta skipti. Þetta er eitt af því sem er svo merkilegt við sumt kristið fólk, það trúir því í alvörunni að tilveran væri allt öðruvísi án trúarinnar, "svart og hvítt". Auðvitað er það ekki raunin. Trúin er í rauninni algjörlega tilgangslaus í dag. Það er einmitt ástæðan fyrir því að prestar þurfa að rembast við að halda því fram að án hennar sé ekki hægt að lifa. Þegar menn beita hræðsluáróðri (og þetta er ekkert annað) til að selja eitthvað er næsta víst að varan er drasl.

Þegar Gunnar útskýrði heimsfræðilegu rökin sagði hann meðal annars:

Hið náttúrulega á sér upphaf. Þá getur orsökin ekki verið náttúruleg. Þessi orsök hlýtur að vera óháð tíma, rúmi og efni.

Þessi orsök hlýtur að vera persónuleg, því þetta þurfti ekkert að gerast!

Allt í boði guðfræðideildar Háskóla Íslands, þar sem prestar læra að tala eins og hálfvitar.

kristni
Athugasemdir

Kristinn Theódórsson - 05/08/09 11:47 #

"Þessi orsök hlýtur að vera persónuleg, því þetta þurfti ekkert að gerast!"

Mögnuð rök. Þannig að ef ég elda mér hafragraut og gleymi honum svo hálfétnum á borði þar sem hann verður gróðrarstía allskyns örvera, þá geta þær örverur talið sér trú um að ég hafi eldað grautinn fyrir þær; að þetta hafi verið "persónulegt"?

lol

Haukur - 05/08/09 12:53 #

Verzló smerzló - hvað ertu með í Typing Maniac á Facebook?

Matti - 05/08/09 13:41 #

Hef aldrei prófað það en ég fékk (alltaf) tíu í vélritun :-)

Legopanda - 05/08/09 18:34 #

Fyndið að þeir skuli alveg sleppa beislinu á Ómega, en það kemur mér einhvern vegin ekki á óvart. Merkilegt eiginlega, hvað þeir eru dipló og þokukenndir í trúnni þegar þeir koma í ríkisútvarpið eða -sjónvarpið.

Matti - 06/08/09 11:05 #

Haukur, ég fiktaði aðeins í Typing Maniac í gær og náði mest 189601. Þarf bara rétt að sexfalda árangurinn til að ná þér :-)

Var þó að læra á þetta í gær og notaði líka ferðatölvuna uppi í rúmi. Þarf að prófa við betri aðstæður :-) Þarf að æfa mig, þetta snýst dálítið um að þekkja orðin.

Haukur - 06/08/09 11:25 #

Já, ég held ég hafi spilað svona tíu leiki áður en ég náði upp í milljón stig. Maður þarf aðeins að átta sig á þessu - sérstaklega hvernig best er að hagnýta bónusana. Og ég er hægari á fartölvu en með almennilegu lyklaborði.

Skólabræður mínir í MR héldu því gjarnan fram að þeir þyrftu ekki að læra vélritun því að þegar þeir væru orðnir forstjórar og ráðherrar yrðu þeir með Verzlinga í vinnu við slíkt. Þetta fannst mér nú heldur skammsýnt hjá þeim :-)