Örvitinn

24, sjöunda sería

Sjónvarpsþáttaröðin 24 er dálítið mögnuð. Kláraði að glápa á sjöundu seríu í gærkvöldi og er enn að melta þetta.

jack bauerÞar sem hver sería er 24 þættir þýðir ekkert að hafa eitt samsæri, framleiðendur gera væntanlega ekki ráð fyrir að áhorfendur hafi þolinmæði til þess. Í staðin er hver sería samsæri á samsæri ofan, hvert lygilegra en það fyrra. Ég meina, auðvitað geta menn brotist með lítinn her inn í Hvíta húsið og að sjálfsögðu er þar herforingi og leiðtogi afríkuríkis á ferðinni. Þegar búið er að koma í veg fyrir fyrstu hryðjuverkaárás í áttunda þætti er ljóst að eitthvað fleira tekur við, en maður býst ekki við fjórum eða fimm í viðbót.

Svo eru það pyntingarnar. Mikið óskaplega virka pyntingar vel í heimi 24. Svo vel að talsmenn siðferðis og gagnrýnendur pyntinga eru að sjálfsögðu búnir að skipta um skoðun í lok seríunnar og farnir að pynta sannleikann úr sakborningum.

En það versta við 24 er hvað það eru notuð ódýr trix til að halda spennu. Hvað eftir annað klúðra menn einföldustu hlutum eða fara ótrúlega langar leiðir til að leysa mál.

Nú bíð ég spenntur eftir næstu seríu svo ég geti haldið áfram að dæsa og tuða yfir því hvað þetta er ótrúlega heimskulegt sjónvarpsefni.

sjónvarp