Basil & lime
Kíktum á Basil & lime í kvöld. Röltum inn rétt fyrir átta án þess að eiga pantað borð en fengum samt borð. Það var ansi mikið rennsli af fólki og sumir þurftu að bíða í a.m.k. hálftíma eftir borði þannig að við vorum heppin. Sátum reyndar niðri, þar er dálítill umgangur því allir sem koma inn ganga framhjá. Það truflaði okkur lítið.
Ég fékk mér Gnocchi með tómat og Basil (1550.-) í forrétt og Gyða fékk sér sjávarréttasúpu (1550.-). Gnocchi var helvíti fínt, góð áferð á gnocchiinu og tómat-basil sósan afar góð. Fengum brauðkörfum með ansi góðu brauði og ágætu hummus.
Í aðalrétt fékk ég mér Tagliatelle með kjötbollum í Chianti sósu (2150.-) og Gyða fékk sér Spaghetti Með blönduðu sjávarfangi í tómat,lime og chilli (2550.-). Minn réttur var góður, tagliatella gert á staðnum gott og sósan fín, bollurnar frekar einfaldar. Ég er meira fyrir að flækja kjötbollur með kryddi en þetta er ansi ítalskt svona.
Við vorum semsagt ánægð með matinn. Ferskt, ítalskt, gott og vel útlátið. Ég var (og er ennþá) pakksaddur. Við létum eftirréti eiga sig og röltum aðeins Laugaveginn.
Ég lét Gyðu um að keyra þar sem hún ætlar í vinnuna klukkan átta í fyrramálið. Fékk mér því bjór og eitt hvítvínsglas. Sé svo núna þegar ég skoða strimilinn að ég var látinn borga fyrir tvö glös. Kom til útaf misskilningi, þegar ég bað þjóninn um hvítvínið sem ég hafði pantað hélt hún að ég væri að panta glas. Ætla að kíkja við hjá þeim á morgun og sjá hvað þau gera. Viðbrögðin munu ráða töluverðu um endanlegt álit mitt á staðnum.