Örvitinn

Að ná til barna

Mér finnst ákaflega sorglegt að sjá presta eða aðra starfsmenn kirkjunnar tala um að þeir þurfi að gera eitthvað til að ná til barnanna. Fólk vinnur beinlínis við það hjá ríkiskirkjunni að ná til barna. Nú síðast skrifar Pétur frændi minn pistil á trú.is þar sem hann talar um "hvernig [hann] geti náð til drengjanna". Við skulum bara þakka fyrir að hann er ekki kaþólskur!

Svo við setjum þetta í samhengi við jafnréttispælingu Péturs, þá er trúarlegt barnastarf andstæða jafnréttis. Þetta er barnastarf fyrir börn þeirra foreldra sem eru ákveðinnar trúar.

Það versta er að ég geri mér grein fyrir að þetta er ágætis fólk. Það er bara blint á siðleysi sitt. Sér ekki (og vill ekki sjá) að trúaráróður sem beinist að börnum er viðbjóður.

Við sjáum það ef við setjum eitthvað annað en trúfélög í þessa stöðu, t.d. fyrirtæki eða stjórnmálaflokka. Þá finnst okkur (vonandi) öllum að slíkur áróður sé óviðeigandi. Setjum meira að segja lög og reglur til að takmarka slíkt, takmörkum t.d. auglýsingar í kringum barnatíma í sjónvarpi..

Trúfélögin mega aftur á móti selja sig með hvaða hætti sem er og auðvitað reyna þau að ná til barnanna því "það vill nú svo heppilega til að börn eru gjarnan leiðitöm, hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus" eins og Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur í Eyjafjarðarprófastsdæmi orðaði það á sínum tíma.

Kirkjan er semsagt alveg meðvituð um þetta en samt stunda hún þessa iðju. Nei, þess vegna herjar kirkjan á börn. Enda þetta á tilvitnun:

Félagshópurinn hefur æ meira áhrifavald, en foreldrar minna, þegar ungmennin verða óháðari foreldrum sínum tilfinningalega. Áhrif félagshópsins eru hvað sterkust í 8. og 9. bekk. Þá staðreynd er mikilvægt að nýta sér í fermingarstörfunum.

[María Ágústsdóttir. 1999. Námskrá Fermingarstarfanna, bls. 20] #

leikskólaprestur
Athugasemdir

Jón Yngvi - 10/08/09 16:34 #

Ég var að koma inn frá því að tala við mann sem var búinn að safna miðdóttur minni og vinkonum hennar í kringum sig og "var bara að tala við þær um Biblíuna og svona". Honum þótti ég ofboðslega öfgafullur þegar ég bað hann að halda sig við fullorðna ef hann þyrfti endilega að stunda trúboð í hverfinu.

Matti - 10/08/09 16:38 #

Maður verður bara svo gáttaður á því að svona fólk sjái ekkert athugavert við þetta.

Hólmfríður Pétursdóttir - 10/08/09 17:10 #

Matthías, má ég kalla þig Matta eins og flestir virðast gera?

Það er hlutverk kirkjunnar að boða trú bæði börnum og fullorðnum Ég hef alltaf litið svo á að það sem starfsfólk kirkjunnar kallar að ná til fólks sé að ekki í bókstaflegri merkingu að fara og krækja í fólk, heldur að framboð og tækifæri sem standa börnum, unglingum og öðrum til boða séu þannig að þau veki áhuga á því sem fram fer.

Það er svo þeirra að velja, og þegar um börn er að ræða foreldra þeirra.

Mér finnst ekki sanngjarnt að áfellast fólk fyrir að gera eins vel og það getur þegar það er að vinna að því sem því finnst rétt og satt, ef það skaðar ekki aðra.

Kirkja sem skírir börn tekur að sér trúfræðslu þeirra. Það sem starfsfólk kirkjunnar skrifar á vefi og skjöl sem eru birt í nafni kirkjunnar um hvernig þessu verði best sinnt finnst mér í þessum tilvikum ekki ámælisvert.

Matti - 10/08/09 17:12 #

Það versta er að ég geri mér grein fyrir að þetta er ágætis fólk. Það er bara blint á siðleysi sitt. Sér ekki (og vill ekki sjá) að trúaráróður sem beinist að börnum er viðbjóður.

Haukur - 10/08/09 20:23 #

Við sjáum það ef við setjum eitthvað annað en trúfélög í þessa stöðu, t.d. fyrirtæki eða stjórnmálaflokka.

Ég held að margir, jafnvel sumir trúlausir, setji trúfélög ekki í sama hugdilk (kategóríu) og fyrirtæki heldur frekar eitthvað eins og góðgerðarsamtök eða hugsjónasamtök af ýmsu tagi.

Er í lagi að Samtökin 78 reyni að ná til barna með sinn boðskap? Þætti þér í lagi að Samtök hernaðarandstæðinga gerðu átak í að gefa börnum barmmerki með friðardúfu á? Hvað með barmmerki með "Ísland úr Nató" á? Fyndist þér í lagi að Amnesty International reyndi einhvern veginn að ná til barna? Ég held það sé fullt af gráum svæðum í svona löguðu.

Matti - 10/08/09 20:56 #

Ég held að margir, jafnvel sumir trúlausir, setji trúfélög ekki í sama hugdilk (kategóríu) og fyrirtæki heldur frekar eitthvað eins og góðgerðarsamtök eða hugsjónasamtök af ýmsu tagi.

Það geri ég alls ekki. Kirkjan er gróðabatterí. Sjáðu bara hvernig þar er brugðist við hugmyndum um aðskilnað. Þetta snýst allt um hagsmuni.

Er í lagi að Samtökin 78 reyni að ná til barna með sinn boðskap? Þætti þér í lagi að Samtök hernaðarandstæðinga gerðu átak í að gefa börnum barmmerki með friðardúfu á? Hvað með barmmerki með "Ísland úr Nató" á? Fyndist þér í lagi að Amnesty International reyndi einhvern veginn að ná til barna? Ég held það sé fullt af gráum svæðum í svona löguðu.

En við erum bara alls ekki að tala um kirkjuna á gráu svæði. Samtökin reyna væntanlega að kynna mál sín fyrir unglingum á einhvern hátt auk þess að hafa áhrif á kennsluefni þannig að minnst sé á þeirra réttindamál.

Ég efast um að Samtökin reyni að homma krakka.

Ísland úr Nató þætti mér ekki við hæfi, það er pólitískur áróður. Friðardúfan finnst mér við hæfi, það er almennur friðaráróður sem varla getur talist pólitískur í eðli sínu.

Amnesty eiga að reyna að ná til barna því boðskapur þeirra er veraldlegur og á erindi til alla barna, algjörlega óháð trúarskoðun foreldra.

Ég held að gráu svæðin sé ekkert svo grá nema maður leggi sig fram um það. Í raun er þetta frekar einfalt dæmi og snýst um boðun. Ég hef ekkert á móti því að börn læri um kirkjuna, fari í vettvangsferðir og svo framvegis svo lengi sem tækifærið er ekki notað til að boða kristni. Því miður hafa þessir andskotar aldrei ráðið við það, mega ekki nálgast barn án þess að reyna að kristna það. Þetta fólk er eitthvað sjúkt!

Haukur - 11/08/09 00:18 #

Ég er ekkert hrifinn af kirkjunni heldur og alls ekki boðun kristindómsins. En ef kristindómurinn væri sannur (eða a.m.k. gagnlegur/fagur/göfugur eins og sumir trúleysingjar telja) þá væri siðferðislega rétt að boða hann börnum.

Matti - 11/08/09 08:32 #

ef kristindómurinn væri sannur

Já en hann er sannarlega ekki sannur :-)

(eða a.m.k. gagnlegur/fagur/göfugur eins og sumir trúleysingjar telja) þá væri siðferðislega rétt að boða hann börnum

Nei, það get ekki tekið undir. Segja börnum frá honum, já. Boða, alls ekki.

Haukur - 11/08/09 10:20 #

Allt í lagi, það er trúlega rétt. Ég viðurkenni að ég skil ekki alveg fólk sem ekki er kristið en sendir börnin sín í sunnudagaskóla ("það verður einhver annar að sjá um að kenna stráknum þetta því að ég trúi ekki á þetta sjálf", sagði mér manneskja sem ég þekki).

En að fólk sem trúir í einlægni að kristindómurinn sé sannur reyni að boða hann skil ég vel. Frá slíku fólki séð hlýtur boðun kristindómsins að virðast siðferðislega skyldubundin eða a.m.k. siðferðislega lofsverð.

Matti - 11/08/09 11:23 #

Akkúrat, ég get skilið það út frá þeirra sjónarhorni.

Siðferði fólks hlýtur samt að stórum hluta að fara eftir því hvort það getur tekið tillit til annarra.

Þannig myndi ég gjarnan vilja boða öllum börnum að kristin trú sé bölvuð vitleysa. Það er mín skoðun og ég get fært rök fyrir því. En mér finnst það ekki ganga upp siðferðislega.

Stundum dreymir mig um að sannríkiskristið fólk geti hugsað á sama hátt en því miður virðist það sjaldgæft.

Helgi Briem - 12/08/09 09:50 #

Hver sá sem hefur átt lítil börn og fáar .... uhm .... "hjónanæðisstundir" veit af hverju foreldrar senda börnin sín í sunnudagaskóla.

Ég segi bara svona.