Örvitinn

Móðursýkisfaraldur

Það er bæði skondið og sorglegt að fylgjast með því hvað allir eru taugaveiklaðir. Fréttir um afskriftir valda miklum æsingi og litlu máli skiptir þó í ljós komi að fréttirnar eru rangar.

Staðreyndin er samt að það mun þurfa að afskrifa gríðarlega mikið af skuldum auðmanna einfaldlega vegna þess að þeir eiga ekki fyrir þeim. Mikið af þessum lánum voru veitt til hlutafélaga með veðum í eignum sem eru einskis virði í dag.

Það segir sig einfaldlega sjálft að slíkt verður afskrifað enda verður það aldrei greitt. Annað verður innheimt og gengið á veð sem hægt er að yfirtaka. Það er hægt að skammast í þá sem veittu lán án fullnægjandi trygginga en það er út í hött að ásaka þá sem sjá um að innheimta.

Fólk mun halda áfram að ganga af göflum sama hvað gerist og það versta er að við því er ekkert hægt að gera.

Þjóðin (mér leiðist að tala um þjóðina, en það er við hæfi) þarf að gera sér grein fyrir því að stundum eru bara slæmir kostir í stöðunni og þá þarf að reyna að velja þann skásta. Eitt vandamálið í dag er að nú þorir enginn að taka ákvörðun af ótta við viðbrögðin og umtalið. Það skiptir engu máli hvað menn gera, alltaf munu einhverjir öskra um spillingu, ranglæti og vanhæfi. Sérstaklega fyrrverandi ritstjórar. Við erum öll eins og áhorfendur á fótboltaleik sem þykjast vita betur en leikmennirnir, þjálfararnir og dómararnir. Hæst heyrist í þeim sem hafa aldrei sparkað í bolta. Þeir sem malda í móinn eru púaðir niður.

dylgjublogg
Athugasemdir

Sigurður E. Vilhelmsson - 18/08/09 15:23 #

Það sem flestum svíður er að þessir greifar fá að halda lífsstílnum frá því fyrir hrun, aka um á lúxusjeppunum og mjólka kvótann áfram eins og ekkert sé, á meðan almenningur er blóðmjólkaður og þarf að skera allt niður við nögl. Það er þessi gríðarlega mismunum og sú stéttaskipting auðmanna og "okkar hinna", sem verið er að festa í sessi, sem fólki þykir óásættanleg. Þannig er það bara.

Matti - 18/08/09 15:23 #

Merkileg athugasemd á eyjunni kl. 15:15

Þessi hagfræðingur hefur greinilega aldrei sparkað bolta. Hann skilur ekkert hvað íslenska leikkerfið gengur út á. Gasprar bara í stúkunni sinni. #

Matti - 18/08/09 16:53 #

Bloggfærsla Láru Hönnu og athugasemdirnar þar við eru ágætt dæmi um þessa skefjalausu móðursýki. Athugasemd Hilmars (nr. 67) er skemmtileg í samhengi við lokasetningu mína um að fólk sé púað niður.

Blessaðu hættu þessu rausi Matthías, þú ert kominn langt út fyrir það sem málið snýst um hér, og í rauninni alveg dead boring...

Þessi gagnrýnislausa vænisýki er nefnilega af nákvæmlega sama toga og gagnrýnisleysið sem hér var stundað fyrir hrun og olli þessu ástandi.

Ásgeir - 18/08/09 17:08 #

Já, það gæti verið eins og þú segir, Matti, að gengið verði að þeim veðum sem hægt verður. En málið er bara að fólk treystir ekki ríkisstjórninni, skilanefndum, dómstólum, lögreglunni og bara stjórnkerfinu almennt. Og ég skil það vel, því ekki geri ég það.

Matti - 18/08/09 17:11 #

Fólk treystir engum og það er stóra vandamálið. Leysist þetta með nýju fólki í ríkisstjórn, skilanefnd, dómstóla, banka og svo framvegis? Ég held ekki, fólk verður þá bara komið með nýtt fólk til að vantreysta.

Það sem þarf að gerast er að eitthvað verður að koma út úr opinberum rannsóknum sem allra fyrst. Þó það væri ekki nema bara til að friða fólk.

Ásgeir - 18/08/09 17:27 #

Ég veit ekki hvað hægt er að gera til að efla traust fólks á stofnunum samfélagsins, en það verður að gerast.

Matti - 18/08/09 17:30 #

Við getum kannski reynt að stofna nýjan stjórnmálaflokk sem verður óháður gömlu valdaklíkunum og fer á þing til að efla lýðræði og auka gegnsæi. Það gekk svo rosalega vel :-)

Ég held að réttarhöld yfir einum útrásarvíking myndu lægja öldurnar ansi mikið. Við slík réttarhöld yrðu um leið ýmsar upplýsingar opinberar.

Annars myndi ég bara lögleiða maríjúana og auðvelda aðgengi að því. Fólk myndi kannski ekki treysta stofnunum betur en því stæði á sama.

Matti - 18/08/09 20:00 #

Neitar ekki að skuldir verði afskrifaðar

Hins vegar er ekkert í málflutningi Páls fyrir hönd skilanefndarinnar sem bendir til þess að að einhver hluti skulda Magnúsar við Landsbankann verði ekki afskrifaður. Orð Páls ganga hins vegar fyrst og fremst út á að undirstrika það að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um að afskrifa skuldir Magnúsar, hvað svo sem síðar verður.

Að sjálfsögðu verður eitthvað afskrifað, Magnús er ekki borgunarmaður fyrir þessu.

Matti - 18/08/09 20:13 #

Athugasemd hjá Láru Hönnu.

Merkilegt þetta hugarfar kleptókrata og siðblindinga eins og Mattíasar að þeir sem stela eru bara nógu gáfaðir til að stela. Þeim sem er stolið frá, eru bara ekki nógu klárir að láta stela frá sér. Svo er líka alltaf allt ótengt hvert öðru. "Það er einfaldlega allt annað mál". Sjá ómögulega samhengi hlutanna. Líkast til ekki hægt að kenna þessu fólki um að vera vitskert í hægra heilahvelinu. Þessi addi er fyndinn líka þegar hann talar um alvöru peninga. Eru það pappírsbleðlarnir eða tölurnar sem bankamennirnir ákveða að hafa á tölvuskjánum. Veit allt um smáatriðin en aftur, skortir alla yfirsýn.

Teitur Atlason - 19/08/09 05:59 #

Ég er alveg sammála þér. Þessi viðbrögð eru bull. Hinsvegar er fólk brjálað. Í tilfelli Magnúsar þá mun hann sjálfsagt geta bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Hann tapar sjálfsast engum peningum samt á hann kvóta fyrir miljarðatugi.

Matti - 19/08/09 08:42 #

Ég held að Magnús muni tapa andskoti miklu. Vona það að minnsta kosti.

Varðandi kvótann, þá er spurning hvort það sé betra að hann sé í eigu gjaldþrota fyrirtækis í Vestmannaeyjum eða erlendra kröfuhafa bankanna.

Matti - 19/08/09 09:09 #

Hér er svo loks skýringin. Gamli Landsbankinn á einfaldlega ekki góð veð í eignum Magnúsar. Það er Íslandsbanki sem mun setja hann í þrot og eignast allt draslið.

Gísli Freyr - 19/08/09 23:03 #

Þá sjaldan að við erum sammála þá er ég sammála þessari færslu.

Það virðist heldur ekki skipta fólk máli í umræðunni að ef (gamli) Landsbankinn afskrifar skuldirnar eru það kröfuhafarnir (skilanefndin starfar fyrir kröfuhafa) sem taka ákvörðun um slíkt, þ.e. að afskrif og þá tapa fé sínu.

Sigurður E. Vilhelmsson - 20/08/09 00:06 #

Gott að fá álit sérfræðings í skuldatilfærslum og kennitöluflakki :)