Örvitinn

Blóðgjöf níðings

Ég fékk skilaboð frá Blóðbankanum í fyrradag, þau eru að reyna að betla úr mér blóð.

Var að spá í að skella mér í dag en svo hugsaði ég um orð séra Þórhalls Heimissonar sem segir að ég láti ekkert gott af mér leiða, hjálpi engum, huggi engann og hafi ekkert innlegg í samfélagið annað en níð. Já, þetta sagði ríkiskirkjupresturinn um mig.

Ætti ég kannski að sleppa þessu? Hver vill eiginlega blóð úr svona hyski? Mér yrði eflaust vísað frá hvort eð er. Sennilega hafa þau hellt sullinu niður síðustu 26 skipti.

dagbók
Athugasemdir

Örn Guðmundsson - 21/08/09 10:27 #

Sterkur punktur.

Allir blóðgjafar sem ég hef kynnst (að sjálfum mér meðtöldum) eru trúlitlir - og myndu sennilega falla undir sömu skilgreiningu og þú.

Það væri fróðlegt að sjá hversu stór hluti gefins blóðs væri úr göfugum æðum, en ekki úr hyski eins og okkur. Ég er hræddur um að blóðbankinn þyrfti þá hjálp frá erlendum bönkum, jafnvel að verða sér úti um lánalínur!

Óli Gneisti - 21/08/09 10:35 #

Þegar Eygló þurfti blóðgjöf eftir keisarann þá hugsaði ég einmitt að þarna væri hún nú kannski að fá allavega einn skammt frá níðingnum Helga Briem.

Haukur - 21/08/09 14:11 #

Í Bandaríkjunum benda rannsóknir til að kirkjurækið og hægrisinnað fólk gefi meira blóð en aðrir, hugsanlega á það sama við um Evrópu. Ekki veit ég hvað er uppi á teningnum hér á landi.

Matti - 21/08/09 14:19 #

Í fyrstu vísun kemur fram að hægrisinnaðir/trúaðir Bandaríkjamenn gefa meira til góðgerðamála. Eru þau góðgerðamál tengd trúarflokkum? Ef svo, þá á ég bágt með að túlka þau sem góðgerðamál. Um blóðgjöf segir:

In 2002, conservative Americans were more likely to donate blood each year, and did so more often, than liberals. If liberals and moderates gave blood at the same rate as conservatives, the blood supply in the United States would jump by about 45 percent.

Ég velti því fyrir mér hvort það hefur einhver áhrif á þetta að samkynhneigðir mega ekki gefa blóð. Tel annars vera sömu skýringu og á þriðja lið.

Í annarri vísun kemur fram að trú hefur ekki áhrif á blóðgjöf, þ.e.a.s. þeir sem hafa enga trú eru þriðji fjölmennasti hópur blóðgjafa.

Þriðja vísunin tengdir svo blóðgjöf við annað sjálfboðaliða-/félagsstarf. Þeir sem séu í einhverju slíku starfi séu líklegri til að gefa blóð. Sem er ósköp eðlilegt, ég gaf fyrst blóð með vinnufélögum mínum. Umhverfið hefur áhrif.

Þannig að ég veit ekki alveg hvað þú sýndir fram á með þessum vísunum :-)

Matti - 21/08/09 14:23 #

Annars hélt ég því ekki fram í bloggfærslunni að trúlausir væru eitthvað líklegri til að gefa blóð en trúaðir. Ég hef aldrei haldið því fram að trúað fólk geri ekkert fyrir samfélagið. Það er ríkiskirkjupresturinn sem heldur því fram.

En þetta er samt fínn punktur hjá Erni. Trúleysingjar eru miklu stærri hópur á Íslandi en margir halda. Ef þeir myndu hætta að gefa blóð yrði næstum örugglega krísa.

Þess má geta að ég fór ekki í Blóðbankann í dag. Lokar á hádegi á föstudögum og ég var upptekinn. Reyni að kíkja í næstu viku.

Haukur - 21/08/09 14:39 #

Fyrsta vísun: Brooks segir (eða gefur a.m.k. í skyn) að hægrimenn leggi einnig meira af mörkum til 'sekúlar' málefna. Þegar kemur að blóðgjöfum er það ekki galin hugmynd hjá þér að samkynhneigðir (sem í BNA eru að meðaltali vinstrisinnaðri en aðrir) hafi dálítil áhrif - en þeir eru ekki nógu margir til að útskýra allan muninn.

Önnur vísun: Rétt - en ég var fremur að hugsa um kirkjurækni en hvernig menn ídentifera trúarlega, þau gögn eru fyrir neðan (þetta mun vera unnið upp úr General Social Survey).

Þriðja vísun: Sammála. Hins vegar er þarna líka vitnað í grein sem segir að jafnvel í býsna veraldlegum löndum sé fylgni milli virkni í kirkjustarfi og virkni í sjálfboðastarfi.

Ég játa annars að ég hef mjög lítið lesið um þessi mál nema það sem ég er að dunda mér við að Googla núna - ég hef ekki einu sinni lesið þessa bók eftir Brooks (en reyndar aðra bók eftir sama mann sem mér fannst ekki slæm). Sjálfur er ég hvorki hægrisinnaður né kirkjurækinn. Ég gaf í fyrsta skipti blóð fyrr á þessu ári.

Ég er ekki að reyna að sýna fram á neitt sérstakt en ég er forvitinn um hvað rannsóknir segi um þessi mál.

Matti - 21/08/09 16:17 #

Getum við a.m.k. verið sammála um að með því að gefa blóð reglulega leggi ég eitthvað til samfélagsins? :-)

Haukur - 21/08/09 20:18 #

Já, við getum verið sammála um það :) Ég ætlaði nú aldrei að gefa annað í skyn.