Örvitinn

Menningin í gær

Útsýnið úr turninumVið byrjuðum Menningarnótt á því að kíkja á efstu hæð Höfðatorgs, mættum þangað um hálf tvö. Áttum von á að við gætum farið upp með lyftunni en það var ekki í boði, fólk átti að fara tröppurnar. Röltum því upp nítján hæðir til að geta dáðst að útsýninu. Við fórum létt með það en ég svitnaði samt dálítið. Klifrið var þess virði, útsýnið er magnað. Ætluðum að kíkja í Höfða en nenntum ekki í röðina sem við sáum úr turninum.

Lögðum bílunum í bílastæðahúsið á Stjörnubíóreitnum og gengum niður í bæ. Fórum á báðum bílum þar sem Salka vinkona stelpnanna kom með. Stelpurnar fengu sér pylsur í síðbúinn hádegismat.

Kíktum á tónleika í garði við Ingólfsstræti. Fengum vöflur og hlustuðum á Helga Val, Útúrdúr Útidúr og Retro Stefson. Tóti átti í vandræðum með gítarinn til að byrja með, fékk annan lánaðan í miðju setti. Þetta var ósköp skemmtilegt.

ÚtúrdúrÚtidúr höfum við ekki séð áður, afar skemmtilegt band, afskaplega heillandi söngkona.

retrostefson.jpgRetro Stefson í stuði. Mikið óskaplega er þetta skemmtileg hljómsveit.

Brjálaður vísindamaðurEftir að Retro Stefson kláraði gengum við að Íslenskri erfðagreiningu þar sem við horfum á efnafræðinga sýna listir sínar. Höfum alltaf ætlað að kíkja á þetta en aldrei látið verða af því fyrr en nú. Sáum alls ekki eftir því, þetta var bæði fróðlegt og gaman. Skemmtum okkur öll afar vel. Vísindi eru víst skemmtileg.

Skiluðum Sölku til ömmu sinnar og afa á bakaleiðinni og borðuðum svo með foreldum mínum og systur á Horninu.

Kíktum á tónleikana í Hljómskálagarðinum. Ég ætlaði að draga mig úr hópnum og kíkja á Ingólfstorg en ákvað að vera með stelpunum þrátt fyrir að vera ekkert mjög spenntur fyrir tónlistinni. Stelpurnar skemmtu sér mjög vel. Ingó má eiga það að hann er afskaplega klár í að halda uppi stemmingu. Paparnir eru alveg drepleiðinlegir. Páll Óskar hefur oft verið betri en var samt alveg nógu góður!

Horfðum á flugeldasýninguna á Arnarhóli, hóuðum svo í unglinginn og röltum upp Hverfisgötu og Laugaveg að bílastæðahúsinu.

Þannig var dagurinn. Tíminn leið ósköp hratt. Hér eru nokkrar myndir

menning
Athugasemdir

Gurrí - 23/08/09 12:13 #

Rosalega skemmtilegar myndir hjá þér!

Erlendur - 23/08/09 16:19 #

Rosalega er eerie green myndin hjá þér flott. Varstu með einhverjar fleiri af sýningunni?

Matti - 23/08/09 17:08 #

Ég er með nokkrar myndir í viðbót frá sýningunni en þær eru ekkert spennandi :-)

hildigunnur - 23/08/09 18:28 #

hæ, vonandi í lagi að ég ræni svo sem eins og einni mynd - láttu mig vita ef það er óvinsælt :D

Matti - 23/08/09 18:29 #

Ekkert mál.

hildigunnur - 23/08/09 18:38 #

takk takk, ég skildi myndavélina eftir heima í allan gærdag, sko :)

hildigunnur - 23/08/09 18:40 #

já og Retro Stefson eru frábærir, vinir elstu dótturinnar, flestir líka í Hamrahlíðarkórunum. Ekki smá skemmtilegt að fylgjast með þessum strákum!

Freyr - 24/08/09 11:50 #

Þú heppinn að komast að hjá ÍE. Ég mætti bæði kl 3 og 5 en var fullt í bæði skiptin.

Alveg sammála með tónlistina líka. Ingó stal senunni, ef svo má að orði komast.

Matti - 24/08/09 11:53 #

Við mættum í IE korter í fimm og fengum sæti aftast þar sem búið var að raða lausum stólum.

Kristinn Roach Gunnarsson - 24/08/09 19:27 #

Ég er meðlimur í hljómsveitinni útidúr og vil þakka kærlega fyrir hlý orð í okkar garð. Hljómsveitin heitir reyndar útidúr með i-i og hana má finna á myspace og facebook. Myndin sem þú tókst er mjög flott og ég ætlaði að spyrja hvort að við mættum setja hana á facebook síðuna okkar og kannski nota í eitthvað kynningarefni?

Matti - 24/08/09 19:50 #

Ah, Útidúr - mín mistök :-)

Gjörið svið vel, þið megið nota myndina.