Örvitinn

Hagsmunasamtök sumra heimila

Hagsmunasamtök heimilanna gæta ekki minna hagsmuna og tala ekki fyrir mig.

Ég tel reyndar að málflutningur þeirra geti verið skaðlegur mínum hagsmunum og hagsmunum langflestra landsmanna. Ég tel hugmyndir þeirra um greiðsluverkfall óábyrgar og barnalegar.

Hugtakið greiðsluvilji er einnig barnalegt og í raun stórfurðulegt að það sé almennt notað í dag. Ég þekki engann sem vill borga lánin sín. Við gerum það vegna þess að við höfum skuldbundið okkur til þess. Ásakanir í garð fjármálaráðherra, um að hann hefði hótað fólki, eru gjörsamlega út í hött. Hann varaði við, sagði það sem blasir við öllum sem skoða málin fordómalaust. Auðvitað getur (og mun) fólk lenda í vandræðum ef það hættir að borga af lánum. Læknir sem varar fólk við að reykingar geti leitt til lungnakrabbameins er ekki að hóta því heldur vara við.

pólitík
Athugasemdir

Eygló - 03/09/09 00:42 #

Já, þetta greiðsluviljadæmi er frekar spes. Heyrði þetta orð fyrst í síðustu viku.

- grettir - 03/09/09 09:39 #

Ég er allur af vilja gerður að borga mín lán, þ.e.a.s. þann pening sem ég fékk að láni + einhverja sanngjarna þóknun (vexti).

Það sem ég er ekki til í að borga er það sem búið er að smyrja ofan á lánið vegna óstjórnar einkafyrirtækja (bankanna).

Ég veit að skaðinn hefði verið gífurlegur ef bankarnir hefðu verið látnir fara á hausinn, en hefði það verið gert er kannski smá séns að fjármagnseigendur hefðu aðstoðað okkur skuldavesalingana við að ná fram rétti okkar.

Húsnæðiskaup er bara eitt form sparnaðar í flestum siðmenntuðum löndum, en hérna er þetta eins og rússnesk rúlletta.

Ef að aðgerðir hagsmunasamtakanna vekja einhverja þursa í stjórnsýslunni og í bankakerfinu til meðvitundar, þá finnst mér 2ja vikna dráttur í greiðslum ekki stórmál.

Matti - 03/09/09 09:45 #

Ég veit að skaðinn hefði verið gífurlegur ef bankarnir hefðu verið látnir fara á hausinn, en hefði það verið gert er kannski smá séns að fjármagnseigendur hefðu aðstoðað okkur skuldavesalingana við að ná fram rétti okkar.

Gerir þú þér grein fyrir hver skaðinn hefði raunverulega orðið?

Greiðslukerfi landsins hefði farið á hliðina. Fyrirtæki hefðu ekki lengur getað greitt laun. Á þriðja degi hefði fólk þurft að fara gripdeildum um matvöruverslanir til að fá mat handa fjölskyldunni.

Og hvaða fjármagnseigendur er þetta sem vinna gegn skuldavesalingum? Eru ekki langflestir fjármagnseigendur venjulegt fólk sem skuldar líka?

Húsnæðiskaup er bara eitt form sparnaðar í flestum siðmenntuðum löndum, en hérna er þetta eins og rússnesk rúlletta.

Tja, síðustu ár voru öll skotin í byssunni hlaðin. Það sáu flestir að verð á húsnæði var glórulaust, að ekkert vit var í að taka 90-100% lán fyrir því og að gengi krónunnar var út í hött.

Vandamálið er að hér var erfitt að leigja. Fólk hafði stundum ekki valkosti.

Ef að aðgerðir hagsmunasamtakanna vekja einhverja þursa í stjórnsýslunni og í bankakerfinu til meðvitundar

Ég held að fólk í stjórnsýslunni og bankakerfinu sé afskaplega meðvitað um vandamálið. Það er a.m.k. mín reynsla af samtölum við það síðustu mánuði. Ég er ekki viss um að Hagsmunasamtökin séu alveg meðvituð.

Um almenna niðurfellingu skulda tengist þessu.

- grettir - 03/09/09 10:08 #

Jú, ég geri mér grein fyrir því að skaðinn hefði orðið gífurlegur og ég veit vel hvaða vinna lá að baki við að koma greiðslumiðlun við útlönd í samt lag og kom að þeirri vinnu með teymi úr bönkunum og seðlabankanum.

Nú máttu ekki skilja það sem svo að ég sé eitthvað hlynntur því að það fái bara allir sínar skuldir niðurfelldar eða ég hafi eitthvað á móti sparifjáreigendum. Síður en svo. Ég og mín fjölskylda höfum reynt að lifa sparlega í góðærinu, keyptum passlega íbúð, skuldum frekar lítið miðað við að við erum á "basl" aldrinum.

En þegar allur eignarhlutur manns brennur upp og skuldin stækkar og stækkar þá veltir maður því fyrir sér hvort þetta sé kerfi sem maður er til í að taka þátt í að endurbyggja. Málið er nefnilega að flestir eru ekki að biðja um niðurfellingu á því sem þeir fengu lánað, heldur á því sem hefur hlaðist ofan á lánið vegna hrunsins.

Matti - 03/09/09 11:04 #

Ég sé ekki mikinn skaða þó fólk sleppi því að greiða skuldir sínar í smá tíma. En fólk hættir að greiða þrátt fyrir að eiga fyrir því er alveg ljóst að það mun leggjast á það kostnaður, það mun verða í verri stöðu. Það er (vonandi) alltaf betra að reyna að semja.