Örvitinn

Um almenna niðurfellingu skulda

Ef ég væri Egill Helgason myndi ég afrita í heild sinni grein Jóns Steinssonar sem birtist á bls. 19 í Morgunblaðinu í dag. Þar spyr hann þeirrar lykilspurningar hvort "ríkið [eigi] að taka fé frá þeim sem lítið skulda í gegnum hærri skatta og færa það til þeirra sem skulda mikið en munu á endanum geta greitt skuldir sínar". Segir einnig að "þeir sem taka hvað harðasta afstöðu með almennri skuldaniðurfellingu þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir eru í raun að berjast fyrir því að byrðin af hruninu verði með ákvörðun stjórnvalda færð til þeirra sem tóku minni lán. Skynsemi og sanngirni þess má draga í efa svo ekki sé fastar að orði kveðið".

Ég skelli inn vísun þegar greinin birtist hjá Agli.

pólitík
Athugasemdir

Baddi - 03/09/09 08:49 #

Ágætis grein og hefur viðkomandi margt til málanna að leggja. Hann kannski gleymir því að ríkið setti ansi marga peninga í peningamarkaðssjóði til að verja fjármagnseigendur og má eginlega segja að þeir sem skulda lítið eru þeir sem eiga marga peninga. Mér finnst persónulega að jafnræði ætti að gilda í þessu. Það sama ætti að gilda yfir alla (ekki það að ég skuldi eitthvað mikið eða þurfi á aðstoð að halda).

Matti - 03/09/09 09:07 #

Ég held hann gleymi því ekki, það er bara allt önnur umræða. Það má ekki líta hjá því að þær aðgerðir sem framkvæmdar voru hér til að bjarga innistæðum voru nauðsynlegar. Ef bankarnir hefðu bara hrunið og innistæður með hefði þjóðfélagið farið á hliðina. Innistæðum í bönkum var bjargað með því að færa kröfur framar í forgangsröð. Ég veit ekki hvað nýju bankarnir settu mikið í peningamarkaðssjóði, en það var eitthvað töluvert.

Mér finnst persónulega að jafnræði ætti að gilda í þessu. Það sama ætti að gilda yfir alla

Eins og Jón bendir á í grein sinni þá er það afskaplega dýr og ósanngjörn leið.

Svo minni ég á þetta rosalega fína graf :-)

Á - 03/09/09 09:08 #

Ríkið varði suma fjármagnseigendur. Framlag bankanna til venjulegra sparifjáreigenda hefur verið að lækka innlánsvexti umtalsvert seinustu mánuði. Þeir eru líka að taka þátt í kreppunni.

hildigunnur - 03/09/09 09:10 #

Baddi, hmm, ég skulda lítið en ég á samt ekkert mikla peninga. Hef bara aldrei lifað um efni fram. Jú, ég á um milljón í banka, vegna þess að við sjáum sjálf um greiðsludreifingu hjá okkur, megnið af henni fer upp í húsnæðislánin mín (ekki há, enda vorum við heppin að kaupa fyrir sprengju - það er náttúrlega ekki okkur að þakka) og námslánin. Örugglega fullt af fólki í sama pakka.

Matti - 03/09/09 09:12 #

Svo ég tali sem fjármagnseigandi þá er þetta frekar skýrt.

Allt fjármagn sem ég átti í hlutabréfum brann upp, varð að engu. Þar með talið hlutabréf í banka sem ríkið yfirtók.

Restin af mínu fjármagni var á bankabók í banka sem ekki fór á hausinn. Þar rýrnar það með hverjum degi, jafnvel það sem er á verðtryggðum bundnum reikning því ég borga fjármagnstekjuskatt af vöxtum og verðbótum.

Fullt af fólki sem átti peninga í peningamarkaðsbréfum, sem það verið sannfært um að væri 100% örugg ávöxtun, tapaði miklu.

Gleymum því heldur ekki að þegar innistæður voru færðar framar í kröfuröðina færðust peningamarkaðsbréfin aftar. Sú ákvörðun skerti því eigur þeirra sem áttu eitthvað í peningamarkaðssjóðum.

Svo vil ég taka fram fyrir Jónasa að ég átti ekki og hef aldrei átt krónu í peningamarkaðssjóði :-)

Björn Friðgeir - 03/09/09 13:00 #

Matti, einn punktur. Þú verður að hætta að kvarta undan fjármagnstekjuskatti á verðbætur, verðbætur eru bara eins og hverjir aðrir vextir, bara öðruvísi ákvarðaðar. Þetta er svipað og að kvarta undan að launahækkanir séu skattlagðar.

Á meðan verðbólga eru minna en 5,67faldir verðtryggðir vextir, þá eru verðtryggðir reikningar ekki að rýrna. (Verðbólga minni en (verðbólga + vextir)*0,85 þ.a.l. ekki rýrnun)

ó, og annað, peningamarkaðsbréfin eru ekki krafa á bankann, þannig að þau færast ekki aftar. Hins vegar ef peningamarkaðssjóðurinn átti skuldabréf á bankann, þá færist sú eign sjóðsins aftar í kröfuröðina.

Matti - 03/09/09 13:14 #

Matti, einn punktur. Þú verður að hætta að kvarta undan fjármagnstekjuskatti á verðbætur, verðbætur eru bara eins og hverjir aðrir vextir, bara öðruvísi ákvarðaðar. Þetta er svipað og að kvarta undan að launahækkanir séu skattlagðar.

En ég var ekkert að kvarta hér! Hvernig á ég þá að hætta? :-)

Það eru 4.55% vextir á verðtryggða reikningnum mínum. Hvað þarf verðbólga að vera há til að fjármagnstekjuskattur á verðbætur sé meiri en vextirnir? M.ö.o. ef ég er að safna mér fyrir X sem hækkar skv. vísitölu, við hvaða vísitöluhækkun á ég ekki lengur fyrir X eftir árið ef ég átti það í upphafi?

ó, og annað, peningamarkaðsbréfin eru ekki krafa á bankann, þannig að þau færast ekki aftar. Hins vegar ef peningamarkaðssjóðurinn átti skuldabréf á bankann, þá færist sú eign sjóðsins aftar í kröfuröðina.

Er það ekki raunin í flestum stærri sjóðum hér á landi? Ég biðst velvirðingar á óskýru orðalagi.

Erlendur - 03/09/09 13:47 #

Nú, eru teknir fjármagnstekjuskattar af verðbótunum sjálfum? Ekki bara vöxtunum?

Matti - 03/09/09 13:52 #

Eins og Björn bendir á eru verðbætur bara eins og aðrir vextir þannig að fjármagnstekjur eru reiknaðar af verðbótum líka.

Björn Friðgeir - 03/09/09 14:43 #

Verðbólgan þarf að vera 25,8% til að allir 4,55% fari í skatt : (25,8+4,55)*0,85 = 25,8 (sirka)