Örvitinn

Afskriftalógík

Sumir skuldarar* vilja meina að fyrst kröfuhafar hafa gert ráð fyrir ákveðnum afföllum af lánum og þar með afskrifað hluta af sínum kröfum eigi þau afföll að skila sér áfram til skuldara sem eigi þá að borga minna sem nemur þessum afskriftum. Ef gert hefur verið ráð fyrir 10% tapi eigi allir að fá 10% afslátt.

Ég er kannski að misskilja þetta allt saman en ég sé furðulega afskriftalógík í þessu.

Vandinn við þá lógík er að við útreikninga á afskriftum var ekki gert ráð fyrir að skuldarar myndu almennt einungis borga hluta af skuldum sínum heldur var reynt að meta hversu mikið myndi tapast. Í sumum tilvikum væri það allt, stundum helmingur og í einhverjum tilvikum var gert ráð fyrir að allt væri greitt. Ef það væri tekið inn í myndina að afföll myndu ná yfir línuna til skuldara þyrfti að afskrifa meira og þá myndu skuldarar væntanlega aftur vilja borga minna af sínum skuldum (ef við miðum áfram við einhver hlutfallslega afföll yfir línuna). Ef við rekjum okkur áfram endar væntanlega með því að allt verður afskrifað og enginn skuldari þarf að borga sitt. Hvaðan ætli peningarnir komi þá?

Ég held að þessi lógík gangi einfaldlega ekki upp. Ef við bætum við það sem þegar hefur verið afskrifað segir sig sjálft að afskrifa þarf meira og einhver þarf að taka á sig tapið.

* Hver er það ekki?

pólitík
Athugasemdir

ÞJ - 05/09/09 19:02 #

Tap hjá sumum í þessu tilliti er hagnaður hjá öðrum. Verðbótakostnaður og gengistap hjá skuldurum bætir eignasafnið hjá bönkunum og þar með ríkinu hins vegar og kallast það þeim megin vaxta og gengismunatekjur. Leiðrétting skulda sem til hafa komið vegna hrunsins er því bara sjálfsögð krafa skuldara og eingöngu er um það að ræða að þeir sem högnuðust óvænt á hruninu skila vaxta og verðbótatekjunum tilbaka.

Matti - 05/09/09 19:04 #

Hverjir eru það eiginlega, hér á landi, sem "högnuðust óvænt á hruninu"?

Halli - 05/09/09 22:21 #

Þeir eru hrópendur í eyðimörkinni sem reyna að benda á arfavitleysuna í þessari afskriftarumræðu sem öllu er að tröllríða nú um mundir.

Bankarnir þora ekki að stíga fram vegna þess að þeir eru hræddir um að missa viðskiptin, fjölmiðlar vilja ekki birta fréttir sem gefa í skyn að þeir 'haldi með' vondu bönkunum, alþingismenn eru of skyni skropnnir og stjórnvöld hafa ekki tíma til þess að standa í slíkum leiðréttingum.

Bravó fyrir að hugsa um þessi mál af skynsemi og fyrir að standa upp og segja frá því.